Bæjarstjórar á ráðherralaunum

Tveir bæjarstjórar á hærri launum en forsætisráðherra – Nokkrir þiggja líka full laun sem bæjarfulltrúar – Launakostnaður vegna bæjarstjóra og -stjórna hækkað um allt að 44 prósent milli ára

Launahæstu bæjarstjórarnir í úttekt DV.
Tróna á toppnum Launahæstu bæjarstjórarnir í úttekt DV.
Mynd: Samsett mynd

Launahæstu bæjarstjórar landsins þéna á við forsætisráðherra Íslands og gott betur. Oft virðist lítið samræmi á milli launa bæjarstjóra og stærðar sveitarfélagsins. Þeir launahæstu þiggja flestir bæði full laun fyrir að vera bæjarstjórar og kjörnir bæjarfulltrúar sem ýtir þeim launalega upp að hlið borgarstjóra Reykjavíkur og nokkurra æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Meðallaun bæjarstjóra í dag eru um 1,6 milljónir króna á mánuði. Launahæstur allra er bæjarstjórinn í Kópavogi sem fær rúmar 2,2 milljónir á mánuði.

Þetta kemur fram í úttekt DV á launum bæjarstjóra þar sem óskað var eftir upplýsingum um laun og hlunnindi fjórtán bæjarstjóra víðs vegar um landið. Tilefnið er að undanfarið hafa sveitarfélög verið að birta ársreikninga sína þar sem lítið gagnsæi er í uppgefnum upplýsingum um laun og hlunnindi æðstu stjórnenda. Laun bæjarstjóra og bæjarstjórna eru ekki sundurliðuð sérstaklega í reikningunum. DV óskaði því eftir þessum upplýsingum hjá hverju þessara sveitarfélaga fyrir sig. Óskað var eftir upplýsingum um heildarmánaðarlaun bæjarstjóra á mánuði í dag, spurt hvort þeir nytu hlunninda, svo sem bifreiðarhlunninda eða annars, hvort bæjarstjórinn fengi laun fyrir setu í nefndum eða ráðum á vegum sveitarfélagsins og ef svo væri um hvað væri að ræða og hversu háar greiðslur hann fengi fyrir setuna. Þá var spurt út í heildarárslaun og hlunnindi bæjarstjóra árin 2016 og 2015.

DV greindi nýverið ítarlega frá sundurliðuðum launakjörum Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, eftir að hafa óskað eftir þeim upplýsingum frá Reykjavíkurborg, sem leiddi í ljós að borgarstjórinn er með ríflega tvær milljónir króna á mánuði þegar seta í stjórnum og nefndum er tekin með.

Ármann Kr. launahæstur

Tveir bæjarstjórar eru launahærri en borgarstjóri Reykjavíkur og raunar launahærri en forsætisráðherra Íslands. Sá launahæsti er Ármann Kr. Ólafsson sem fær alls rúmlega 2,2 milljónir króna á mánuði í Kópavogi; full laun sem bæjarstjóri upp á rúmlega 1.900 þúsund krónur með bifreiðastyrk og rúmar 317 þúsund krónur sem bæjarfulltrúi. Hafa ber í huga að Kópavogur er næststærsta bæjarfélag landsins með ríflega 34 þúsund íbúa.

Hæstu bæjarstjóralaunin í Garðabæ

Fast á hæla Ármanni kemur Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, sem fær hæstu föstu launin fyrir bæjarstjórastarfið af öllum, rúmlega 2,1 miljón króna á mánuði. Munurinn er hins vegar sá að Gunnar náði ekki inn sem aðalmaður í bæjarstjórn í síðustu sveitarstjórnarkosningum og er því varamaður og fær aðeins greitt aukalega þegar hann tekur sæti á fundum bæjarstjórnar. Væri hann á fullum bæjarfulltrúalaunum líka væri hann því án vafa launahæsti bæjarstjóri landsins í bæjarfélagi sem telur tæplega 15 þúsund manns.

Svona eru ráðherralaunin

Litið upp launastigann til Ármanns og Gunnars?
Litið upp launastigann til Ármanns og Gunnars?

Samkvæmt umdeildum úrskurði kjararáðs frá því í nóvember 2016 eru laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands eftirfarandi, til samanburðar við laun bæjarstjóranna:

Laun forseta Íslands: 2.985.000 kr. á mánuði.

Laun forsætisráðherra: 2.021.825 kr. á mánuði

Laun annarra ráðherra: 1.826.273 kr. á mánuði.

Þingfararkaup alþingismanna: 1.101.194 kr. á mánuði.

Mosfellsbær greiðir vel

Þriðji á lista yfir launahæstu bæjarstjórana er Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, með alls 1.945 þúsund krónur á mánuði í dag. Hann fær tæpar 1,7 milljónir króna á mánuði sem bæjarstjóri og tæplega 250 þúsund krónur því til viðbótar sem bæjarfulltrúi. Þar að auki hefur hann bifreið í eigu bæjarins til afnota. Rúmlega 9.400 manns búa í Mosfellsbæ.

Flott laun í fámennum bæ

Rétt fyrir neðan Harald kemur bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Ásgerður Halldórsdóttir, með 1,9 milljónir á mánuði; tæpar 1,7 milljónir fyrir að vera bæjarstjóri og rúmar 200 þúsund krónur á mánuði sem bæjarfulltrúi að auki. Þá fær Ásgerður greitt fyrir hvern fund í veitustjórn sem fundar þrisvar til fjórum sinnum á ári og hefur Skoda Octavia-bifreið til umráða frá bæjarfélaginu. Í árslok 2016 bjuggu 4.415 á Seltjarnarnesi og ef við miðum við höfðatölu þá jafngildir það að hvert mannsbarn á Seltjarnarnesi sé að greiða 430 krónur á mánuði í laun til Ásgerðar.

Hæstu laun miðað við höfðatölu

Ekki þiggja þó allir bæjarstjórar í úttekt DV bæjarfulltrúalaun ofan á bæjarstjóralaunin sín. Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, hefur afsalað sér launum sem hann á rétt á fyrir setu í bæjarstjórn sem kjörinn fulltrúi. Þetta gerir að verkum að hann er með launalægri bæjarstjórum í úttekt DV. Á móti kemur að í Stykkishólmi búa aðeins 1.113 manns og fær enginn bæjarstjóri hærri laun miðað við höfðatölu en Sturla, en þau jafngilda því að hvert mannsbarn í bænum greiði honum 1.269 krónur á mánuði.

Dýrir fulltrúar í Kópavogi

DV tók einnig saman heildarlaunakostnað sveitarfélaganna vegna bæjarstjóra og bæjarstjórna þeirra, miðað við uppgefnar upplýsingar í ársreikningum þeirra. Í Kópavogi er ekki aðeins bæjarstjórinn dýr því ef litið er á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þá eru kjörnir fulltrúar dýrastir í rekstri þar, að Reykjavík undanskilinni. Í Kópavogi nam launakostnaður kjörinna fulltrúa 95 milljónum króna í fyrra. Garðabær og Hafnarfjörður, með um og yfir 70 milljónir í launakostnað á síðasta ári, fylgja þar í kjölfarið. Eins og sjá má meðfylgjandi töflu hefur launakostnaður aukist mest milli ára í Hafnarfirði, af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, um tæp 17 prósent.

Á landsbyggðinni, til samanburðar, nam launakostnaður vegna bæjarstjóra og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 58 milljónum í fyrra, Árborg 54 milljónum og Fjarðabyggð 53,6 milljónum. Hvergi hækkaði þessi launakostnaður meira milli ára en hjá Stykkishólmsbæ, eða um 44 prósent.


1. Kópavogur

Bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson Bæjarstjóri Kópavogs.
Mynd: Aðsend: Kópavogsbær

Bæjarstjóri: Ármann Kr. Ólafsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.908.913 kr.
Laun sem bæjarfulltrúi: 317.272 kr.

Alls á mánuði: 2.226.185 kr.

Annað:
Bæjarstjóri þiggur ekki laun fyrir að vera hafnarstjóri og situr ekki í öðrum nefndum og ráðum. Hann situr fundi bæjarráðs sem bæjarstjóri en er ekki kjörinn í bæjarráð og þiggur þar af leiðandi ekki laun fyrir setuna þar.

Heildarárslaun 2016: 22.722.802 kr.
Heildarárslaun 2015: 21.460.447 kr.

Bifreiðastyrkur innifalinn í upphæðum


2. Garðabær

Bæjarstjóri Garðabæjar.
Gunnar Einarsson Bæjarstjóri Garðabæjar.

Bæjarstjóri Gunnar Einarsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 2.117.860

Annað
Bæjarstjóri er varamaður í bæjarstjórn Garðabæjar og þiggur laun fyrir fundi þar sem hann tekur sæti. Ekki er greitt fyrir aðra fundarsetu. Garðabær leggur bæjarstjóra til Land Cruiser-jeppa.

Heildarárslaun 2016: 25.870.935 kr.
Heildarárslaun 2015: 23.950.213 kr.

(Laun fyrir setu á bæjarstjórnarfundum í fyrra námu 1.495.635 kr. Gunnar sat sem bæjarfulltrúi fyrir Almar Guðmundsson sem var í tímabundnu leyfi árið 2016.)


3. Mosfellsbær

Bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Haraldur Sverrisson Bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Bæjarstjóri: Haraldur Sverrisson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.698.055 kr.
Laun sem bæjarfulltrúi: 247.769
Alls á mánuði: 1.945.824 kr.

Annað:
Bæjarstjóri hefur bifreið í eigu bæjarins til afnota.

Heildarárslaun 2016: 17.317.576 kr.
Heildarárslaun 2015: 16.388.460 kr.


4. Seltjarnarnes:

Bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.
Ásgerður Halldórsdóttir Bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.

Bæjarstjóri: Ásgerður Halldórsdóttir

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.698.055 kr.
Laun sem bæjarfulltrúi: 202.332 kr.
Alls á mánuði: 1.900.387 kr.

Annað:
Greitt fyrir setu í veitustjórn, greitt fyrir hvern fund: 32.066 kr., yfirleitt 3–4 fundir á ári.
Bæjarstjóri hefur Skoda Octavia-bifreið til umráða.

Heildarárslaun 2016: 21.470.880 kr.
Heildarárslaun 2015: 18.869.399 kr.


5. Sveitarfélagið Árborg

(Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri og Tjarnarbyggð)

Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar.
Ásta Stefánsdóttir Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar.
Mynd: arborg.is

Framkvæmdastjóri: Ásta Stefánsdóttir

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.608.839 kr.
Laun fyrir setu í bæjarstjórn: 190.735 kr.
Laun fyrir setu í skipulags- og byggingarnefnd: 34.332 kr.

Alls á mánuði: 1.833.906 kr.

Heildarárslaun 2016: 23.309.060 kr.
Heildarárslaun 2015: 22.244.284 kr.


6. Hafnarfjörður

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Haraldur L. Haraldsson Bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Mynd: Hafnarfjordur.is

Bæjarstjóri: Haraldur L. Haraldsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.670.725 kr.

Annað:
Inni í mánaðarlaunum er innifalinn bifreiðastyrkur upp á 55 þús. kr. á mánuði.
Bæjarstjóri fær ekki greitt fyrir setu í nefndum eða ráðum.

Heildarárslaun 2016: 20.664.947 kr.
Heildarárslaun 2015: 17.878.808 kr.


7. Reykjanesbær:

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson Bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Bæjarstjóri: Kjartan Már Kjartansson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.569.340 kr.

Annað:
Fær ekki greitt sérstaklega fyrir fundarsetu.

Heildarárslaun 2016: 19.172.750 kr.
Heildarárslaun 2015: 17.983.080 kr.

Bæði árin átti sér stað afturvirk launaleiðrétting.


8. Fjarðabyggð

(Neskaupstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður og Mjóifjörður)

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Páll Björgvin Guðmundsson Bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Mynd: Fjardabyggd.is

Páll Björgvin Guðmundsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.534.974 kr.

Annað:
Hefur bifreið til afnota við störf sín.
Þiggur ekki laun fyrir setu í nefndum eða ráðum á vegum sveitarfélagsins.

Heildarárslaun 2016: 20.176.655 kr.
Heildarárslaun 2015: 15.727.794 kr.

Árið 2016 inniheldur uppgjör á uppsöfnuðu orlofi


9. Ísafjarðarbær

(Ísafjörður, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Hnífsdalur)

Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Gísli H. Halldórsson Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Mynd: Ísafjörður.is

Bæjarstjóri: Gísli H. Halldórsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.510.209 kr.

Annað:
Laun fyrir setu í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins innifalin í heildarlaunum.
Engin önnur hlunnindi.

Heildarárslaun 2016: 16.755.712 kr.
Heildarárslaun 2015: 15.467.783 kr.


10. Akureyri:

Bæjarstjóri Akureyrarbæjar.
Eiríkur Björn Björgvinsson Bæjarstjóri Akureyrarbæjar.
Mynd: Akureyri.is

Bæjarstjóri: Eiríkur Björn Björgvinsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.472.988 kr.

Annað:
Bæjarstjóri fær greitt fyrir notkun á eigin bifreið í þágu bæjarins.
Fær ekki greitt sérstaklega fyrir setu á fundum nefnda, ráða eða bæjarstjórnar.

Heildarárslaun 2016: 17.329.116 kr.
Heildarárslaun 2015: 17.629.048 kr.


11. Vestmannaeyjar

Bæjarstjóri Vestmanneyjabæjar.
Elliði Vignisson Bæjarstjóri Vestmanneyjabæjar.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Bæjarstjóri: Elliði Vignisson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 966.036 kr.
Laun fyrir setu í nefndum, ráðum og bæjarstjórn: 484.732 kr.

Alls á mánuði: 1.450.768 kr.

Annað:
Notar eigin bíl í störfum fyrir sveitarfélagið, fær greiddan bifreiðarstyrk upp á 950 kílómetra á mánuði.

Heildarárslaun 2016: 18.264.209 kr.
Heildarárlaun 2015: 17.146.695 kr.


12. Fljótsdalshérað

(Egilsstaðir, Brúarás, Eiðar, Fellabær og Hallormsstaður)

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Björn Ingimarsson Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Bæjarstjóri: Björn Ingimarsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.437.493 kr.

Annað:
Ekki greitt sérstaklega fyrir fundarsetu í nefndum á vegum sveitarfélagsins.

Heildarárslaun 2016: 16.480.086 kr.
Heildarárslaun 2015: 15.584.364 kr.


13. Fjallabyggð

Bæjarstjóri: Gunnar I. Birgisson

Bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Gunnar I. Birgisson Bæjarstjóri Fjallabyggðar.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.430.340 kr.

Annað:
Gunnar er stjórnarmaður í Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, greiddar 24.226 kr. fyrir hvern fund, fundað 11 sinnum á ári. Alls áætlað 266.486 kr.

Heildarárslaun 2016: 17.201.490 kr.
Heildarárslaun 2015: 15.572.615 kr.


14. Stykkishólmur

Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar.
Sturla Böðvarsson Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar.
Mynd: Karl Petersson

Bæjarstjóri: Sturla Böðvarsson

Mánaðarlaun sem bæjarstjóri: 1.412.681 kr.

Annað:
Sturla hefur afsalað sér launum sem hann á rétt á fyrir setu í bæjarstjórn sem kjörinn bæjarfulltrúi.

Heildarárslaun 2016: 16.122.286 kr.
Heildarárslaun 2015: 14.414.112 kr.


Reykjavík:

Borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri Reykjavíkur.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Borgarstjóri: Dagur B. Eggertsson

Laun sem borgarstjóri: 1.490.457 kr.
Starfskostnaður: 90.636 kr.
Laun sem stjórnarformaður Faxaflóahafna: 305.176 kr.
Seta í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins: 170.888 kr.

Alls á mánuði: 2.057.157 kr.

Annað:
Laun fyrir setu í Almannavernd höfuðborgarsvæðisins, greitt fyrir hvern fund 31.375 kr., 2–4 fundir á ári.
Borgarstjóri hefur afnot af bifreið, Volkswagen Passat.


Launakostnaður vegna bæjarstjóra og bæjarstjórna

Meðfylgjandi eru upplýsingar um launakostnað vegna bæjarstjóra og bæjarstjórna hvers sveitarfélags fyrir sig samkvæmt ársreikningum þeirra. Launatölur eru ekki sundurliðaðar í ársreikningum, aðeins gefin upp heildartala árslauna, hlunninda og launatengdra gjalda.

Höfuðborgarsvæðið

Bæjarfélag/laun 2016 2015 Hækkun milli ára% Íbúafjöldi árslok 2016
Reykjavík 164 millj. 158 millj. 3,8% 122.460
Kópavogur 95 millj. 81 millj. 17,3% 34.140
Garðabær 70,7 millj. 62 millj. 14% 14.717
Hafnarfjörður 69,9 millj. 59,8 millj. 16,9% 28.189
Mosfellsbær 50,1 millj. 47,3 millj. 5,9% 9.481
Seltjarnarnes 45,2 millj. 41,1 millj. 10% 4.415

Landsbyggðin

Bæjarfélag/laun 2016 2015 Hækkun milli ára% Íbúafjöldi árslok 2016
Reykjanesbær 58,3 millj. 57,8 millj. 0,8% 15.233
Árborg 54,2 millj. 54,6 millj. -0,7% 8.206
Fjarðabyggð 53,6 millj. 48,2 millj. 11,2% 4.693
Akureyri 46,7 millj. 40,9 millj. 14,2% 18.294
Vestmannaeyjar 45,6 millj. 41,2 millj. 10,7% 4.282
Fljótsdalshérað 33,6 millj. 31 millj. 8,3% 3.443
Stykkishólmur 31,6 millj. 21,9 millj. 44% 1.113
Fjallabyggð x 32 millj. x 2.025
Ísafjarðarbær X 38,3 millj. X 3.623

Þar sem upplýsingar vantar hafa ársreikningar ekki verið birtir.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.