fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Sænskum stúlkum er misþyrmt, sviptar frelsi og hótað að þær verði giftar gegn vilja sínum

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 30. maí 2017 12:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Svíþjóð hefur þeim málum sem snúast um svokallað „heiðurstengt ofbeldi“ fjölgað mikið hjá dómstólum en á síðasta ári fjölgaði slíkum málum um 50 prósent miðað við árið áður og allt stefnir í að þeim fjölgi enn frekar á þessu ári. Það er umdeilanlegt að nota orð eins og „heiðurstengt og heiðursmorð“ um mál sem þessi en það er samt sem áður gert á Norðurlöndunum.

Mál af þessum toga snúast um að fjölskyldur stúlknanna beita þær ofbeldi, þvingunum og hótunum til að fá þær til að hegða sér þannig að það varpi ekki rýrð á heiður fjölskyldunnar. Í gegnum árin hafa verið fluttar fréttir af „heiðursmorðum“ en í þeim málum hafa stúlkur verið myrtar af feðrum sínum, mæðrum eða bræðrum til að „tryggja“ heiður fjölskyldunnar. Tilefnin geta verið lítilfjörleg, til dæmis að stúlkan eigi unnusta sem er fjölskyldunni ekki þóknanlegur eða þá að lífsmáti hennar og viðhorf samrýmist ekki hugarheimi og lífsskoðunum annarra fjölskyldumeðlima, þar á meðal trúarbrögðum.

Sænska Aftonbladet fjallaði nýlega um þetta en blaðamenn höfðu farið yfir 200 mál af þessum toga frá 2015. Í umfjöllun blaðsins er meðal annars sagt frá 15 ára stúlku sem var hótað af fjölskyldu sinni að hún yrði neydd í hjónaband í Palestínu því hún átti unnusta sem aðhylltist ekki sömu trúarbrögð og hún. Hún dvelur nú að vernduðu heimili í skjóli fyrir fjölskyldu sinni.

Í öðru máli var 14 ára stúlka lamin og hótað af foreldrum sínum því hún gekk í buxum og neitaði að sinna heimilisstörfum. Hún varð einnig að þola mikla félagslega stjórn frá foreldrum sínum daglega.

Yngsta barnið sem kom við sögu í þessum málum var aðeins 4 ára stúlka sem býr í Västra Götalands léni. Í dómi í máli hennar kemur fram að faðir hennar ætlaði að gifta hana bróðursyni sínu í heimalandi hans. Móðir stúlkunnar hafði verið þvinguð í hjónaband með föður stúlkunnar þegar hún var tvítug en faðirinn er 17 árum eldri. Hann stjórnaði eiginkonu sinni harðri hendi og misþyrmdi henni líkamlega.

Fjölskyldan flúði stríðsátök og settist að í Svíþjóð. Í framhaldi af því yfirgaf konan eiginmann sinn sem hefur sagt að hún „hafi grafið sína eigin gröf berhent“ með því að yfirgefa hann. Hann hefur sagt að hann ætli með dóttur þeirra til heimalandsins og gifta hana eins og áður var getið.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það sem er hægt að lesa í umfjöllun Aftonbladet um frelsissviptingar, misþyrmingar, hótanir og nauðungarhjónabönd sem konur á öllum aldri upplifa í Svíþjóð.

Í málunum 200 er upprunaland stúlknanna getið í 94 tilfellum. Flestar þeirra eiga rætur að rekja til Sýrlands, Írak og Afganistan eða 57. Flestar þeirra eru múslimar en einnig eru dæmi um kristnar stúlkur sem hafa upplifað ofbeldi og hótanir fyrir að verða ástfangnar af múslimum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni