fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Það sem má ekki gleymast

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 26. maí 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Okkur er sagt að hryðjuverkamenn vilji með morðum sínum skapa glundroða í samfélögum sem alla jafna eru fremur friðsamleg. Okkur er líka sagt að við eigum ekki að breyta háttum okkar í of miklum mæli því um leið og við gerum það hafi hryðjuverkamenn náð ákveðnum árangri. Þetta er bæði satt og rétt. Það er hins vegar illmögulegt að láta eins og ekkert sé. Hryðjuverkin í vestrænum lýðræðislöndum hafa breytt of mörgu. Öryggisgæsla er á stöðum sem áður voru taldir öruggir og vopnuð lögregla sést oftar á ferli en áður. Hættan á hryðjuverkum er staðreynd. Þjóðir heims þurfa að lifa með þeirri vitneskju og um leið getur verið erfitt að vera óttalaus.

Í einfeldni hafa margir eflaust talið að hryðjuverkamenn myndu ekki láta til skarar skríða á stöðum þar sem börn og ungmenni koma saman, eins og á tónleikunum í Manchester. Nú vitum við að þessum mönnum er ekkert heilagt, líf barna þykja þeim jafn lítils virði og líf annarra. Allt þykir leyfilegt í baráttunni við hin frjálslyndu þjóðfélög.

Ef vestræn gildi eru okkur kær, sem þau hljóta að vera, þá stöndum við vörð um þau. Við viljum búa í frjálslyndu samfélagi sem hefur mannréttindi í heiðri. Þess vegna skiptir máli hvernig einstaklingar bregðast við hryðjuverkum. Það er merkilegt að um leið og illskan sýnir andlit sitt þá birtist hið góða samstundis í öllu sínu veldi. Þetta höfum við ítrekað séð og nú síðast í Manchester.

Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri DV.

Eftir hina skelfilegu hryðjuverkaárás þar opnuðu bæjarbúar heimili sín fyrir tónleikagestum sem ekki komust heim og hið sama gerðu hóteleigendur. Leigubílstjórar komu til aðstoðar og keyrðu fólk heim án þess að taka gjald fyrir. Útigangsmenn hlúðu að særðum börnum og töluðu máli mennsku og mannúðar við fréttamenn. Hjúkrunarfólk sem var ekki á vakt hraðaði sér á vinnustað sinn. Enn á ný urðum við vitni að samstöðu einstaklinga sem stóðu frammi fyrir þeirri skelfilegu staðreynd að tugir manna höfðu látið lífið í hryðjuverkaárás. Eðlislæg viðbrögð voru að koma náunganum til aðstoðar. Það skiptir máli og má ekki gleymast.

Það er mikilvægt að muna að hið góða má sín langoftast allnokkurs í baráttunni við illskuna. Ef við trúum því að til séu gildi sem eiga alltaf við þá höldum við okkar striki og lifum okkar venjulega lífi um leið og við vitum af hættunum. Samstaða er örugglega eitt mikilvægasta tæki okkar í baráttu við hryðjuverkaógnina.

Við Íslendingar búum í nokkuð öruggu samfélagi, en við getum ekki látið eins og það komi okkur ekki við þegar saklaust fólk er stráfellt í hryðjuverkaárás. Við fáum stöðugt fleiri fréttir af Íslendingum sem verða vitni að slíkum árásum erlendis. Heimurinn er þegar allt kemur til alls ekki svo ýkja stór staður. Við sem í honum búum eigum að lifa og starfa í nafni kærleika og mannúðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus