fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Gerendur hópnauðgunar fengu hópafslátt af miskabótum: „Ég er vonsvikin, særð og reið“

Jeanette var nauðgað af sex mönnum árið 2004 – Dæmt sem ein nauðgun

Auður Ösp
Þriðjudaginn 23. maí 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er vonsvikin, særð og reið. Hvað er eiginlega hugsunin á bak við þetta? Ég var 16 ára þegar þetta gerðist. Mér finnst eins og þeir hafi að vissu leyti unnið málið,“ segir Jeanette, 29 ára gömul norsk kona sem varð fyrir hrottalegri hópnauðgun árið 2004. Þó að gerendurnir hafi verið sex talsins var dæmt í máli hennar líkt og um aðeins eina nauðgun hefði verið að ræða. Lögfræðingur hennar segir gerendurna hafa fengið „hópafslátt.“ Búið er að leggja fram frumvarp þar sem lagt er til að upphæð miskabóta verði ekki dreift á gerendur, heldur verði hverjum og einum gert að greiða fullar bætur til brotaþola.

Greint er frá málinu á vef TV 2 í Noregi. Jeanette var 16 ára gömul þegar hún hitti hóp sex karlmanna af kúrdönskum og íröskum uppruna á hóteli í Osló. Hún fylgdi þeim í íbúð aðalgerandans, Karun Assad, í Skullerud hverfinu, þar sem Assad réðst á hana inni á baðherberginu og kom fram vilja sínum. Jeanette segir mennina sex þvínæst hafa ráðist á hana inni í svefnherbergi íbúðarinnar, einn af öðrum. Stóð hópnauðgunin yfir í margar klukkustundir. Eftir að hún náði að flýja úr íbúðinni leitaði hún á neyðarmóttöku nauðgana en sökum þess hversu miklir og alvarlegir áverkar hennar voru reyndist ógerlegt að veita henni fulla læknisskoðun. Hún var greind með alvarlega áfallastreituröskun og fram kemur í dómi að afleiðingar árásarinnar séu varanlegar.

„Á tímabili fór ég í sturtu 20 sinnum á dag af því að mér fannst ég lykta viðbjóðslega,“ segir Jeanette og kveðst sífellt endurlifa hryllinginn sem hún gekk í gegnum þetta kvöld árið 2004. „Þá er eins og mér sé skyndilega kippt inn í nauðgunina. Ég fæ mynd upp í hugann þar sem þeir eru ofan á mér, hlæjandi. Ég segi nei og reyni að ýta þeim í burtu.“

Árið 2005 og 2006 fengu fimm gerandanna fangelsisdóm fyrir nauðgunina og voru dómarnir á bilinu 4 til 8 ár. Þá voru þeir saman dæmdir til að greiða Jeanette 200 þúsund krónur í miskabætur. Karun Asssad, aðalgerandinn flúði hins vegar land og var handtekinn í Slóveníu tíu árum síðar. Hann var síðan framseldur til Noregs. Hann hlaut 9 og hálfs árs fangelsisdóm í mars á þessu ári og var þá sakfelldur fyrir tvær nauðganir á hendur Jeannette. Þá var Jeantte einnig dæmdar 100 þúsund krónur í miskabætur til viðbótar sökum alvarleika brotsins. Upphæðin dreifðist því þannig yfir hópinn að hver og einn þurfti að greiða Jeanette 50 þúsund krónur.

Átti að fá dæmdar bætur fyrir fleiri en eina nauðgun

Fram kemur í dómnum að mennirnir sex hafi framið verknaðinn í sameiningu og beri því allir jafna ábyrgð. Åge Eidsvig, lögmaður Jeanette segir í samtali við TV 2 að Jeanette hafi verið nauðgað margsinnis og hefði því átt að fá dæmdar bætur samkvæmt því. Hver og einn gerandi hafi átt að greiða henni 150 þúsund krónur í miskabætur, og þá hafi Assad átt að greiða henni sér miskabætur vegna nauðgunarinnar á baðherberginu. Jeanette segir jafnframt „fáránlegt“ að dómurinn hafi litið á nauðgun Assad sem hluta af hópnauðguninni. „Þar var hann einn. Í hópnauðguninni var hann hins vegar samráðsmaður,“ segir hún en hefur áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar.

Jeanette kveðst ennþá vera í meðferð hjá sérfræðingi vegna áfallastreituröskunar sem rekja má til ofbeldisins. Hún kveðst hafa átt erfiða barnæsku og telur það hafa gert hana að auðveldara fórnarlambi fyrir gerendurna. Þegar hópnauðgunin átti sér stað var hún í umsjá barnaverndaryfirvalda.

Hún er tveggja barna móðir í dag og býr ásamt fjölskyldu sinni í lítilli leiguíbúð.

„Börnin mín eru það dýrmætasta sem ég á. Lífið mitt snýst um þau,“ segir Jeanette en fjölskyldan hefur undanfarin ár þurft að reiða sig á barnabætur til að ná endum saman. Jeanette bindur vonir við að fá dæmdar hærri miskabætur vegna ofbeldisins og segir að þannig geti hún tryggt börnum sínum bjarta framtíð. Draumurinn er að eignast eigin íbúð.

„Þau eru yndisleg börn og ég vil bara það besta fyrir þau. Ég vil gefa þeim gott líf og veita þeim öll þau tækifæri sem ég fékk aldrei að njóta.“

Mögulegar lagabreytingar í aðsigi

„Það er engann veginn ásættanlegt að þú græðir á því að hafa framið glæp í samráði með öðrum,“ segir Per Willy Amundsen dómsmálaráðherra Noregs í samtali við TV 2 en í næstu viku verður tekið fyrir frumvarp til lagabreytinga þegar kemur að miskabótum í hópnauðgunarmálum. Upphæð bóta verður þá ekki lengur dreift yfir gerendahópinn og verður heildarupphæð til brotaþola því hærri en áður. „Hópafsláttur fyrir nauðgara samræmist ekki því sem við teljum vera réttlátt. Sem samfélag þurfum við því að senda skýr skilaboð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik