fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Costco opnar: „Ég hélt að það yrði brjálaðra“

Skoðið verðin á nokkrum vöruflokkum

Björn Þorfinnsson
Þriðjudaginn 23. maí 2017 10:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verslunin Costco í Kauptúni opnaði með pompi og prakt í morgun. Óhætt er að fullyrða að sjaldan hafi verið eins mikil eftirvænting hérlendis fyrir opnun verslunarkeðju enda vonast landsmenn innilega til þess að opnunin verði til þess að samkeppni aukist og verð á mat og öðrum nauðsynjavörum færist nær verði á meginlandi Evrópu.

Blaðamaður bjóst því við langri röð þegar hann bar að garði kl.8.30 í morgun en raunveruleikinn var allt annar. Engin röð var fyrir framan búðina en einhverjir biðu þó í bílum sínum á bílastæðum verslunarinnar. Sennilega voru starfsmenn fjölmiðla og björgunarsveita í miklum meirihluta þeirra sem voru mættir á svæðið. Talsverð vonbrigði fyrir fjölmiðlamenn sem bjuggust við æsingi en gleðifréttir fyrir alla unnendur heilbrigðrar skynsemi.

Allt var með kyrrum kjörum og enginn æsingur myndaðist við opnun Costco í Kauptúni.
Rólegt Allt var með kyrrum kjörum og enginn æsingur myndaðist við opnun Costco í Kauptúni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Upp úr níu fór fólk að raða sér upp fyrir framan dyr verslunarinnar og fjölmiðlamenn gátu farið að vinna vinnuna sína og taka púlsinn á þeim sem voru mættir. Margir báðust undan viðtali og blaðamaður heyrði unglingstúlku segja hneykslaða við vinkonu sína: „Ég er ekki að fíla þessar myndavélar“. Líklega völdu þær ekki rétta daginn til að heimsækja Costco.

Ef von fjölmiðlamanna var sú að röðin myndi lengjast og einhver rífandi stemming myndast þá varð sú von fljótlega að engu. Costco opnaði verslunin sína um kl.9.20, rólegir viðskiptavinir töltu inn í makindum og blaða- og sjónvarpsmenn eltu í humátt.

Það fyrsta sem vekur eftirtekt manns er að verslun Costco í Kauptúni er stór. Mjög stór. Eiginlega svo stór að hún gleypti gjörsamlega þann mannfjölda sem þó var mættur. Þarna er allt í boði, matur og aðrar nauðsynjavörur en einnig bílar, dekk, grill, lyf, gleraugu, sundlaugar, ógnarstór tuskudýr og styttur af fílum og gíröffum í fullri stærð sem kosta frá 400 þúsund krónum, hvorki meira né minna. Þrátt fyrir gríðarlegt vöruúrval þá er gott pláss í versluninni og upplifunin öll hin ánægjulegasta að vappa þar um.

Víða um búðina voru starfsmenn Costco að bjóða upp á smakk á ýmsum vörum og skammtarnir sem voru í boði voru líka óvenju stórir. Ykkar einlægur hafði ekki tíma til að grípa með sér dögurð að heiman en það kom ekki að sök á borði allsnægtanna í Costco. Banananar í möndlusmjöri, lax í chillisósu, spænsk hráskinka og ýmsar tegundir af ostum var aðeins brot af því sem var í boði og að sjálfsögðu rjúkandi kaffi til þess að setja punktinn yfir i-ið.

Stórt bakarí er í Costco og þar var allt á fullu við að koma út kökum og öðru kruðeríi.
Bakarí Stórt bakarí er í Costco og þar var allt á fullu við að koma út kökum og öðru kruðeríi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athygli vekur að flestir starfsmennirnir virtust vera breskir eða bandarískir. Líklega er það til þess að koma verslunina af stað. „Ég hélt að það yrði brjálaðra, þetta er bara nokkuð rólegt,“ heyrði blaðamaður á tali tveggja starfsmanna. Nokkrir voru búnir að æfa sig í helstu frösum á íslenskri tungu og ávörpuðu gesti og gangandi með bjöguðum hreim.

En að verðinu og úrvalinu. Almennt virtist vera hægt að gera nokkuð góð kaup í Costco. Flestar vörurnar eru í mun stærri umbúðum en Íslendingar hafa áður séð en þumalputtareglan virðist vera sú að stóru umbúðirnar séu á svipuðu verðu og þær litlu í íslenskum verslunum. Það var að minnsta kosti í raunin í þeim örfáu vöruflokkum sem blaðamaður skoðaði.

Þær vörur sem eru í boði í Costco eru í mun stærri pakkningum en íslenskir neytendur hafa áður kynnst.
Stórir skammtar Þær vörur sem eru í boði í Costco eru í mun stærri pakkningum en íslenskir neytendur hafa áður kynnst.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hérna koma nokkrar stikkprufur af verðum sem blaðamaður rak augun í af algjöru handahófi. Sum verð virðast ansi hagstæð, önnur sambærileg við samkeppnisaðila.

Samsung-sjónvarp 65-tommur 4K UHD LED (UE65KU6405) – 189.999 krónur

Canon-prenthylki PGI550/CL551 Multipack Svart/Cyan/Magenta/Yellow – 6.699 krónur

Apple Ipad Pro 9,7″ Wifi 128GB – 104.999 krónur

Pink Lady epli (8 stykki) – 729 krónur

Sætar kartöflur, 1.flokkur, 2 kg – 999 krónur (kílóverð 500 kr)

Bláber, 1.flokkur – 680 grömm – 999 krónur (kílóverð 1.469 kr)

Jarðaber, 1.flokkur, 907 grömm – 1.149 krónur (kílóverð 1.277 krónur)

Íslenskt lamabjöt, lamba helgarsteik (úrbeinaðar lærisneiðar) – 2.299 krónur kílóið

Íslenskt lambakjöt, kryddlegið lambalæri – 1.599 krónur kílóið.

Ferskir þorskhnakkar, roð og beinlausir – 1.699 krónur kílóið

Íslenskar grísalundir, snyrtar – 1.799 krónur kílóið

Íslenskt nautakjöt, fillet steik – 7.999 krónur kílóið

Íslenskt nautakjöt, ribeye – 5.699 krónur kílóið

Ferskt pasta – ravioli með ricotta og spínati – 779 krónur (þrír 250 gramma pakkar)

Cashew-hnetur, 1.13 kg – 2.999 krónur (kílóverð 2654)

Dagslinsur, Acuvue Moist, 90 í pakka – 7.800 krónur

Sjávarsalt – 370 grömm – 479 krónur

Furuhnetur – 680 grömm – 3.399 krónur (kílóverð 4.999 krónur)

Pilippo Berio ólívuolía 5 lítrar – 3.899 krónur (lítraverð 780 krónur)

66°Norður Kjölur flíspeysa – 12.999 krónur

Kippa (6 stk) af 2L Kók – 999 krónur

Kippa (6 stk) af 2L Kristal með Mexican Lime bragði – 999 krónur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“
Fréttir
Í gær

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða
Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips