Stjórn Neytendasamtakanna lýsir yfir vantrausti á Ólaf: „Hann hefur sett samtökin í mjög þrönga stöðu“

Ólafur Arnarson hagfræðingur hefur verið formaður samtakanna frá október.

Stjórn neytendasamtakanna samþykkti á síðasta stjórnarfundi að lýsa yfir vantrausti á Ólaf Arnarson, formann samtakanna. Ólafur hefur ekki verið lengi í embætti en hann var kjörinn formaður í október.

Gunnar Alexander Ólafsson, ritari samtakanna, segir í samtali DV að Ólafur hafi tekið ýmsar ákvarðanir sem formaður sem stjórnarmenn telja að hafi þurft að bera undir stjórnina. Hann sagðist ekki geta nánar skýrt hvaða ákvarðanir þetta voru.

Ólafur segir í samtali við DV hann vilji ekki tjá sig um hvað gerðist á stjórnarfundum. Hann segir eðlilegt að það sé tekist á innan Neytendasamtakanna líkt og í öðrum félagasamtökum. Hann sagðist hafa verið kjörinn sem formaður út kjörtímabilið sem lýkur árið 2018. Ólafur hlaut yfirburðakosningu í fyrra en hann hlaut 129 atkvæði af 232.

Stefán Hrafn Jónsson, sem situr í stjórn samtakanna, segir að Ólafur hafi tekið ákvarðanir sem séu skuldbindandi fyrir samtökin. „Hann hefur sett samtökin í mjög þrönga stöðu og það ríkir ekki lengur trúnaður. Þetta voru ákvarðanir sem kosta peninga. En Neytendasamtökin eru það sterk samtök að þau standa ekki eða falla með einum formanni,“ segir Stefán Hrafn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.