Sænskir saksóknarar hætta rannsókn á Julian Assange

Marianne Ny, saksóknari í máli sænska ríkisins gegn Julian Assange, stofanda Wikileaks, tilkynnti í morgun að rannsókn á meintri nauðgun sem hann var sakaður um árið 2010 yrði hætt.

Assange, sem er 45 ára, hefur frá árinu 2012 búið í sendiráði Ekvadors í London. Það gerði Assange til að forðast það að verða framseldur til Svíþjóðar vegna nauðgunarrannsóknarinnar.

Assange óttaðist að ef hann yrði framseldur til Svíþjóðar biði hans framsal til Bandaríkjanna þar sem hann ætti yfir höfði sér ákæru vegna leka á 500 þúsund leyniskýrslum bandaríska hersins vegna stríðanna í Afganistan og Írak.

Óvíst er hvað tekur við hjá Assange eftir tilkynningu sænska saksóknarans, en Assange hefur ávallt neitað þeim ásökunum sem bornar voru á hann í Svíþjóð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.