fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Ingibjörg sópar til sín hlutum í Högum

Bætt við sig fimm milljónum hluta á á hálfu ári – SM Investments orðið 19. stærsti hluthafinn

Ritstjórn DV
Föstudaginn 19. maí 2017 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

SM Investments ehf., félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, hefur á undanförnum mánuðum sópað til sín milljónum hluta í verslunarrisanum Högum. Félagið á nú 16 milljónir hluta í Högum og er nítjándi stærsti hluthafinn í Högum sem á dögunum birti ársuppgjör sitt þar sem greint var frá ríflega fjögurra milljarða króna hagnaði. Sem kunnugt er voru Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, og fjölskylda hans aðaleigendur Haga, sem rekur meðal annars verslanir Bónuss og Hagkaupa, fyrir hrun. Fjölskylda Ingibjargar stofnaði Hagkaup á sínum tíma en fjölskylda Jóns Ásgeirs Bónus.

Með uppkaupum SM Investments á hlutum í Högum, sem Arion banki yfirtók þegar hann tók yfir félagið 1998 ehf. eftir hrun, má segja að Ingibjörg og Jón Ásgeir séu hægt og bítandi að boða endurkomu sína til áhrifa innan félagsins sem hefur að geyma arfleifð fjölskyldna þeirra.

Snúa aftur í eigendahópinn

DV afhjúpaði þann 22. nóvember síðastliðinn að nýstofnað fjárfestingarfélag, SM Investments ehf., hefði á skömmum tíma eignast 0,94% hlut í Högum, eða 11 milljónir hluta, sem metinn var á 600 milljónir miðað við gengi bréfa í Högum þá. Dugði hluturinn þó ekki til að koma félaginu inn á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa í félaginu.

DV greindi þá frá því að eini hluthafi SM Investments væri annað félag í eigu Ingibjargar. Eini stjórnarmaður SM Investments er Jón Skaftason, lögfræðingur og samstarfsmaður Jóns Ásgeirs í gegnum tíðina, sem tók þar sæti 6. október í fyrra. Félagið er skráð með lögheimili að Laugavegi 1b, þar sem mörg félög á vegum Ingibjargar eru skráð til húsa. Ingibjörg vildi ekkert tjá sig um kaupin í Högum þegar DV leitaði eftir því í nóvember.

Þann 27. janúar síðastliðinn greindi svo viðskiptavefur Vísis frá því að Ingibjörg hefði bætt við sig fjórum milljónum hluta til viðbótar, ætti nú 15 milljónir hluta í gegnum SM Investments eða 1,28% eignarhlut, sem metinn var á 770 milljónir. Það dugði til að skjóta félaginu inn á lista yfir stærstu hluthafa verslunarrisans.

Afkoma Haga

Hagnaður upp á fjóra milljarða – Heildareignir 30 milljarðar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.

Finnur Árnason, forstjóri Haga.

Hagnaður rekstrarársins nam 4.036 millj. kr. eða 5,0% af veltu.

• Hagnaður á hlut var 3,46 kr.

• Vörusala rekstrarársins nam 80.521 millj. kr.

• Framlegð rekstrarársins var 24,8%.

• Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 6.024 millj. kr.

• Heildareignir samstæðunnar námu 30.109 millj. kr. í lok rekstrarársins.

• Handbært fé félagsins nam 2.474 millj. kr. í lok rekstrarársins.

• Eigið fé félagsins nam 17.412 millj. kr. í lok rekstrarársins.

• Eiginfjárhlutfall var 57,8% í lok rekstrarársins.

870 milljóna hlutur

Nýjustu upplýsingar um hluthafa Haga, í síðustu viku, sýna að SM Investments er nú komið upp í 16 milljónir hluta, eða 1,37% eignarhlut sem metinn er á tæpar 870 milljónir króna miðað við núverandi gengi Haga. SM Investments hefur þannig bætt við sig fimm milljónum hluta síðasta hálfa árið eða svo og er þannig orðið eina einkahlutafélagið í hópi stærstu eigenda Haga. Stærstu eigendurnir eru sem fyrr íslenskir lífeyrissjóðir, sjóðir á þeirra vegum, bankar og fjárfestingarsjóðir, innlendir og erlendir.

Sagði bankann hafa bolað þeim út

Ingibjörg er þó ekki eini afkomandi Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaupa, sem á hlut í Högum, því DV greindi frá því í nóvember að félagið Minna Hof ehf. ætti 0,33% hlut í félaginu en það félag er í eigu Lilju Pálmadóttur, systur Ingibjargar.

Jón Ásgeir Jóhannesson var afar ósáttur við hvernig Arion banki stóð að því þegar hann og fjölskylda hans misstu forræði yfir Högum síðla árs 2009, þegar Nýi Kaupþing, forveri Arion banka, eignaðist meirihluta í móðurfélagi Haga, 1998 ehf. Tilboði fjölskyldunnar til að halda félaginu var ekki tekið og ákvað bankinn að selja 44% hlut í félaginu til innlendra kjölfestufjárfesta og síðar var 30% hlutur seldur í almennu hlutafjárútboði í árslok 2011, líkt og DV fjallaði um í frétt sinni í nóvember síðastliðnum. Jón Ásgeir gat ekki falið vonbrigði sín í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í febrúar 2011 og sagði að svo „virðist sem peningar hafi ekki haft forgang hjá Arion-mönnum, heldur virðist forgangsröðunin hafa verið að koma stofnendum Bónuss út úr Högum.“

Nú virðist sem þau hjónin hafi augastað á krúnudjásni fjölskyldna sinna á nýjan leik og séu hægt og sígandi að auka eignarhlut sinn í verslunarveldinu.


Þetta eru 20 stærstu eigendur Haga

Eigandi Eignahlutur Hlutfall
Gildi lífeyrissjóður 139.064.721 11,87%
Lífeyrissjóður starfsm.rík. A-deild 116.220.000 9,92%
Stefnir- ÍS 15 104.272.315 8,90%
Lífeyrissjóður verslunarmanna 83.851.852 7,16%
Birta lífeyrissjóður 60.785.449 5,19%
Stapi lífeyrissjóður 60.719.634 5,18%
Landsbréf – úrvalsbréf 40.567.510 3,46%
Lífeyrissjóður.starfsm. rík. B-deild 39.445.000 3,37%
Festa-lífeyrissjóður 34.303.469 2,93%
Vátryggingafélag Íslands hf. 30.074.650 2,57%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 26.829.975 2,29%
Stefnir – ÍS 5 24.828.211 2,12%
Global Marco Portfolio 23.017.633 1,97%
IS Hlutabréfasjóðurinn 21.243.060 1,81%
Arion banki 21.008.365 1,79%
Kvika banki 19.894.188 1,70%
Haga hf. 19.168.349 1,64%
Global Marco Absolute Return Ad 18.434.255 1,57%
SM Investments ehf. 16.000.000 1,37%
Lífsverk lífeyrissjóður 15.303.829 1,31%

Listi miðast við stöðu 11. maí 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu