Aðventistar skipast í fylkingar vegna komu norskra hjóna til Íslands

Norskur öfgamaður dreifir bæklingi í óþökk Aðventistakirkjunnar

Aðventistakirkjan á Íslandi er sögð loga í deilum vegna komu norsku hjónanna Abel og Bente Struksnes, aðventista sem aðhyllast bókstafstrú, til landsins. Frjálslyndari aðventistar telja að boðskapur þeirra sé hatursfullur og öfgafullur. Hjónin hafa gefið út á Íslandi bækling þar sem kaþólska kirkjan er sögð stefna á heimsyfirráð í samkrulli með Evrópusambandinu. Aftast í bæklingnum er lesendum vísað á heimasíðu Walters Veith, suðurafrísks aðventista, sem hefur verið bannað að halda erindi hjá aðventistum í Þýskalandi, Austurríki og Sviss vegna gyðingahaturs.

Óþægilegt fyrir kirkjuna

Eric Guðmundsson, prestur aðventista í Reykjavík, segir í samtali við DV að það sé rétt að koma hjónanna til landsins setji söfnuðinn í erfiða stöðu. Þau séu vissulega aðventistar en þar með sagt þýði það ekki að boðskapurinn sé íslenska söfnuðinum að skapi. Hann segir að þau séu ekki hér á landi á vegum íslensku kirkjunnar. Heimildir DV innan kirkjunnar herma þó að íhaldssamari armur aðventista hafi komið að undirbúningi og framkvæmd herferðar þeirra hér á landi.

„Þetta hefur allt farið afskaplega friðsamlega fram. Abel Struksnes rekur í Noregi boðunarátak á eigin vegum. Deilurnar snúast aðallega um að hann sé að gefa út þessi rit án samþykkis eða vitundar kirkjunnar á Íslandi. Svo þetta getur komið svolítið óþægilega út fyrir okkur, því við vitum ekkert hvað stendur í þessu riti. Hann er á sama tíma að auglýsa bækur sem við gefum út og þess vegna tengist þetta í augum fólks,“ segir Eric.

Gavin Anthony, formaður kirkjunnar, segir í skriflegu svari til DV að heimsókn Abel Struksnes og dreifing hans á fyrrnefndu riti sé án vitneskju og samþykkis kirkjunnar.

Varar við heimsyfirráðum kaþólikka

Umrætt rit Struksnes-hjónanna heitir 2017 – 500 árum eftir Lúter og er 40 blaðsíður á lengd. Ritið hefst á því að farið er yfir sögu mótmælendatrúar og Marteins Lúters en fljótt fer það að snúast um hinnar ýmsu samsæriskenningar um kaþólsku kirkjuna, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar. „Við megum ekki gleyma því að kaþólska kirkjan sækist eftir að verða alheimsleg stofnun. Hún sækist eftir veraldlegu valdi. Það voru kaþólikkar sem stofnuðu ESB og það er Vatíkanið sem er á bak við hugmyndina að hinni nýju heimsskipan (New World Order),“ segir í ritinu.

Á vef Boðunarkirkjunnar má sjá að Abel Struksnes var gestapredikari þar þann 13. maí síðastliðinn. Á vefnum kemur fram að umrætt rit megi nálgast hjá kirkjunni. Boðunarkirkjan er klofningssöfnuður frá Aðventistakirkjunni sem fylgdi Steinþóri Þórðarsyni eftir hann sagði skilið við kirkjuna fyrir aldamót. Guðfræði hópsins er innan ramma aðventista.

Deilt um vígslu kvenna

Heimildir DV innan kirkjunnar herma að vígsla kvenna til prests sé jafnframt mikið hitamál innan kirkjunnar. Þar takist á sömu fylkingar og í máli norsku hjónanna. Misjafnt er eftir löndum hvort aðventistakirkjur vígi konur til prests. Vígsla kvenna hefur verið hitamál innan kirkjunnar á alþjóðavísu. Þau lönd sem Ísland ber sig helst saman við, svo sem Danmörk, Þýskaland og Holland, hafa tekið þá stefnu að vígja konur. Gavin Anthony segir að kirkjan styðji að konur taki að sér leiðtogahlutverk innan kirkjunnar, þar með talið sem prestar. Hann segir mikilvægt að kirkjan sé í takt við menningu landsins svo lengi sem það sé í samræmi við lögmál guðs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.