Risavaxið mengunarslys að koma í ljós í Keflavík? Grafa upp ruslahauga ameríska hersins

Framkvæmdir við gatnagerð fyrir ofan Iðavalla í Keflavíkur hafa verið stöðvaðar af heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. Gamlir ruslahaugar frá bandaríska hernum hafa verið grafnir upp á þessu svæði og hefur mikið af járnarusli komið upp úr jörðinni. Það sem alvarlegra er að tjara vellur upp úr jarðveginum. Það eru Víkurfréttir sem greina frá þessu. Í frétt Víkurfrétta kemur einnig fram að Heilbrigðiseftirlitið óttist að hættuleg efni á borð við PCB sé í jörðu og gæti komið upp á yfirborðið og að um risavaxið mengunarslys gæti verið að ræða.

Magnús H. Guðjónsson hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja segir í samtali við Víkurfréttir að tjara leki úr jarðvegi á svæðinu en bandaríski herinn notaði hana m.a. við malbikun á Keflavíkurflugvelli fyrir margt löngu. Óttast er síðan að rafgeymar og fleiri spillandi efni sé að finna í ruslahaugum sem hafa verið grafnir upp.

Tilviljun er að upp komst um málið þegar sást til vörubíl flytja járnarusl af svæðinu. Heilbrigðisyfirvöld hafa áhyggjur af PCB finnist í jörðu en á Vísindavefnum segir um PCB:

„Díoxín, fúran og díoxínlík PCB-efni (Polychlorinated Biphenyls) eru þrjú af tólf þrávirkum lífrænum mengunarefnum sem eru sérstakt áhyggjuefni vegna áhrifa þeirra á umhverfið og heilsu almennings. Efnin geta borist í matvæli úr umhverfinu. Þau hafa ekki áhrif á heilsu okkar samstundis, en geta valdið vandamálum ef þau berast í líkamann í talsverðu magni yfir langt tímabil [ ... ] Díoxín og fúran hafa aldrei verið framleidd viljandi. Þau myndast sem aukaafurð við málmiðnað, ýmsan iðnað sem notar klór, bleikingu í pappírsiðnaði, framleiðslu varnarefna og brennslu, meðal annars sorpbrennslu. Efnin verða einnig til í náttúrunni, til dæmis við eldgos og skógarelda.“

Nánar er greint frá málinu í Víkurfréttum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.