Illa brunnið lík konu fannst árið 1970 - Enn er margt á huldu - Hver var konan?

Svona ályktuðu menn að konan hefði litið út áður en hún lést. Hún talaði góða ensku og var af evrópsku bergi brotin.
Teikning af konunni Svona ályktuðu menn að konan hefði litið út áður en hún lést. Hún talaði góða ensku og var af evrópsku bergi brotin.

Þann 29. nóvember árið 1970 gekk faðir, ásamt tveimur dætrum sínum, fram á illa brunnið lík konu í Ísdalnum svokallaða skammt frá Bergen í Noregi. Þó að tæp 50 ár séu liðin frá þessum dularfulla líkfundi, sem greyptur er í huga margra Norðmanna, er mörgum spurningum enn ósvarað: Enn er ekki vitað hver konan er og ekki er enn vitað með vissu hvernig dauða hennar bar að. Norska ríkisútvarpið, NRK, og norska lögreglan hafa ákveðið að opna rannsókn málsins á nýjan leik í þeirri von að leysa málið eins og BBC fjallaði um á dögunum.

Verðmæti við líkið

Óhætt er að segja að lögreglan hafi ekki haft úr miklum upplýsingum að moða þegar rannsókn málsins hófst. Til að gera lögreglu erfitt fyrir hafði einhver, konan eða morðingi hennar, klippt alla merkimiða af fötum hennar og raunar hafði allt sem mögulega gæti varpað ljósi á hver konan væri verið afmáð, til dæmis merkimiðar á plastflöskum sem fundust á staðnum. Hafi konan á annað borð verið myrt virðist morðinginn ekki hafa haft neinn áhuga á þeim verðmætum sem hún bar á sér; þannig fundust úr og skartgripir við hlið líksins.

Vakin er athygli á því að hér að neðan má finna mynd sem tekin var á vettvangi sem gæti vakið óhug meðal fólks.

Ísdalurinn er skammt frá Bergen í Noregi. Hann er vinsæll meðal útivistarfólks.
Ísdalurinn Ísdalurinn er skammt frá Bergen í Noregi. Hann er vinsæll meðal útivistarfólks.

Í umfjöllun BBC er bent á að Ísdalurinn sé þekktur meðal sumra heimamanna undir nafninu Dauðadalurinn. Fyrr á öldum fór þangað fólk sem gefist hafði upp á lífinu og svipti sig lífi. Á sjöunda áratugnum urðu nokkur banaslys á þessari vinsælu gönguleið þegar fjallgöngumenn hröpuðu til bana í þokunni sem stundum leggst yfir dalinn. Konan sem fannst virðist ekki hafa verið á göngu á svæðinu þegar hún lést. „Þetta var úr alfaraleið og ekki á dæmigerðri gönguleið,“ segir lögreglumaðurinn Carl Halvor Aas í viðtali við BBC. Carl var einn af þeim fyrstu sem komu á vettvang þegar tilkynnt var um líkfundinn.

Eins og serimónía

Carl rifjar upp að hann hafi fundið mikinn óþef leggja frá líkinu og bætir við að það hafi vakið athygli lögreglumanna að líkið var aðeins brunnið að hluta. „Allur fremri hluti líkamans var brunninn, þar á meðal andlitið, en það vakti athygli okkar að aftari hlutinn var ekki brunninn,“ segir hann og bætir við að andlitið hafi verið svo illa brunnið að lögreglumenn hafi ekki getað ímyndað sér hvernig konan leit út áður en eldur var borinn að henni.

Armbandsúr og skartgripir voru meðal þess sem fannst á vettvangi.
Verðmæti Armbandsúr og skartgripir voru meðal þess sem fannst á vettvangi.

Þegar lögreglu bar að var líkið orðið kalt en lögregla reyndi samt að rannsaka málið á grunni þeirra upplýsinga sem lágu fyrir. Eitt það fyrsta sem lögregla tók eftir var að verðmæti voru við hlið líksins, þar á meðal skartgripir eins og að framan greinir. Brotin regnhlíf lá einnig við hlið þess og flöskur. Öllu þessu virðist hafa verið komið haganlega fyrir af morðingjanum. „Það, hvernig hlutunum var komið fyrir, vakti athygli okkar – þetta leit út eins serimónía hafði farið fram,“ segir Carl við BBC. Því miður fann lögregla ekkert á vettvangi sem gat bent á af hverjum líkið væri; engin persónuskilríki, ekkert.

Dularfullar töskur

Eins og venja er í málum sem þessum biðlaði lögregla til almennings um aðstoð við að bera kennsl á konuna. Í tilkynningu frá lögreglu á sínum tíma kom fram að hún væri um 164 sentimetrar á hæð, líklega á aldrinum 25 til 40 ára, með brún augu, brúnt hár og lítil eyru. Í norskum fjölmiðlum var konan nefnd Ísdalskonan þar sem enginn vissi nánari deili á henni.

Þessa mynd hafa norskir fjölmiðlar birt. Konan var illa brunnin og hafði auk þess innbyrt mikið magn svefntafla. Opinber dánarorsök var talin vera sjálfsvíg en margir hafa dregið í efa að konan hafi svipt sig lífi.
Skelfileg sjón Þessa mynd hafa norskir fjölmiðlar birt. Konan var illa brunnin og hafði auk þess innbyrt mikið magn svefntafla. Opinber dánarorsök var talin vera sjálfsvíg en margir hafa dregið í efa að konan hafi svipt sig lífi.

Nokkrum dögum eftir líkfundinn fékk lögregla vísbendingu til að vinna úr. Tvær ferðatöskur höfðu fundist á lestarstöðinni í Bergen og á annarri þeirra fundust fingraför konunnar. Í töskunum fundust einnig föt, hárkollur, þýskir og norskir peningaseðlar og smámynt frá Belgíu, Bretlandi og Sviss. Þá fundust snyrtivörur, hárbursti, teskeiðar og smyrsl við húðexemi.

Tormod Bønes, réttarmeinafræðingur í málinu, sagði að á þessum tímapunkti hafi lögregla verið bjartsýn á að leysa málið en fljótlega rakst hún þó á vegg. Þó að ýmislegt hafi fundist í töskunum var þar ekkert að finna sem gat bent á hver konan væri; merkimiðar höfðu verið rifnir af fötunum sem fundust og þá hafði merkimiði frá lækninum á smyrsltúpunni verið fjarlægður.

Þetta eru töskurnar sem fundust og voru raktar til konunnar. Þá fannst einnig smyrsl sem konan hafði fengið ávísað vegna exems. Búið var að afmá allar merkingar sem hefði verið hægt að rekja til konunnar.
Töskur og smyrsl Þetta eru töskurnar sem fundust og voru raktar til konunnar. Þá fannst einnig smyrsl sem konan hafði fengið ávísað vegna exems. Búið var að afmá allar merkingar sem hefði verið hægt að rekja til konunnar.

Í töskunni fannst einnig dularfullt, dulkóðað bréf sem tók lögreglu nokkurn tíma að leysa. Síðar kom á daginn að bréfið innihélt upplýsingar um ferðalag konunnar áður en hún kom til Noregs. Hún hafði komið frá París til Noregs um það bil mánuði áður en hún lést. Loks fannst plastpoki frá skóverslun í Stavanger. Eigandi verslunarinnar mundi eftir huggulegri og vel klæddri konu sem keypti sér skó í versluninni nokkru áður sem var líklega sama kona og fannst. Konan talaði lýtalausa ensku, virtist róleg í fasi og tók sér langan tíma í velja skóna. Með þessum upplýsingum tókst lögreglu að finna hótel sem konan dvaldi á. Í ljós kom að hún notaði nafnið Fenella Lorch sem var ekki hennar rétta nafn. Á síðari stigum rannsóknarinnar kom í ljós að hún hafði dvalið á nokkrum hótelum í Noregi og notað nokkur mismunandi vegabréf sem líklega voru öll fölsuð.

„Þetta var á árum Kalda stríðsins og á þeim tíma voru örugglega margir njósnarar í Noregi.“

Hagaði sér undarlega

Alvhild Rangnes var 21 árs gengilbeina á Neptun-hótelinu sem konan dvaldi á. Í viðtali við BBC rifjar Alvhild upp að hún hafi þjónað konunni sem hafi verið örugg með sig, myndarleg og með mikla útgeislun. Lögregla komst síðar að því að konan hafði hagað sér undarlega á sumum af þeim hótelum sem hún dvaldi á og oft farið fram á að skipta um herbergi, stundum oftar en tvisvar á örfáum dögum. Miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir fór marga að gruna að konan væri njósnari. „Þetta var á árum Kalda stríðsins og á þeim tíma voru örugglega margir njósnarar í Noregi,“ segir Gunnar Staalesen, glæpasagnahöfundur í Bergen, í viðtali við BBC.

Konan var jarðsett og myndir teknar úr útförinni fyrir hugsanlega ættingja konunnar.
Lögð til hvílu Konan var jarðsett og myndir teknar úr útförinni fyrir hugsanlega ættingja konunnar.

Krufning á líkinu leiddi í ljós að konan hafði verið á lífi þegar eldur var borinn að henni þar sem hún hafði andað að sér reyk áður en hún lést. Þá fundust 50 til 70 svefntöflur í maga hennar sem voru meltar að hluta. Bensín fannst við líkið og virðist það hafa verið notað til að magna eldinn upp. Úrskurðað var að konan hafði svipt sig lífi en margir eiga bágt með að trúa því að svo hafi verið. Hver myndi fara út fyrir bæinn, taka inn svefntöflur og kveikja í sér? Það var svo í febrúar árið 1971 að konan var borin til grafar. Lögregla taldi sig vera búna að rannsaka alla anga málsins og svo lengi sem engar nýjar upplýsingar kæmu fram lá rannsóknin niðri. Myndir voru teknar í útförinni ef ske kynni að einhver náinn konunni myndi gefa sig fram. En ekkert nýtt kom fram sem hald var í.

„Ef einhver nákominn henni er til í DNA-gagnabönkum þá munum við finna samsvörun.“

Hreyfing kemst á málið

Enn þann dag í dag vonast lögreglan til að leysa málið og varpa ljósi á um hvaða konu er að ræða. Þó að rannsókn NRK og lögreglu sé tiltölulega skammt á veg komin eru þegar komnar fram gagnlegar upplýsingar. Ekki er langt síðan tennur konunnar fundust í kjallara Haukeland-háskólasjúkrahússins, en talið var að þær væru týndar fyrir fullt og allt. Nú stendur yfir rannsókn á þeim. Með nýjustu tækni er vonast til þess að tennurnar geti gefið upplýsingar um hvaða mat konan borðaði, hvernig vatn hún drakk og hvaðan það kom. Þá hefur ítarlega DNA-rannsókn þegar farið fram á líkamsvef konunnar, en þegar líkið fannst var sú tækni ekki fyrir hendi. Á föstudag var greint frá því að konan væri af evrópsku bergi brotin og framundan er vinna við að senda þessar upplýsingar til evrópskra löggæslustofnana í þeirri von að DNA-samsvörun finnist. „Ef einhver nákominn henni er til í DNA-gagnabönkum þá munum við finna samsvörun,“ segir Ståle Hansen, fréttamaður hjá NRK, í samtali við BBC. „Þetta er mjög spennandi,“ bætir hann við.

Þó að enn sé margt á huldu í málinu virðist heilmikil hreyfing vera komin á það. Hver veit nema hægt verði að bera loks kennsl á konuna og loka þessu máli sem fengið hefur sérfræðinga og almenning til að klóra sér í kollinum í tæpa hálfa öld.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.