Gæti sett mál tengd Panamaskjölunum í uppnám

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gæti þýtt að mál verði felld niður.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gæti haft mikil áhrif á mál tengd skattalagabrotum.
Ríkið braut gegn honum Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu gæti haft mikil áhrif á mál tengd skattalagabrotum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gæti sett málsmeðferð mála sem eru tengd Panamaskjölunum í uppnám. Mál kynna að verða felld niður. Þetta segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari en hann tekur jafnframt fram að of snemmt sé að segja til um afleiðingar dómsins sem féll á fimmtudaginn.

„Við erum rétt að byrja að fara í gegnum þetta en það er alveg ljóst að það þarf að fara mjög vel yfir stöðuna. Þarna er komin ákveðin niðurstaða sem við verðum að bera saman við það verklag sem hefur verið hingað til. Við verðum að bera þetta saman við þau mál sem eru til meðferðar. Þetta kann í einhverjum tilvikum að leiða til þess að mál verði felld niður en það er óvíst í augnablikinu,“ segir Ólafur Þór í samtali við DV.

Ólafur Þór sagði í viðtali við Morgunblaðið í nóvember að öll mál tengd skattaskjólum væru í bið þar til niðurstaða kæmi frá Strassborg. RÚV greindi frá því um svipað leyti að 46 stórfelld skattalagabrot hafi verið send til héraðssaksóknara en upp komst um þau mál í kjölfar kaupa á aflandsgögnum.

Hlé í mörg ár

Það má segja að hlé hafi verið á málsmeðferð nær allra mála sem eru tengd stórfelldum skattalagabrotum meðan beðið var eftir dómi Mannréttindadómstólsins. Mörg dæmi eru um að héraðsdómarar hafa frestað slíkum málum uns niðurstaða væri komin í mál Jóns Ásgeirs. Í fyrra var ákveðið í mörgum tilvikum að bíða ekki lengur með réttarhöld.

Sem dæmi um slíkt mál má nefna mál Kötlu Guðrúnar Jónasdóttur, fyrrverandi eiginkonu og barnsmóður breska fjárfestisins Kevin Stanford, en aðalmeðferð í hennar máli fer fram í júní þrátt fyrir að hún hafi verið ákærð árið 2013. Hún er ákærð fyrir að vantelja tekjur sínar um tæplega 117 milljónir króna og að hafa jafnframt stungið rúmum 42 milljónum króna undan skatti.

Annað slíkt mál er meint skattalagabrot Péturs Þór Sigurðssonar, lögmanns og eiginmanns Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins. Hann var líkt og Katla ákærður árið 2013 en aðalmeðferð í hans máli fer fram í ágúst. Honum er gefið að sök að hafa ekki fært lögboðið bókhald einkahlutafélagsins Lögfræðistofunnar rekstrarárin 2009 og 2010.

Fá hálfa milljón hvor

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu á fimmtudag að íslenska ríkið hafi brotið gegn Jóni Ásgeiri og Tryggva Jónssyni þegar þeir voru dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir fjórum árum. Dómurinn var kveðinn upp vegna skattalagabrota í rekstri Baugs og fjárfestingarfélagsins Gaums en áður höfðu Jón Ásgeir og Tryggvi þurft að greiða sekt vegna þessara sömu brota. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að með þessu hafi ríkið brotið gegn banni við endurtekinni málsmeðferð. Íslenska ríkið var dæmt til þess að greiða Jóni Ásgeiri og Tryggva ríflega hálfa milljón króna hvorum í skaðabætur auk 1,6 milljóna króna í málskostnað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.