Sjáðu ótrúlegar myndir úr dularfulla „draugahúsinu“ á Fjólugötunni

Búið í húsinu í 60 ár – Til sölu á 180 milljónir – Tíminn stendur í stað

Virðulegt einbýlishús sem stendur við Fjólugötu 19 hefur yfir sér dularfullan blæ. Engu líkara er en að akkúrat á þessum stað hafi tíminn ákveðið að taka sér hvíld um stund og húsið hefur ekkert breyst frá árinu 1957, þegar það var reist. Ýmislegt hefur verið sagt um húsið á samfélagsmiðlum, það þykir sjarmerandi, töfrandi, dularfullt og henta sem tökustaður fyrir hrollvekju eða afturgöngumynd, en sumum þykir húsið með eindæmum draugalegt.

„Ég er hræddur um að engar draugasögur sé hægt að rekja til hússins,“ segir Árni Thoroddsen kerfishönnuður sem hefur búið í húsinu í um 60 ár. Faðir Árna var Örn Clausen lögmaður sem var í hópi bestu frjálsíþróttamanna Evrópu ásamt Hauki bróður sínum.

Selst með aðstoð borgarstjóra

Húsið hefur verið til sölu í meira en ár og hefur ekki selst. Húsið er 420 fermetrar með bílskúr og er á þremur hæðum. Í lýsingu segir að allar innréttingar séu upprunalegar og viðhaldi hafi verið ábótavant. Þarfnast Fjólugata 19 endurbóta að innan og utan.

„Flestar innréttingar eru original, aðallega á efstu hæðinni,“ segir Árni sem kveðst bjartsýnn á að húsið seljist. „Borgarstjóri mun ekki framleiða neitt nýtt húsnæði í Reykjavík næstu 5–7 árin sem þýðir að það selst vafalaust. Við erum þarna með hauk í horni, borgarstjóra sem hjálpar öllum fasteignasölum að selja eignir – með því að gera ekki neitt.“

Fengið nóg af því að búa í stórum húsum

Hvað tekur svo við?

„Ég hef búið hérna í 60 ár eða svo. Ég er alveg búinn að fá næga útrás fyrir að búa í stórum húsum! Ég ætla að minnka við mig og flytja kannski út á landsbyggðina. Ef Bill Gates byðist til að gefa mér húsið sitt myndi ég afþakka. Ég ætla að minnka við mig og flytja inn í litla stúdíóíbúð. Það er í reynd eina ástæðan fyrir því að ég er að selja. Sumir hafa þörf fyrir að búa í stórum húsum í ellinni, en mér nægir stúdíóíbúð.

Þetta er það sama og með snekkjur. Ef einhver byði mér sæmilega snekkju myndi ég ábyggilega hafna henni. Þegar maður er kominn svona á aldur missir maður áhugann á öllum stórum og dýrum hlutum. Ég hefði hugsanlega þegið húsið hans Bill Gates þegar ég var tvítugur eða fertugur.“

Árni bætir við að þegar húsið seljist ætli hann að njóta lífsins og halda áfram að framleiða hugbúnað.

„Ég held að 180 milljónir sé að vissu leyti ódýrt. Sá sem kaupir það gæti vel selt það með 30-50 milljón króna hagnaði“

En nú hefur húsið ekki selst og verið til sölu í um ár. Er verðið of hátt?

„Ég held að 180 milljónir sé að vissu leyti lágt verð. Sá sem kaupir það gæti vel selt það með 30–50 milljóna króna hagnaði ef hann gerði það upp. Ég hugsa að ef kaupandinn gerir húsið upp og innréttar í „modern“ stíl, með marmara og slíku, þá verði það ein flottasta villan í Reykjavík.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.