fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Algjört frost í nefndum Alþingis

Atvinnuveganefnd ekki afgreitt eitt einasta mál – Hreyfast ekki mánuðum saman

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. maí 2017 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gríðarlegur seinagangur er á afgreiðslu mála í fastanefndum Alþingis og má segja að sumar nefndir séu nálega í algjöru frosti. Nefndirnar átta hafa aðeins skilað af sér áliti eða álitum í 24 málum það sem af er ári en 126 málum hefur verið vísað til þeirra. Það þýðir að 81 prósent þeirra mála sem nefndirnar hafa fengið til umfjöllunar er enn óafgreitt. Ekki er hægt að kenna því um að mál hafi borist nefndunum seint nema í sumum tilfellum, fjölmörg dæmi eru um óafgreidd mál sem komu inn á borð þeirra í febrúar og jafnvel í janúar.

Frumvörpum sem lögð eru fram á Alþingi, sem og þingsályktunartillögum, skal vísa til einhverrar af átta fastanefndum þingsins til meðferðar eftir fyrstu umræðu. Almennt eru vinnubrögð þau að nefndin tekur mál til umfjöllunar og óskar, í einhverjum tilfellum, eftir umsögnum um þau. Þá eru að jafnaði gefnar tvær til þrjár vikur til að skila inn slíkum umsögnum. Almenningi og öðrum þeim sem ekki voru beðnir um umsagnir er sömuleiðis frjálst að skila umsögnum til nefnda um mál að eigin frumkvæði. Nefndir fara síðan yfir umsagnir um viðkomandi mál og fjalla um þau á fundum. Þær skila síðan nefndaráliti og gengur þá málið aftur til umræðu í þingsölum. Hugsanlega er málinu vísað aftur til nefndar eftir það en í einhverjum tilvikum er það afgreitt með atkvæðagreiðslu í þinginu.

Funda tvisvar í viku

Fastanefndirnar eru því sá vettvangur þar sem vinna við löggjöf og tillögur fer að miklu leyti fram, og sem tryggir aðkomu allra þingflokka að málum. Að jafnaði funda nefndirnar tvisvar sinnum í viku og er fundartími ein og hálf klukkustund. Fundir eru þó gjarnan settir á oftar, eftir þörfum, og auk þess eru sérstakir nefndardagar settir á í starfsáætlun Alþingis. Slíkir dagar voru settir á um miðjan mars síðastliðinn og svo aftur núna en nefndardagar klárast í dag.

Mjög misjafnt er hversu mörg mál hver fastanefnd fær inn á sitt borð, sem og hversu umfangsmikil þau eru. Sem dæmi má nefna að fjárlaganefnd fær að jafnaði fá mál inn til sín en þau eru gjarnan flókin og umfangsmikil, líkt og fjárlagafrumvarp. Aðrar nefndir fá hins vegar að jafnaði fleiri mál inn á sitt borð.

Hefur beðið afgreiðslu frá 1. febrúar

Alls hefur 21 máli verið vísað til allsherjar- og menntamálanefndar á þessu ári. Nefndin hefur aðeins afgreitt fjögur mál með nefndaráliti og eru tvö þeirra orðin að lögum frá Alþingi. Sautján mál eru hins vegar enn til umræðu eða meðferðar innan nefndarinnar. Það mál sem lengst hefur verið til meðferðar er þingsályktunartillaga frá Vilhjálmi Bjarnasyni um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar. Tillagan kom til nefndarinnar 1. febrúar og hefur því legið óafgreidd hjá nefndinni í þrjá og hálfan mánuð. Fjöldi mála kom inn á borð nefndarinnar í febrúar og mars og því liðinn drjúgur tími án þess að þau hafi verið afgreidd.

Páll Magnússon er formaður atvinnuveganefndar, sem ekki hefur skilað áliti í neinu þeirra átta mála sem komið hafa til hennar meðfara.
Ekkert mál afgreitt Páll Magnússon er formaður atvinnuveganefndar, sem ekki hefur skilað áliti í neinu þeirra átta mála sem komið hafa til hennar meðfara.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ekki eitt mál afgreitt

Ekkert mál hefur verið afgreitt frá atvinnuveganefnd á árinu en átta málum hefur vísað til hennar. Frumvarp um útboð viðbótarþorskkvóta kom á borð nefndarinnar 2. febrúar, sendar voru út 20 umsagnarbeiðnir en engin innsend erindi bárust. Þrátt fyrir þetta er frumvarpið enn til meðfara hjá nefndinni. Síðasta mál sem nefndin fékk til afgreiðslu kom inn á borð hennar 4. apríl.

Þokast lítið áfram

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fengið 25 mál inn á borð hjá sér á árinu. Nefndin hefur afgreitt nefndarálit í sex málum og þar af hafa fjögur verið afgreidd sem lög frá Alþingi. Frumvarp um brottfall laga um lífeyrissjóð bænda kom inn á borð nefndarinnar 26. janúar en er enn til umræðu og meðferðar. Um er að ræða stjórnarfrumvarp, lagt fram af fjármála- og efnahagsráðherra, sem þokast svona hægt. Átta af þeim málum sem enn eru óafgreidd komu inn á borð nefndarinnar í febrúar.

Umfangsmikil mál á borði fjárlaganefndar

Aðeins tvö mál hafa komið inn á borð fjárlaganefndar, sem ekki er óvanalegt enda sjaldnast sem fjöldi mála ratar inn á borð þeirrar nefndar. Annars vegar er það þingsályktunartillaga um fjármálastefnu 2017 til 2022 sem kom inn á borð nefndarinnar 26. janúar, var afgreidd með nefndaráliti 22. mars og samþykkt sem ályktun Alþingis 6. apríl. Hins vegar er um að ræða fjármálaáætlun 2018 til 2022, verulega umdeilt mál sem kom inn á borð nefndarinnar 7. apríl. Það er enn til umræðu og meðferðar.

Eiga níutíu prósent mála eftir

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið til sín tíu mál á árinu. Öll eru þau, nema eitt, enn til meðferðar nefndarinnar. Hið eina sem hefur fengið afgreiðslu er þingsályktun um fjölgun ráðuneyta, sem kom inn á borð nefndarinnar 26. janúar. Nefndin afgreiddi það mál með nefndaráliti 20. mars og tveimur dögum síðar var það afgreitt sem ályktun Alþingis. Öll hin málin, utan eitt, voru lögð fram í marsmánuði.

Eitt búið, 21 eftir

Til umhverfis- og samgöngunefndar hefur verið vísað 22 málum, og hefur auðnast að skila nefndaráliti í einu þeirra. Það er fyrsta málið sem vísað var til nefndarinnar, stjórnarfrumvarp um farþega- og farmflutninga. Því máli var vísað til nefndar 9. febrúar og skilaði nefndin áliti sínu 25. apríl. Málið gekk til annarrar umræðu, var vísað aftur til nefndar 4. maí síðastliðinn, og skilaði nefndin aftur áliti á því í gær. Önnur mál eru enn hreyfingarlaus í nefndinni, þar á meðal ellefu mál sem komu inn á hennar borð í mars.

Utanríkismálanefnd, undir forystu Jónu Sólveigar Elínardóttur, stendur sig best fastanefnda Alþingis þegar kemur að afgreiðslu mála.
Gengur best Utanríkismálanefnd, undir forystu Jónu Sólveigar Elínardóttur, stendur sig best fastanefnda Alþingis þegar kemur að afgreiðslu mála.

Mynd: Viðreisn

Besta tölfræðin í utanríkismálanefnd

Utanríkismálanefnd hefur haft til meðferðar þrettán mál á þessu ári og hefur nefndin skilað áliti í níu þeirra mála. Í öllum þeim tilvikum, utan einu, er um að ræða breytingar á viðaukum EES-samningsins, fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu. Hin málin komu öll til meðfara hjá nefndinni 3. mars og skilaði hún áliti í þeim öllum 9. maí síðastliðinn. Tvö mál hafa verið afgreidd frá Alþingi, áðurnefndur fríverslunarsamningur og ein ályktun sem snýr að breytingum á EES-samningnum. Enn er óafgreitt mál sem kom inn á borð nefndarinnar 31. janúar.

Sjö mál óafgreidd frá febrúar

Velferðarnefnd hefur skilað áliti á tveimur þeirra 25 mála sem vísað hefur verið til hennar. Annars vegar var um að ræða leiðréttingu á lögum um almannatryggingar sem keyrð var hratt í gegn. Málið kom á borð nefndarinnar 22. febrúar, var afgreitt með áliti 24. sama mánaðar og samþykkt sem lög 28. febrúar. Hins vegar skilaði nefndin áliti 12. maí síðastliðinn, á máli sem barst henni 31. janúar. Önnur mál eru óafgreidd, þar af sjö mál frá því í febrúar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt