Fréttir

„Mikið áhyggjuefni fyrir almenning“

Formaður Læknafélags Reykjavíkur óttast að miklar hækkanir á almenna skattgreiðendur í nýju greiðsluþátttökukerfi hafi þau áhrif á fólk neiti sér um læknisheimsóknir

Kristín Clausen
Þriðjudaginn 16. maí 2017 14:13

„Mér finnst mjög óskynsamlega að þessu staðið,“ segir Arna Guðmundsdóttir, innkirtlalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur. Arna gagnrýnir nýja greiðsluþátttökukerfið vegna heilbrigðisþjónustu harðlega. Hún harmar þá kostnaðaraukningu sem breytingunum fylgir fyrir fólk sem þarf sjaldan að leita til læknis. Hún segir að nýja greiðsluþátttökukerfið eigi eftir að bitna mest á ungu og tekjulágu fólki. Á sama tíma og Arna fagnar því að þeir einstaklingar sem áður greiddu mest fyrir læknisþjónustu borga nú töluvert minna hafi það verið undarleg ákvörðun að velta kostnaðinum yfir á þá sem þurfa minna á þjónustunni að halda. Það eigi eftir að reynast heilbrigðiskerfinu mun dýrara þegar uppi er staðið.

Greiðsluþakið of hátt

Í dag er greiðsluþakið, fyrir fullgreiðandi skattborgara í nýja greiðsluþátttökukerfinu vegna heilbrigðisþjónustu, 24.600 krónur fyrir hvern almanaksmánuð. Kostnaðarþakið fyrir almenning er í dag 70 þúsund krónur. Þá hafa blóðtökugjöld einnig hækkað en í dag borga fullgreiðandi einstaklingar 2.500 krónur fyrir hverja blóðprufu. Sá kostnaður, sem hækkaði einnig þann 1. maí síðastliðinn um 100 prósent, leggst ofan á lækniskostnaðinn. Sálfræðingar og tannlæknar eru ekki inni í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Þá er ótalinn lyfjakostnaður sem getur hlaupið á tugum þúsunda áður en sjúkratryggingar Íslands gefa út lyfjaskírteini. Kostnaður vegna hjálpartækja fellur heldur ekki undir greiðsluþakið.

Óttast að fleiri fresti læknisheimsóknum

Þann 1. maí síðastliðinn gekk í gildi nýtt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur lýst yfir miklum áhyggjum vegna aukins kostnaðar fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Að mati sambandsins er mikil hækkun líkleg til að fjölga þeim sem neita sér um heilbrigðisþjónustu enn frekar og mun þetta koma verst niður á konum og fólki í lægstu tekjuhópum samfélagsins. Kostnaður vegna geðheilbrigðisþjónustu vekur sérstakar áhyggjur ASÍ.
„Alþingi verður að bregðast við þessari alvarlegu stöðu og tryggja aukna fjármuni inn í nýja kerfið og þar með jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eins og lög um sjúkratryggingar kveða á um.“Heimild: ASÍ

„Auðvitað er þetta spurning um hvernig fólk forgangsraðar. Ungt fólk, sem er til dæmis að koma yfir sig þaki, með ung börn eða litlar tekjur, finnur langmest fyrir þessum hækkunum. Það á einfaldlega ekki eftir að fara til læknis nema erindið sé mjög brýnt,“ segir Arna og bætir við að hingað til hafi Ísland verið framarlega þar sem við höfum verið dugleg að fyrirbyggja alvarleg veikindi fólks með langvinna sjúkdóma. „Við þurfum að passa okkur á að missa ekki boltann í forvörnum. Það er einmitt það sem þetta nýja greiðsluþátttökukerfi gæti leitt til.“

Meiri kostnaður fyrir flesta

Nýja greiðsluþátttökukerfinu er ætlað að tryggja sjúklinga gegn of háum kostnaði vegna læknisþjónustu, rannsókna og þjálfunar með greiðsluþátttökuþaki. Þakið verður 70.000 þúsund krónur fyrir almenna sjúklinga og 45.500 krónur fyrir lífeyrisþega og börn. Börn með sama fjölskyldunúmer samkvæmt skilgreiningu Þjóðskrár Íslands teljast sem einn einstaklingur í greiðsluþátttökukerfinu.

Fyrir þá sjúklinga sem þurfa mikla þjónustu reglulega mun kostnaðurinn í flestum tilfellum lækka og við gildistöku nýja kerfisins reiknast það sem greitt hefur verið fyrir heilbrigðisþjónustu undangengna fimm mánuði inn í nýtt greiðsluþátttökuþak. En fyrir flesta aðra mun kostnaðurinn hækka. Til viðbótar við þennan kostnað kemur síðan meðal annars kostnaður vegna lyfja, tannlæknaþjónustu, sálfræðiþjónustu og hjálpartækja.

Heimild: ASÍ

Flækjustigin of mörg

Að sögn Örnu munu þeir sem fara til sérfræðinga tvisvar til þrisvar á ári aldrei ná þakinu fyrir fullgreiðandi sjúklinga sem er 70 þúsund krónur. Í dag borgar þessi hópur 90 prósent af læknisheimsókninni sjálfur. Þá segir Arna að því miður eigi hópur fólks eftir að hætta við næstu læknisheimsókn þegar það fær fyrsta reikninginn. „Við erum að vinna mikið í að fyrirbyggja fylgikvilla langvinnra sjúkdóma. Stór hluti af því sem við gerum er að passa upp á að fólk fái ekki alvarlega fylgikvilla sem hægt er að fyrirbyggja með góðri læknisþjónustu og þéttu eftirliti. Það er miklu verðmætara fyrir samfélagið því þegar fólk veikist alvarlega þá getur það orðið mjög dýrt, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.“

Arna segir almenning enn ekki vera búinn að átta sig á þessari miklu hækkun. „Við eigum eftir að sjá hver ruðningsáhrifin verða. Þegar þú ert kominn upp í þak í einum mánuði þá getur þú farið ókeypis til lækna það sem eftir lifir mánaðarins. Fólk, sem hittir tvo, þrjá, eða fleiri sérfræðinga á ári ætti því að raða læknisheimsóknunum upp þannig að það hitti alla sérfræðingana í sama mánuðinum. Fólk mun læra þetta með tímanum en það er ekkert sjálfgefið að fá tíma í sama mánuði hjá ákveðnum sérfræðilæknum á svipuðum tíma. Þetta er eitt flækjustigið af mörgum í nýja kerfinu.“

Margir neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar

Mun fleiri fresta læknisheimsóknum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum vegna kostnaðar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, sem byggja á evrópskri heilsufarsrannsókn fyrir árið 2015, neituðu um 8 prósent þeirra sem töldu sig þurfa á læknisþjónustu sér um hana vegna kostnaðar. Í rannsókninni kemur fram að ekkert samband er milli tekna og þarfarinnar fyrir heilbrigðisþjónustu, að geðheilbrigðisþjónustu undanskilinni en þörf fyrir hana minnkar með hækkandi tekjum. Alls taldi um fimmtungur aðspurðra sig þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda en þriðjungur taldi sig ekki hafa ráð á henni. Þeir tekjulægri hafa mun síður ráð á heilbrigðisþjónustu en þeir tekjuhærri og fleiri konur neita sér um þjónustuna en karlar vegna kostnaðar.

Enginn skilur nýja kerfið

Arna segir að þeir ráðamenn þjóðarinnar, sem samþykktu nýja greiðsluþátttökukerfið, hafi gengið of langt. „Þetta var auðvitað með ráðum gert, að þeir sem eru alvarlega veikir greiði minna á kostnað þeirra sem fara sjaldnar til læknis og það er gott.“ Réttast hefði þó verið að setja þak á veikustu sjúklingana og láta skattgreiðendur alla sjá um að borga mismuninn. „Greiðsluþátttökukerfið, eins og það er núna, gæti með þessu móti orðið margfalt dýrara fyrir samfélagið til lengri tíma litið.“

Þess eru dæmi að konur þurfi að borga allt undir 20 þúsund krónur fyrir heimsókn til kvensjúkdómalæknis með skoðun. Það er töluverð hækkun frá því sem áður var.
Margir kvensjúkdómalæknar segja nýja kerfið bleikan skatt á konur Þess eru dæmi að konur þurfi að borga allt undir 20 þúsund krónur fyrir heimsókn til kvensjúkdómalæknis með skoðun. Það er töluverð hækkun frá því sem áður var.

Þeir sem, til þessa, hafa borgað mest fyrir heilbrigðisþjónustu eru líklega krabbameinssjúklingar. „Þetta er ekki stór hópur á heildina litið en krabbameinssjúklingar eiga það sameiginlegt að vera skjólstæðingar Landspítalans. Auðvitað hefðu þeir átt að fá einhvers konar fríkort, þegar ákveðinni upphæð er náð, í stað þess að velta kostnaðinum yfir á aðra sjúklinga. Það hefði einnig komið í veg fyrir allt þetta ógagnsæi og flækjustig í kerfinu sem fáir eða enginn virðist skilja til fulls, en getur kostað stórar upphæðir ef það leiðir til þess að fólk neiti sér um læknisaðstoð. Að lokum segir Arna: „Eins og staðan er í dag hefur verið dregið úr tryggingarverndinni fyrir meirihluta sjúklinga, sem er mikið áhyggjuefni fyrir almenning.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lítt þekkt ættartengsl: Alþingiskonan og útvarpsmaðurinn

Lítt þekkt ættartengsl: Alþingiskonan og útvarpsmaðurinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þekktur videobloggari segir Bandaríkjamenn geta lært helling af byssueign Íslendinga

Þekktur videobloggari segir Bandaríkjamenn geta lært helling af byssueign Íslendinga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stefán í vandræðum á bílaplani: „Erfitt fyrir sálartetrið að vera skammaður eins og hundur af ókunnugum manni“

Stefán í vandræðum á bílaplani: „Erfitt fyrir sálartetrið að vera skammaður eins og hundur af ókunnugum manni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Prestur setur spurningamerki við milljónirnar sem fara í prestsþjónustu á Landspítalanum: „Ha í alvörunni??????“

Prestur setur spurningamerki við milljónirnar sem fara í prestsþjónustu á Landspítalanum: „Ha í alvörunni??????“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Jón Valur Jensson: „Fjallkonan hefur ávallt verið og á að vera kona“

Jón Valur Jensson: „Fjallkonan hefur ávallt verið og á að vera kona“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Hallgrímskirkja tekur þátt í HM gleðinni og spilar „Ég er kominn heim“ fyrir leikinn á laugardaginn

Hallgrímskirkja tekur þátt í HM gleðinni og spilar „Ég er kominn heim“ fyrir leikinn á laugardaginn