Ólafur Bragi ekki lengur eftirlýstur af Interpol

Enginn er lengur eftirlýstur af íslenskum yfirvöldum en voru átta árið 2015

Ólafur Bragi Bragason er ekki lengur eftirlýstur á heimasíðu Interpol en alþjóðalögreglan hefur lýst eftir honum í nærri 20 ár. Á heimasíðu Interpol er nú aðeins lýst eftir einum Íslendingi, Róberti Tómassyni. Alfreð Clausen var um tíma meðal eftirlýstra Íslendinga en var fjarlægður af vef Interpol í fyrra.

Enginn er eftirlýstur fyrir hönd íslenskra yfirvalda á heimasíðunni. Það er mikil breyting frá árinu 2015 þegar átta erlendir ríkisborgarar voru eftirlýstir á vef Interpol. Ekki fást upplýsingar um hvort mennirnir hafi verið framseldir til hlutaðeigandi landa.

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir í skriflegu svari til DV að það sé misjafnt hvort eða hvenær tilkynning um eftirlýsingu sé send aftur eða áréttuð. Jón vildi lítið tjá sig um hvort þeir sem íslensk yfirvöld hafa lýst eftir hafi verið framseldir hingað. Af svari hans að dæma er þó vel mögulegt að mennirnir séu enn ófundnir. Ísland hefur ekki haft fulltrúa hjá Interpol síðan á níunda áratug síðustu aldar.

Eftirlýstur í tvo áratugi

Ólafur Bragi Bragason hafði verið eftirlýstur af Interpol frá árinu 1998 fyrir hönd túnískra yfirvalda sem gruna hann um að hafa flutt inn tvö tonn af hassi til Túnis það sama ár. Ólafur Bragi hefur ítrekað verið dæmdur bæði á Íslandi og erlendis fyrir fíkniefnabrot. Samkvæmt Þjóðskrá er Ólafur Bragi með lögheimili í útlöndum en ekki er tilgreint í hvaða landi. Hann verður sextugur síðar á þessu ári.

Ólafur Bragi var síðast dæmdur í fangelsi árið 1994 í Danmörku en þar var hann handtekinn með 100 kíló af hassi. Árið 1985 var hann í tvígang handtekinn á Keflavíkurflugvelli þar sem hann reyndi að smygla hassolíu til landsins, annars vegar 10 grömmum af hassolíu í endaþarmi og 100 grömmum sem hann faldi í bók. Hann var þá dæmdur í sex mánaða fangelsi.

Handtekinn í Þýskalandi

Líkt og fyrr segir hefur Ólafur Bragi verið eftirlýstur í nærri tvo áratugi. RÚV greindi frá því árið 1998 að hann væri grunaður um að tilheyra glæpasamtökum í Evrópu. Hann hafði þá verið handtekinn í Karlsruhe í Þýskalandi.
Þá greindi Morgunblaðið frá því að Ólafur Bragi hafi beðið íslensk stjórnvöld að fara fram á að hann yrði ekki framseldur til Túnis. Svo fór að honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi í Þýskalandi þar sem yfirvöld í Túnís höfðu ekki aflað nægilegra gagna til að fá hann framseldan. Þá var talið líklegt að hann myndi snúa aftur til Íslands.

Aðeins einn enn eftirlýstur

Eini maðurinn sem enn er eftirlýstur af Interpol og tengist Íslandi er Róbert Tómasson. Hann fæddist í Jórdaníu en gerðist íslenskur ríkisborgari á tíunda áratugnum. Hann flutti til Bandaríkjanna þar sem hann var í lok árs 2001 handtekinn og ákærður fyrir að hafa rænt og hótað með byssu samstarfsmanni sínum í bílaumboði í Kaliforníu. Hann greiddi tryggingargjald en síðan þá hefur ekkert spurst til hans. Samkvæmt Þjóðskrá er hann búsettur í Bandaríkjunum.

Íslendingar gómaðir

Íslensk lögregluyfirvöld hafa í gegnum tíðina óskað eftir aðstoð Interpol við að lýsa eftir fjölda einstaklinga. Þar á meðal eru bæði útlendingar og Íslendingar. Nú er sú staða uppi að á heimasíðu Interpol er ekki lýst eftir neinum fyrir hönd Íslands. Meðal Íslendinga sem hafa verið eftirlýstir á síðustu árum má nefna Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, Gunnar Þór Grétarsson, sem var grunaður um smygl á amfetamíni, og Jón Valdimar Jóhannsson, sem var dæmdur fyrir líkamsárás á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi. Allir þrír hafa verið gómaðir.

Var síðast í fangelsi í Líbanon

Sem dæmi um erlenda menn sem voru nýlega á lista eftirlýstra fyrir hönd íslenskra yfirvalda má nefna Mohd Bashar Najeh Suleiman Almasaid, sem var árið 2006 dæmdur fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot en amfetamín og e-töflur fundust á veitingastaðnum hans, Purple Onion. Hann flúði Ísland á skútu og var síðast vitað til þess að hann væri í fangelsi í Líbanon.

Annað dæmi sem má nefna er Haítímaðurinn Yves Fancois, sem var grunaður um kynferðisbrot gegn barnabarni sínu. Hann kom til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar en talið er að hann hafi flúið land árið 2014. Óvíst er hvort búið sé að dæmi í máli hans þar sem nöfn eru nær alltaf afmáð úr dómum vegna kynferðisbrota.

Að lokum má nefna Ali Zerbout, sem var eftirlýstur um árabil á vef Interpol en hann var dæmdur árið 2002 í sex ára fangelsi fyrir að hafa stungið Redouane Adam Anbari fyrir utan Hróa hött í Fákafeni. Eftir því sem DV kemst næst hefur hann ekki verið gómaður.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.