Kötturinn Engill dó af völdum árásar husky-hunda: „Fólk verður að hugsa hvaða tegund það er með í höndunum“

Lausaganga hunda bönnuð alls staðar nema á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu

Ólöf birti meðfylgjandi mynd af sér og Engli á Facebook. Myndin af hundinum er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Ólöf birti meðfylgjandi mynd af sér og Engli á Facebook. Myndin af hundinum er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.

„Ég er ekki að dæma tegundina sem slíka. Þetta er á ábyrgð eigenda. Fólk verður að hugsa hvaða tegund það er með í höndunum áður en það tekur að sér hund. Slysin geta alltaf gerst hjá óábyrgum eigendum,“ segir Ólöf Guðjónsdóttir, eigandi kattarins Engils sem varð fyrir árás þriggja lausagönguhunda í Foldahverfi í gærdag. Engill var fluttur til dýralæknis í kjölfarið en ekki tókst að bjarga lífi hans vegna áverkanna sem hann hlaut af árásinni.

„Ég var að keyra upp götuna mína með mömmu og sé svo þrjá lausa husky-hunda hlaupa yfir götuna. Ég keyri út úr götunni og sé þá beygja niður hjá göngustígnum. Svo hugsa ég bara strax: „kötturinn minn!“ og sný við,“ segir Ólöf í samtali við blaðamann DV en hún kveðst því næst hafa hlaupið inn í hús þar sem kisi var hvergi sjáanlegur.
„Þá heyri ég mikið gelt frá garði nágrannans, og ég hleyp og sé að þeir eru að bíta í köttinn og hann liggur.
Ég öskra og hleyp að þeim og tek köttinn,“ segir Ólöf en hún var að eigin sögn í „panikki“. „Ég hleyp eins og spretthlaupari í panikki að bílnum mínum og pabbi minn sér einn hundanna hlaupa á eftir mér.“

Á dýraspítala kom í ljós að Engill var hryggbrotinn og afar illa slasaður. Ólöf þurfti því að kveðja hann því ljóst var að honum yrði ekki bjargað.

Kötturinn Engill.
Kötturinn Engill.

Ólöf deildi frásögn af atvikinu á Facebook-hópnum Kettir á Facebook og hefur færsla hennar fengið gífurleg viðbrögð. Þar birtir hún jafnframt meðfylgjandi mynd af kveðjustund hennar og Engils.

„Ég er búin að tala við eigandann og málið er í vinnslu. Það er hópur af fólki sem er að biðja mig um að kæra þetta og meira að segja sagði dýralæknirinn mér að gera það,“ segir Ólöf en hún kveðst varla geta lýst þeirri skelfingartilfinningu sem fylgdi því að horfa upp á gæludýr sitt verða fyrir grimmúðlegri árás.

Mynd/Facebook.
Mynd/Facebook.

„Ég get ekki útskýrt þessa tilfinningu, ég er enn að jafna mig. Það er náttúrlega ekki eðlilegt að svona gerist.“

Hundar skulu ekki ganga lausir í þéttbýli

„Óheimilt er að láta hunda vera lausa innan marka þéttbýlis […] hundar skulu annars ávallt vera í taumi utan húss, og í umsjá manns, sem hefur fullt vald yfir þeim,“ segir í 13. grein hundasamþykktar Reykjavíkur og eru reglur skýrar hvað þetta varðar. Enn fremur er einnig óheimilt að tjóðra hunda án eftirlits ábyrgs aðila en margir kannast við að rekast á eftirlitslausa hunda sem bundnir hafa verið fyrir utan til dæmis verslanir og veitingastaði meðan eigandi bregður sér inn.

Aðeins eru fjögur tiltekin svæði í Reykjavík þar sem heimilt er að sleppa hundum lausum. Það er á Geirsnefi, á Geldinganesi, innan hundaheldra girðinga og á hundaæfingasvæðum sem samþykkt hafa verið af heilbrigðisnefnd og loks á „auðum svæðum fjarri íbúðabyggð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.