fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Neyddar í ófrjósemisaðgerð: getnaðarvarnastefna í Perú svipti 300 þúsund konur barneignarfrelsi

Þáverandi þjóðhöfðingi Perú framdi mannréttindabrot á valdatíð sinni

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 9. apríl 2017 21:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin 53 ára gamla Victoria er ein þeirra fjölmörgu kvenna sem gekkst undir ófrjósemisaðgerð að henni forspurðri í kjölfar keisaraskurðar árið 1996. „Ég vildi eignast fleiri börn, en var svipt þeim rétti án þess að nokkrum dytti í hug að bera málið undir mig – þetta hefði átt að vera mín ákvörðun, ekki þeirra.“
Því fer fjarri að Victoria sé eina konan sem hlaut þessi örlög eins og breska ríkisútvarpið, BBC, fjallaði um á dögunum.

Victoria Vigo, þá tveggja barna móðir, gekk með sitt þriðja barn í apríl 1996. Hún bjó í borginni Piura á norðvesturströnd Perú. „Ég var komin 32 vikur á leið og allt lék í lyndi, síðan fór ég í reglubundna skoðun til heimilislæknisins,“ segir Victoria. Hún bætir við að læknirinn hafi sent hana upp á spítala, en á þeim tímapunkti gekk enn allt vel. Eitthvað varð þó til þess að læknar sögðu henni eftir að hafa skoðað hana að hún þyrfti að gangast undir neyðarkeisaraskurð, nokkrum vikum fyrir settan fæðingardag barnsins.

Barnið lést skömmu síðar

Eftir aðgerðina kom í ljós að barnið átti við öndunarörðugleika að stríða. Lungu þess voru ekki nægilega þroskuð sem varð til þess að það lést skömmu eftir fæðingu. „Einn læknanna kom til mín og sagði til hughreystingar: „Ekki vera sár, þú ert enn þá ung og getur reynt aftur.“ En þá greip annar læknir fram í fyrir hinum og sagði: „Nei, hún getur aldrei orðið ófrísk aftur, við erum búnir að framkvæma á henni ófrjósemisaðgerð.“

Lífskjör í Perú eru almennt séð mun verri en á Vesturlöndum, það kemur einna helst niður á heilbrigðiskerfinu. Aðstaðan á spítölum er ansi bágborin, en þar er ekki alltaf stuðst við deyfilyf í aðgerðum – þótt nauðsyn krefji.
Fæðingardeildin í borginni Piura Lífskjör í Perú eru almennt séð mun verri en á Vesturlöndum, það kemur einna helst niður á heilbrigðiskerfinu. Aðstaðan á spítölum er ansi bágborin, en þar er ekki alltaf stuðst við deyfilyf í aðgerðum – þótt nauðsyn krefji.

300.000 konur í Perú sviptar barneignarfrelsi

Á tíunda áratugi síðustu aldar sat forsetinn Alberto Fujimori á valdastóli. Árið 1996 kynnti hann sérstaka stefnu, sem nefnd var getnaðarvörn með sjálfviljugri skurðaðgerð (e. Voluntary Surgical Contraception), sem mun hafa verið tilraun perúska ríkisins til að draga úr fátækt. Hátt í 300.000 manns urðu fyrir barðinu á þessum aðgerðum ríkisins á árunum 1996–2000. Fórnarlömbin voru að stærstum hluta konur, en aðgerðirnar komu jafnframt niður á 22.000 karlmönnum.

Quipu-verkefnið

Fólk af báðum kynjum, flest fátækt, gekkst undir ófrjósemisaðgerðir. Nær allir voru innfæddir íbúar ættbálka á afskekktum slóðum, meðal annars hátt uppi í Andesfjöllum. Flestir töluðu aðeins quechua-tungumálið og voru ekki talandi á spænska tungu.

Þetta notfærði ríkisstjórnin sér. Rúmlega 272.000 þúsund konur og 22.000 karlmenn gengust undir þessa ófrjósemisaðgerð, bróðurpartur þeirra var látinn undirrita samning á spænsku, sem var þeim að öllu leyti óskiljanlegur.

Quipu-verkefnið leggur sig fram við að styðja fórnarlömb þessara aðgerða. Vefur verkefnisins safnar saman reynslusögum sem þolendur geta deilt í gegnum fría símalínu. Sögurnar eru síðan þýddar yfir á spænsku, quechua og ensku. Hlustendur um heim allan geta síðan hlýtt á sögurnar á netinu og vottað fólkinu samúð sína.

Að því er fram kemur á vef Quipu hafa 150 manns þegar sent inn sína sögu, en markmið verkefnisins er að varpa ljósi á þau mannréttindabrot sem fólkið mátti þola og hvetja það til að koma fram á sjónarsviðið og fá réttlætinu fullnægt.

Langflest fórnarlömb aðgerðanna voru búsett í afskekktum fjallahéröðum, t.d. við rætur Andesfjallgarðsins. Á myndinni má sjá Machu Picchu.
Andesfjöll Langflest fórnarlömb aðgerðanna voru búsett í afskekktum fjallahéröðum, t.d. við rætur Andesfjallgarðsins. Á myndinni má sjá Machu Picchu.

Hvað er quipu?

Til forna notuðust menningarsamfélög í Suður-Ameríku við sérstök, litrík bönd sem á voru hnýttir litlir hnútar sem táknuðu mismunandi hluti eftir staðsetningu sinni. Kerfið var meðal annars notað af Inkum til að skjalfesta upplýsingar um verslun, hernað og bókhald.

Nafngift Quipu-verkefnisins vísar til þess gagnanets sem verið er að skapa til að styðja þolendur ófrjósemisaðgerðanna og sjá til þess að saga þeirra gleymist ekki.

Forsetanum stungið í steininn

Alberto Fujimori var dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir bæði fjárdrátt og brot á mannréttindalögum, sem hann framdi á 10 ára valdatíma sínum. Hann var sviptur völdum árið 2000 og fangelsaður skömmu síðar og afplánar enn dóm.

Forseti Perú árin 1990–2000 afplánar í dag fangelsisdóm fyrir ýmis brot sem hann framdi á ferli sínum.
Alberto Fujimori Forseti Perú árin 1990–2000 afplánar í dag fangelsisdóm fyrir ýmis brot sem hann framdi á ferli sínum.

Yfirskin getnaðarvarnastefnunnar var að gefa fólki kost á miklu úrvali getnaðarvarna, sem það gæti valið úr, hygði það á ófrjósemisaðgerð.

Stjórnandi Quipu-verkefnisins, Rosemarie Lerner, tjáir sig um málið: „Sannleikurinn er sá að í stað þess að kynna fjölbreyttar getnaðarvarnir, var heilbrigðisstarfsmönnum úthlutað kvóta af aðgerðum sem þeim bar skylda til að framkvæma.“

Leita bóta tveimur áratugum síðar

Barátta Victoriu fyrir réttlæti hófst árið 1997, einu ári eftir andlát hennar þriðja barns. Hún stóð sex ár í stórræðum uns hún vann loks málið 2003 og fékk greiddar skaðabætur. „Þetta snerti ekki aðeins minn rétt, ég komst fljótt að því að þetta væri hluti af ríkisstjórnarstefnu og að ég væri ekki eini þolandinn,“ segir Victoria.

Hún er sú eina, af þessum tæplega 300.000 einstaklingum, sem tekist hefur að fá greiddar bætur. Þær námu 2.000 pundum á sínum tíma – en það jafngildir tæpum 600 þúsund krónum í dag með tilliti til verðbólgu.

Sægur af fólki er enn þann dag í dag að reyna að sækja málið fyrir dómstólum, tæpum tveimur áratugum eftir að Alberto Fujimori var steypt af stóli og hann settur á bak við lás og slá.

Íbúar Perú leyndir upplýsingum

„Flestar sögurnar eru af svipuðum meiði, hvernig ófrjósemisherferðin hófst, hvernig heilbrigðisstarfsfólk sótti konur heim, „bjóðandi“ aðgerðir til að uppfylla kvótann sinn, síðan hvernig aðstæðurnar voru í aðgerðinni og hve hörmulegar þær voru – sumar konurnar voru meira að segja gerðar ófrjóar á meðgöngu,“ segir Rosemarie Lerner.

Hér ber að líta hnútaband. Það var notað til forna til að skrásetja upplýsingar af ýmsum toga.
Quipu Hér ber að líta hnútaband. Það var notað til forna til að skrásetja upplýsingar af ýmsum toga.

Í gagnabanka Quipu eru sögur af fátækum konum sem neyddar voru í aðgerð í skiptum fyrir mat eða lyf. Fram kemur á vef BBC að margar aðgerðanna hafi klúðrast og orsakað örorku hjá konunum. Oft var ekki einu sinni stuðst við deyfingarlyf við framkvæmd aðgerðanna.

Ófrjótt fólkið er skilið eftir, óvinnufært og niðurbrotið. Það getur ekki sinnt hlutverki sínu sem mæður eða feður – og sjálfsmynd margra er brotin af þeim sökum. Til allrar hamingju heyra slík brot í Perú fortíðinni til, en tjón þessa saklausa fólks verður samt ekki tekið til baka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
Fréttir
Í gær

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus