fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Mannshvörfin frægu

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 8. apríl 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason rithöfundur skrifar:

Eftir að birtur var úrskurður endurupptökunefndarinnar í hinum frægu Guðmundar- og Geirfinnsmálum, vandað og ítarlegt plagg með miklum rökstuðningi, mætti kannski ætla að umræðum um þessi lífseigu sakamál fari senn að ljúka. Því það virðist vera um það almenn samstaða að niðurstaða nefndarinnar hreinsi nöfn þeirra sem voru dæmdir í þessum málum, að það sé sýnt að dómarnir hafi verið rangir og byggðir á ósönnuðum getgátum og þar á ofan játningum sem hafi verið einskis virði enda fengnar fram með klækjum, hótunum, útúrsnúningi og harðræði. Og varla annað í stöðunni úr því sem komið er að kveðja saman dómstólana á ný til að snúa gömlu úrskurðunum við og kveða upp sýknudóma. Og að sjálfsögðu yrði það gleðiefni fyrir alla ef réttlæti nær loks fram að ganga í þessum hryggilegu málum.

En hvað um dómsmorðingjana?

En þegar því hefur verið lokið vakna að sjálfsögðu nýjar og áleitnar spurningar sem fróðlegt verður að sjá hvernig verður leitað svara við. Og þá er ég ekki að tala um leyndardóminn um hvað varð um mennina tvo, því verður kannski aldrei svarað héðan af, enda hafa margir fleiri horfið á Íslandi og aldrei fundist, eins og bent hefur verið á. Hins vegar hlýtur það að verða mönnum ráðgáta hvernig það gat gerst að alsaklaust fólk er sótt út í bæ, borið upp á það að hafa komið mönnum fyrir kattarnef og því ekki gefinn kostur á neinu öðru en að viðurkenna það, og líf þess þannig lagt í rúst. Sé það svo að sakborningar hafi verið gripnir á grundvelli algerlega órökstuddra kjaftasagna, sannanir og vísbendingar hafi verið nánast engar en mönnum samt ekki gefið færi á öðru en að játa, þá er auðvitað óhugnanlegt til þess að hugsa að slíkt hafi getað gerst í tiltölulega nýliðinni fortíð, í því lýðræðislega réttarríki sem við töldum að hér væri.

Sævar Ciesielski.

Nú segja allir sérfræðingar, bókahöfundar og aðrir sem mest og best hafa sökkt sér ofan í málin að fljótlega eftir að rannsókn hófst, og í það minnsta löngu áður en ákærur voru gefnar út og dómar upp kveðnir, hafi öllum verið orðið ljóst, eða í það minnsta mátt vera augljóst, að ákærur gegn sakborningum voru byggðar á sandi og að í raun benti ekkert til sektar eða að þeir hefðu nokkurn tímann hitt eða séð mennina sem hurfu. En engu að síður hafi verið haldið áfram með málið vegna einhvers konar samfélagslegrar, eða jafnvel pólitískrar kröfu, um að málin yrðu leidd til lykta og sekir fundnir hvað sem það kostaði. Sé þetta svo, þá erum við farin að tala um réttarfarslegan glæp af þannig tagi að það ætti að kalla á sjálfstæð og mjög víðtæk málaferli. Eða í það minnsta rannsóknarnefnd Alþingis af stærri gerðinni.

Samsæri og einbeittur brotavilji

Skoðum það að til þess að tilhæfulausar ásakanir, byggðar á slúðri og getgátum en án allra efnislegra sannana, fari alla leið í gegnum kerfið, gegnum öll dómstig og endi með sakfellingu, þá þarf til þess einbeittan brotavilja og raunar víðtækt samsæri mjög margra. Það hefur verið bent á lögregluna, jafnt óbreytta sem rannsóknarmenn bæði á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, og svo fangaverði. Að auki þarf að sjálfsögðu ákæruvaldið með í málið og á endanum líka fjölskipaða dómstóla, bæði í héraði og svo sjálfan Hæstarétt. Miðað við það sem nú er sagt, og látið með öllu ómótmælt, þá hefðu réttsýnir menn einhvers staðar á þessari leið átt að sjá að málatilbúnaður hélt ekki vatni og að ekkert annað væri hægt að gera en að vísa öllu frá eða í það minnsta að sýkna hina ákærðu.

En það var semsé ekki gert; öðru nær.

Hafi þetta virkilega verið svona, þá hlýtur það að vekja upp ótal óþægilegar spurningar, til dæmis um þá menn, sem flestir hafa líklega haldið vera grandvara, menntaða og réttsýna, og skipuðu helstu dómstóla landsins, auk yfirmanna lögreglunnar. En það hefur greinilega verið eitthvað annað upp á teningnum, og líklega þá ástæða til að fara að skoða með krítískum augum fleiri mál og aðra dóma sem sömu menn kváðu upp. Í umræðum að undanförnu skirrast menn ekki við, hvorki í ræðu né riti, að tala um dómsmorð eða réttarmorð, en það er vel að merkja alvarlegur glæpur eins og hugtökin bera með sér, og í rauninni enn herfilegri en það sem ungu mennirnir voru dæmdir fyrir, þó ekki væri nema vegna þess að fórnarlömbin voru fleiri. Í umræðunum um GG-málin undanfarna áratugi hafa margir orðið til að koma sakborningum til varna, vitna um kynni sín af þeim og fullyrða að þannig fólk fremdi ekki ofbeldisglæpi, en nú hlýtur maður að fara að spyrja sig að því hvort lögmenn og dómarar þeir sem hér áttu hlut að máli eigi sér ekki líka einhverja formælendur; hvort vinir, samstarfsmenn eða ættingjar þeirra muni ekki reyna að bregða fyrir þá skildi þegar þeir eru ásakaðir um vísvitandi og vítaverða stórglæpi.

Langlífar ráðgátur

Þegar nú formlegum málaferlum lýkur senn, og þá með sýknudómum ef að líkum lætur, þá mun þetta mál samt halda áfram að verða mönnum ráðgáta, og þá ekki eingöngu vegna þeirra áleitnu spurninga sem ég hef nú þegar nefnt. Sjálfur hef ég lengi verið upptekinn af voðaverkum sem framin voru á Sturlungaöld, fyrir 700–800 árum, þannig að liðnu á sama hátt má búast við að GG-málin verði mönnum enn efni til heilabrota að mörgum öldum liðnum. Muni nú skrásetjarar og skáldsagnahöfundar framtíðar leggja sig fram um að skilja ýmsa þætti málanna, fá í þau rökréttan eða sálfræðilega skiljanlegan botn, þá munu allar hinar fjölmörgu, mismunandi og oft ærið skrautlegu játningar sem þar fengust fram örugglega valda töluverðum heilabrotum. Það er kannski ekki svo flókið með það sem menn fengust til að segja og meðganga þegar allt of langt var liðið á glæpsamlega einangrun með tilheyrandi harðræði, en hitt er líka staðreynd að frá upphafi máls virðast játningar hafa streymt fram svo hindrunarlítið að hreinni furðu sætir. Þess er að gæta að þegar menn eru ásakaðir um morð, þá er játning varla líkleg til að losa menn úr klemmunni, svo að hugboð þess sem ekki hefur lent í slíku er að menn hljóti að reyna í lengstu lög að bera af sér og þræta fyrir þannig upplognar ásakanir. Ef við lítum á fyrra málið, kennt við Guðmund, þá er það svo að eftir að fjórir menn eru settir í gæsluvarðhald og spurðir út í afdrif mannsins sem hvarf, þá eru þeir örskömmu síðar, samkvæmt undirrituðum skýrslum, allir búnir að segja sömu söguna – þá sem svo í megindráttum var dæmt eftir. Hjá þessum fjórum gerist það í einu tilfelli eiginlega sama dag og hann er fyrst spurður, en annars einni til tveimur vikum eftir handtöku. Og þetta eiga svo sömu sakborningar eftir að endurtaka margoft á næstu vikum og mánuðum, bæði hjá lögreglu og sakadómi. Nú þegar skýrsla endurupptökunefndar hefur svo eindregið sýnt að þetta voru falskar játningar þá eru mikil firn að þær hafi yfirleitt fengist fram. Varla voru menn beittir pyntingum, hótunum eða harðræði hjá Sakadómi Reykjavíkur? Eða hvað?

Einar Kárason.

Hér mætti nefna að þeir leikmenn, rithöfundar og blaðamenn sem mest hafa stúderað málin hafa bent á stórkostlega yfirsjón í dómsrökstuðningi vegna vitnisburðar manns sem sagður var hafa verið kvaddur með bíl á morðstað til að keyra burtu með líkið. Hann meðgekk að hafa komið á bíl föður síns, sem hafi verið fólksbíll með farangursrými að aftan, og hann minntist þess í yfirheyrslu hvernig bíllinn seig þegar eitthvað þungt var lagt þar í skottið. Seinna kom í ljós að faðir mannsins átti ekki lengur umræddan bíl þegar atburðurinn átti að hafa gerst, heldur Volkswagen-bjöllu, þar sem er ekkert farangursrými að aftan, svo að lýsing mannsins gat ómögulega staðist. Og vissulega er þetta ein af furðum málsins. En hitt er ekki síður alger ráðgáta að maðurinn skyldi, sama dag og hann var fyrst tekinn til skýrslutöku, hafa gengist við þessum uppdiktaða líkflutningi, og síðan endurtekið það alls þrettán sinnum næsta eina og hálfa árið, ýmist hjá lögreglu eða í sakadómi. Ég held að jafnvel rithöfundar með sálfræðilega innsýn á borð við Fjodor Dostojevskí hefðu lent í erfiðleikum með að draga upp heillega mynd af svona löguðu.

Hæstaréttardómur sem skáldskaparafrek

Ég sagði áðan að eins og mál hafa þróast og eftir nýjustu skýrslur og rannsóknir þá hljóti eiginlega að hafa verið um að ræða víðtækt samsæri með þátttöku manna á ýmsum stigum til að fremja þann gjörning sem hér um ræðir og menn kalla dómsmorð. Lesi maður hins vegar þá þykku bók sem inniheldur hæstaréttardómana í þessum málum, sem kveðnir voru upp árið 1980, þá hvarflar jafnframt að manni að eiginlega hljóti að hafa verið einhver einn yfirhöfundur bak við þá fábúlu alla; einhvers konar „mastermind“. Ég hef ekkert fyrir mér í þessu, og engan einstakling í huga, en hins vegar er sú saga sem sögð er í umræddri bók svo flókin, svo úthugsuð, útsmogin og samansúrruð að okkar bestu höfundar fyrr og síðar hefðu verið meira en fullsæmdir af. Og svo er hitt, hversu marga menn þurfti með í plottið svo það gengi upp. Eitt dæmi um slíkt, sem ég sítera hér eftir minni, kom upp þegar nýr sakborningur var dreginn inn í málið, tíu mánuðum eftir að farið var að yfirheyra hina. En samkvæmt dómnum leiddi vitnisburður nýja mannsins lögregluna á slóð sendiferðabíls sem á að hafa verið með í hinni frægu Keflavíkurför seinna mannshvarfsins. Í framhaldi af því á svo bíllinn að hafa fundist, og vitni sem hafði hann til umráða að hafa staðfest við yfirheyrslu að hann hafi verið notaður í umrædda för þetta tiltekna kvöld. Og eigandi bílsins að hafa staðfest að annar maður hafi haft að honum lyklavöld og getað notað á kvöldin – sá sem talað var um hér að undan. Svo segir í dómnum að lögregla hafi tekið mynd af bílnum og sýnt nýja sakborningnum: Var það þessi bíll? En að þá hafi viðkomandi ekki verið viss; sagt að hann minntist þess ekki að umræddur sendibíll hafi verið með svarta stuðara, eins og sá á myndinni. Dómurinn segir einnig að þetta hafi verið borið undir eigandann, sem þá hafi sagt að hann hafi nýlega málað stuðarana svarta, því það hafi verið farnir að sjást á þeim ryðtaumar.

Eiginlega er það pæling hvort eitthvert forlagið falist ekki eftir þessari bók, hæstaréttardómnum frá 1980, og gefi hana út sem skáldsögu.

Hvernig tókst að vefja saman allri þessari þvælu í máli sem svo reynist hafa verið uppspuni frá rótum, ja, eiginlega hefur þurft einhvers konar snilligáfu til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins