Svona lítur Gunnar út í dag: Safnar skeggi til að dyljast - játar að skoða myndir af fáklæddum börnum: „Í mínum augum er barnið kynvera“

Skeggið og hárið er dulargervi – Vill ekki leita sér hjálpar – Girnist stúlkur á aldrinum 3 til 11 ára - Segir barnagirnd ólæknandi – Skoðar enn myndir af fáklæddum börnum

Nú hefur þú gengist við því að vera pedófíll og þú horfir á barnaklám. Þú varst dæmdur fyrir fjórum árum. Ertu búinn að horfa á barnaklám síðan þá?

„Þessar 40 þúsund myndir, þær hafa nú ekki alltaf legið á hörðum diskum einhvers staðar á bak við lás og slá hjá mér …“

Hann heitir Gunnar Jakobsson og er dæmdur barnaníðingur. Einu sinni hét hann Roy Svanur Shannon en hann var skírður árið 1943 Erlendur Sveinn Hermannsson.

Gunnar hefur verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið eftir að í ljós kom að hann fékk skilorðsbundinn dóm fyrir að vera með 48.212 ljósmyndir og 484 myndskeið af barnaklámi í sínum fórum. Málið dróst vegna manneklu hjá yfirvöldum og það er þess vegna sem ég sit í eldhúskytru heima hjá dæmdum níðingi í gömlu niðurníddu húsi við hafið. Húsið var dæmt óíbúðarhæft fyrir tíu árum en þar hefur Gunnar búið í sjö ár. Úti gargar mávurinn í kuldanum en inni er lyktin viðbjóðsleg. Kattakassinn er undir eldhúsborðinu og kötturinn Megas, sem nennir ekki að veiða músina sem á heima á bak við örbylgjuofninn, hefur ekki geð í sér að gera þarfir sínar í kassann sem fylltist af skít og hlandi fyrir margt löngu. Þaðan sveima flugur sem blaðamaður og ljósmyndari DV slá frá sér og í kassanum eru lirfur. Gunnar segir að ég verði að míga úti, klósettið sé ekki mönnum bjóðandi.

„Ég var skírður Erlendur því það er útlendingur, Sveinn sem er drengur og Hermannsson því pabbi minn var hermaður í stríðinu. Hann var Kani. Hann ætlaði að kvænast móður minni þegar stríðinu væri lokið og fara með hana til Ameríku. Það varð ekkert úr því. Þess vegna skírði hún mig þessu nafni.“

Við höfum öll séð myndina af Gunnari sem hefur fylgt fréttum. Andlitið er nálægt linsunni, myndin líklega tekin með vefmyndavél. Á myndinni er hann sköllóttur og vel rakaður. Munnurinn strik á fölu breiðleitu andlitinu. Hann er með undirhöku og digrar kinnar sem eru aðeins farnar að slappast.

Núna ímynda ég mér, að þegar hann talar, klappi þær fyrir hverju orði. En það er ímyndun því ég sé þær ekki undir miklu og hvítu skegginu. Sá maður sem ég sit á móti er nefnilega ekkert líkur manninum sem við þekkjum á myndum í fjölmiðlum. Gunnar er eins og rjúpan, í felubúningi. Hann hefur sagt það sjálfur. Hvítt reytt hárið stendur út í loftið og hann líkir sér við Sigurbjörn heitinn biskup og hlær. Hann vill ekki þekkjast svo að hann geti sótt sundlaugar óáreittur.

Lyktin er furðufljót að venjast. Og þar sem ég og Diddi, ljósmyndari DV, sitjum á móti honum og hlustum á sömu söguna þar sem hann er að lýsa sig saklausan af því að hafa misnotað barn í þorpinu velti ég fyrir mér hvort það sé rétt að birta viðtal við þennan barnaníðing. Birta það sem hann hefur að segja. Hvort það sé rétt að birta mynd af honum. Nýja mynd og svipta af honum hulunni svo fólk muni mögulega þekkja hann á götu.

Ég ákveð að bíða með að taka ákvörðun og hlusta frekar á það sem hann hefur að segja. Hann er búinn að hella upp á kaffi og er lukkulegur með þessa gesti. Músin krafsar undir örbylgjuofni og Megas kippir sér ekkert upp við það. Hundurinn Toni situr við fætur húsbónda síns og barnaníðingurinn byrjar að mala. Og ég þarf ekki að hlusta lengi til að réttlæta umfjöllun um þennan mann og af hverju hún eigi erindi við þjóðina. Af hverju það séu almannahagsmunir í húfi. Allar viðvörunarbjöllur hringja.

Byrjaði að girnast börn 16 ára

Gunnar safnaði skeggi til að þekkjast ekki.
Gamla myndin Gunnar safnaði skeggi til að þekkjast ekki.
Mynd: Samsett mynd

Gunnar hitti aldrei föður sinn og móðir hans tók það ákaflega nærri sér. Hún jafnaði sig aldrei á því að hermaðurinn Roy skyldi halda til Ameríku og skilja hana eftir með börnin á þessu skítaskeri, djöflaeyju. Hún gerðist bóndakona í Rangárvallasýslu og bjó þar ein í litlu koti með kýr og kindur. Þegar Gunnar varð sextán ára ákvað hún að bregða búi og eftir það varð hann að bjarga sér sjálfur. Hann segir að strax við kynþroska hafi hann byrjað að girnast börn.

Gunnar veður úr einu í annað. Hann reynir að réttlæta gjörðir sínar með því að segja að oftast þegar hann hafi misnotað börn hafi þau verið sofandi! Hann hlaut fyrst dóm árið 1997 og var þá dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Hann misnotaði sex ung stúlkubörn. Hann tók ofbeldið upp á myndband. Myndbandinu deildi hann með öðrum níðingum. Þá fannst mikið af barnaníðsefni á heimili hans. Á þeim tíma var dómurinn einn sá þyngsti sem barnaníðingur hafði hlotið hér á landi. Nokkrum árum eftir að hann losnaði úr fangelsi ákvað Roy Svanur að breyta nafni sínu í Gunnar Jakobsson og flutti til Danmerkur og gætti þar barna fyrir Íslending.

Misnotaði stjúpdóttur í sumarbústað

Gunnar á engin börn sjálfur. Hann hefur tvisvar verið í sambúð og telur að hann sé getulaus.

„Ég er grjónapungur. Ég hef búið með tveimur konum sem áttu báðar börn fyrir og okkur langaði til að eignast börn saman og gerðum svo sem ekkert til þess og ekkert til að hindra það. Þær eru báðar búnar að eignast börn eftir að við hættum saman. Ég hlýt að vera með grjónapung eins og það er kallað.“

Gunnar rifjar upp að fyrrverandi sambýliskona hans hafi átt dóttur. Fór Gunnar með dótturina, ásamt systurdóttur sinni, upp í Húsafell. Þar voru þau í tvær vikur í sumarbústað. Þar misnotaði Gunnar börnin. Gunnar segir að hann hafi haldið að börnin svæfu og gerir lítið úr ofbeldinu og segir að fósturdóttur hans þáverandi hafi ekki þótt misnotkunin neitt mál, heldur misst út úr sér hvað hefði komið fyrir móður sína. Seinna hafi málið verið rannsakað og sakar Gunnar mæður beggja stúlknanna um að hafa vegna fégræðgi beitt stúlkunum gegn honum og séð milljónir í hillingum. Þá hafi mörg hræðileg mál komið upp í þessum málaflokki á þeim árum og þjóðina þyrst í blóð. Þess vegna hafi hann fengið þungan dóm.

Fæddist pedófíll, deyr pedófíll

Gunnar kveðst hafa verið pedófíll frá unglingsárum.

„Ég hef verið pedófíll alveg frá upphafi.“

Ertu það enn í dag?

„Já já.“

„Ég hef verið pedófíll alveg frá upphafi“

Þú varst tekinn með mikið af barnaklámi. Færðu einhverja hjálp við þessu eða sækir þú aðstoð?

Gunnar svarar neitandi og hefur hvorki reynt að fá aðstoð eða verið boðin hún af yfirvöldum.

Þú vilt kannski ekki hjálp?

„Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Ég er 73 ára gamall. Það er of seint í rassinn gripið,“ svarar Gunnar og tekur ekki mark á neinum mótbárum.

Dómur á Selfossi fellur

Gunnar hlaut á dögunum skilorðsbundin dóm og hefur eins og áður segir ítrekað verið um það fjallað í fjölmiðlum. Er mikil reiði í samfélaginu vegna þess að málið dróst og aðeins einn starfsmaður hafði tök á því að fara yfir tugi þúsunda ljósmynda og mörg hundruð myndbanda. Dómurinn hljóðaði upp á 18 mánaða fangelsi, allt skilorðsbundið. Gunnar getur því drukkið sitt kaffi við eldhúsborðið frjáls eins og fuglarnir sem svífa um í leit eftir æti í fjörunni fyrir neðan.

„Dómurinn er fullkomlega eðlilegur og ekkert út á hann að setja,“ segir Gunnar. „Ég er búinn að bíða í fjögur ár.“

„Þessar 40 þúsund myndir, þær hafa nú ekki alltaf legið á hörðum diskum einhvers staðar á bak við lás og slá hjá mér“

Nú hefur þú gengist við því að vera pedófíll og þú horfir á barnaklám. Þú varst dæmdur fyrir fjórum árum. Ertu búinn að horfa á barnaklám síðan þá?

„Þessar 40 þúsund myndir, þær hafa nú ekki alltaf legið á hörðum diskum einhvers staðar á bak við lás og slá hjá mér. Mér er það engin … Ég get ekkert leynt því eða sagt þér það að ég horfi á barnaklám annars hefði ég ekki verið með þetta.“

Hvenær horfðir þú síðast á barnaklám?

„Þessari spurningu vísa ég alfarið frá, hún er svona svipuð og margar fleiri hjá þér … “

Seinna í viðtalinu vísar Gunnar því alfarið á bug að hafa tjáð sig með þessum hætti um barnaníðsmyndirnar 40 þúsund. Hann hafi misskilið spurningar mínar og talið að ég væri að spyrja um annað tímabil í lífi hans. Hann á samt eftir að játa aðra hluti, þegar lengra líður á samtalið.

„Allar kenndir mínar eru eins og þínar. Eini munurinn er sá að mínar kenndir eru til kvenna sem eru á milli bleyja en þú ert með kenndir til kvenna sem eru komnar af seinni bleyju.“

Þetta þýðir á hans máli að hann sér stúlkur á aldrinum þriggja til ellefu ára sem kynverur.

Gunnar lýsir því þegar hann var handtekinn og grunaður um að hafa misnotað barn í þorpi. Greint var frá því í fjölmiðlum að hann hefði vanið komur sínar á fósturheimili í nágrenninu. Fósturheimilið var í umsjá frænda hans. Seinna var öllum kærum kastað í ruslið. Lögreglan framkvæmdi húsleit og það var þá sem hún lagði hald á tugi þúsunda ljósmynda sem sýndu barnaníð og mörg hundruð myndskeið.

„Þeir sögðust hafa tekið 500 hluti, sögðu þeir í sjónvarpinu. Ég veit ekki hvaða hlutir það voru. Það var síðan svo gaman að á skrifborðinu hjá mér var svona löng röð af möppum, skjalamöppum og það eru til sérstök umslög til að setja diska í skjalamöppur og þessar möppur voru stútfullar af diskum og þær standa þar óhreyfðar enn. Þeir föttuðu það ekki. Ég var með mikla vídeómyndadellu og var með mikið af myndum. Það var engin mynd þar en þetta var klúðurslegt hjá þeim og lélegt að athuga ekki þetta,“ segir Gunnar og fullyrðir að hann eigi ekkert efni sem sýni barnaníð. Þá harðneitar hann að hann horfi á efni sem sýnir börn á klámfengin hátt. Þegar gengið er á hann viðurkennir hann að í dag horfi hann á myndir af fáklæddum börnum sem samkvæmt lögum væri ekki hægt að túlka sem lögbrot að hans mati.

Vissi ekki að Steingrímur væri látinn

Undir örbylgjuofninum á hagamús heima. Á einum tímapunkti stóð músin ofan á ristavélinni líkt og hún væri að veifa blaðamanni og ljósmyndara
Mús býr undir örbylgjuofninum Undir örbylgjuofninum á hagamús heima. Á einum tímapunkti stóð músin ofan á ristavélinni líkt og hún væri að veifa blaðamanni og ljósmyndara

Það er þekkt að barnaníðingar eigi í samskiptum. Þeir stofna til félagsskapar á netinu og skiptast þar á myndum. Í eldri dóm frá árinu 1997 segir að Gunnar hafi tekið sitt ofbeldi upp á myndbandstökuvél og deilt með öðrum. Hann segir hreykinn frá því að hann hafi verið sá fjórtándi á Íslandi sem hafi tengst internetinu. Aðspurður hvort hann hafi þekkt aðra barnaníðinga neitar Gunnar. En síðan kemur annað í ljós:

„Ég þekki nú ekki ómerkari barnaníðing en Steingrím Njálsson,“ segir Gunnar og veit ekki að Steingrímur er látinn: „Er hann dauður? Æ, hvað það var gott hans vegna, karl greyið.“

Hvað finnst þér um að heyra það? Var hann góður vinur þinn?

„Nei, við sátum einmitt saman á Hrauninu. Við vorum engir vinir.“

Aðspurður hvort hann hafi verið beittur ofbeldi af samföngum svarar Gunnar játandi:

„Á öðrum ganginum var ég laminn, ekki fast en svona. Á hinum ganginum drap meðfangi í sígarettu á hausnum á mér. Hann var vel þekktur fyrir það að hata pedófíla. Hann hafði orðið fyrir grófri misnotkun sem krakki og samt settur þarna inn. Það voru heimskuleg mistök.“

Nú sagði Steingrímur Njálsson og hélt því fram að sumum börnum þætti þetta enginn glæpur. Börnum þætti þetta bara gott. Ert þú þeirrar skoðunar?

„Á hinum ganginum drap meðfangi í sígarettu á hausnum á mér. Hann var vel þekktur fyrir það að hata pedófíla“

Gunnar svarar að sjö ára barn hafi ofsótt hann kynferðislega og hann hafi þurft að flýja undan því og flytja. Hann neitar að ræða það frekar og segir enn og aftur að þegar hann hafi beitt börn kynferðisofbeldi hafi þau verið sofandi eða hann talið svo vera.

Það gerir það varla betra að áreita sofandi börn? Er einhver munur á að áreita sofandi barn og vakandi barn?

„Það er engin afsökun og þetta er jafn ljótt, en ef það kæmist ekki upp, þá er engin skaði skeður. Ég yrði að bæta þessu á samviskubitsbunkann innra með mér. Það er það eina. Annað skyldi ekki hafa gerst. Ég er ekki að afsaka neitt með þessu. Ég álít þetta og það er mín sannfæring,“ segir Gunnar og kveinkar sér síðan undan því að vera útmálaður sem barnaníðingur og að foreldrar flýi með börn sín inn í hús þegar sjáist til hans. Hann segir rúður hafa verið brotnar í húsinu og í eitt skipti hafi reiður karlmaður mætt fyrir utan húsið vopnaður öxi og haft í hótunum. Hann þrástagast á því að hann sé góðhjartaður og börn sæki í hann. Það er ríkjandi hjá barnaníðingum að halda slíku fram. Við höfum áður rætt saman í síma og þá greindi hann frá því að þegar hann flutti til Danmerkur starfaði hann sem au-pair hjá Íslendingi. Segir Gunnar að Íslendingurinn hafi sjaldan verið heima og Gunnar sótti börnin og fór með þau í leikskóla og sótti þau seinna um daginn.

Misnotaðir þú þau börn?

„Nei, það var ekki svoleiðis?“

Hvernig gerist það að þú misnotar börn? Við hvaða aðstæður?

„Ég man bara ekki eftir öðru, ég er búinn að vera svona frá barnæsku. Það hefur alltaf verið á þessum nótum að ég hef verið að böggast í sofandi smástelpum. Það hefur aldrei neitt barn sagt neitt við mig: Hættu, ekki gera þetta.“

Er það ekki bara vegna þess að börnin hafa verið hrædd við þig?

Gunnar svarar neitandi og fer að tala um mikilvægi þess að hann hafi aldrei keypt mynd, selt, verið gefin eða sýnt nokkrum mynd. Það stangast á við dóminn frá árinu 1997. Þá harðneitar hann að ná í barnaníð á netinu.

Þarft þú ekki á hjálp að halda?

„Ég hef nú ekki lent í vandræðum af neinu tagi með mínar tilfinningar í tuttugu ár og ég fer ekki að fórna öðrum lífsgæðum varðandi það. Ég hef bara ekki neina trú að það sé hægt að gera nokkuð. – Ég ætla alla vega ekki að taka þátt í því. Ég hef enga trú á þessu.“

Músin veifar á brauðristinni

Við Diddi förum að sýna á okkur fararsnið. Þá birtist músin uppi á brauðristinni. Hún rís upp á afturlappirnar og það er líkt og hún sé að veifa þessum gestum, síðan stekkur hún niður og hverfur undir örbylgjuofninn Diddi segir:

Þú þarft að setja hann Megas upp á eldhúsbekk hjá þér, þá nær hann þessari músardruslu sem er fyrir aftan örbylgjuofninn.

„Ert hún búin að vera lauma sér þar?“ spyr Gunnar. „Æi, hún má vera þar. Ég held að þetta sé eina músin sem er hérna. Það pirrar mig ekki neitt.“

Gunnar er einnig á leið til Reykjavíkur og stefnir á að fara í Árbæjarlaug. Hann greinir einnig frá því að hann ætli ekki að skerða hár sitt og skegg.

„Ég ætla ekki að fara að raka af mér skeggið og klippa á mér hárið til að ég þekkist á þessari viðbjóðslegu mynd af mér.“

Gunnari er meinað að fara í sund á Selfossi og á Stokkseyri. Hann sækir því sundlaugar í Reykjavík og það er ástæðan fyrir síðu skeggi og miklu hári.

Ef þú ferð í sund ertu þá að horfa á börn þar?

„Ef þau eru í pottinum fyrir framan mig þá sný ég mér ekki undan, ég get ekki svarað því öðruvísi,“ segir Gunnar og bætir við þegar hann er spurður hvað eigi sér stað í hausnum á honum þegar hann sér barn í sundi:

„Í mínum augum er barnið kynvera. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir það. Það er engin skömm fyrir mig. Þetta er eins og ég er búinn að segja þér, þetta er kynvera. Kannski skýrir þetta málið; alveg eins og þegar þú horfir á fallega konu í pottinum eða Páll Óskar á fallegan strák, þetta eru kynverur. Þær eru kynverur fyrir mér á þessum aldri. Þær eru ekki í minnstu hættu líkt og fullorðnar konur fyrir þér. Enda hef ég aldrei áreitt krakka í svona tilfellum. Svona er það mitt prívat einkamál sem kemur ekki þér við ef ég held mig réttum megin við línuna.“

Gunnar greinir svo frá því að honum hafi borist bréf frá Árborg þar sem honum var bannað að fara í sund í tveimur laugum á Suðurlandi. Í bréfinu var hann sakaður um að áreita börn. Líkt og með aðrar ásakanir neitar hann öllum slíkum ásökunum.

Gunnar hvergi að sjá

Lungun fyllast af hreinu sjávarlofti og það er góð tilfinning að vera kominn út úr þessu húsi sem myndi sóma sér vel í hvaða hryllingsmynd sem er. Mér var hugsað til ótal kvenna sem ég þekki sem hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Óhjákvæmilega hugsa ég til vina sem ég hef misst, vina sem voru beittir kynferðislegu ofbeldi og lifðu það ekki af.

Seinna um daginn legg ég bílnum fyrir utan Árbæjarlaug og fer í sund. Það er ákveðin hreinsun eftir daginn. Ég svipast um eftir Gunnari. Hann ætlaði að vera hér í dag. Hann er hvergi sjáanlegur.

Þar sem ég sit í pottinum og bíð eftir að reyna að góma Gunnar hugsa ég hvort það sé rétt að birta viðtal við mann sem hefur beitt börn skelfilegu ofbeldi og er einn þekktasti níðingur landsins. Hvert er svarið? Svarið er alltaf, já. Gunnar afsakar gjörðir sínar líkt og komið hefur fram. Hann viðurkennir að vera barnaníðingur og það sé ólæknandi. Hann sér þriggja til ellefu ára stelpur sem kynverur. Hann neitar að leita sér aðstoðar. Hann lætur sér vaxa hár og skegg til að komast óáreittur í sund á höfuðborgarsvæðinu. Og hann hefur játað að hafa horft á myndir af fáklæddum börnum eftir að lögreglan lagði hald á rúmlega 40 þúsundir barnaníðsmyndir.

Allar viðvörunarbjöllur hringja.

Þess vegna ætla ég að segja sögu Gunnars. Hann á ekki að vera í þögninni og myrkrinu. Svona talar maður sem hefur beitt einhverju skelfilegasta ofbeldi sem hægt er að beita barn. Hann er barnaníðingur sem þarf á hjálp að halda, samfélags okkar vegna.

Ég rís á fætur. Horfi í kringum mig. Gunnar lætur ekki sjá sig í lauginni í dag. Ég verð ekki fyrir vonbrigðum. Ég er feginn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.