fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Ingi Freyr um Gunnar Smára: Taktleysi, firring og kann ekki að skammast sín

Kallar fyrrverandi ritstjóra sinn vinstri popúlista sem hafi enga sómakennd

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 28. apríl 2017 12:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingi Freyr Vilhjálmsson, fyrrverandi blaðamaður á Fréttatímanum, fer hörðum orðum um fyrrum ritstjóra sinn, Gunnar Smára Egilsson, í pistli sem birtist á vef Stundarinnar í dag. Segir Ingi Freyr að mánudaginn 3.apríl hafi enginn starfsmaður blaðsins fengið greidd laun en í miðri óvissunni hafi starfsmennirnir getað hlustað á Gunnar Smára í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon þar sem hann ræddi um stofnun Sósíalistaflokks Íslands. Gunnar Smári hafi boðað óútskýrð forföll þennan dag frá vinnu. Hluti starfsmanna hafi síðan fengið laun dagana á eftir en tíu starfsmenn hafi engin laun fengið og útséð að þau muni berast.

Þriðji í fjölskyldunni sem tapar á Gunnari Smára

„Einn af þeim starfsmönnum sem fékk ekki greidd laun er ég. Með því verð ég þriðji einstaklingurinn í minni fjölskyldu sem tapar áunnum launum á fjölmiðli sem Gunnar Smári Egilsson hefur rekið og stýrt í gegnum árin. Nú er Fréttatíminn á leiðinni í gjaldþrot með tilheyrandi fjárhagslegum skaða fyrir starfsmenn blaðsins, hluthafa þess, kröfuhafa og íslenska ríkið,“ skrifar Ingi Freyr.

Í pistlinum sakar Ingi Freyr fyrrverandi yfirmann sinn um að vera vinstri popúlista sem beri að varast. „Starfsmenn Fréttatímans eru bara „venjulegt launafólk“, alveg eins og fólkið sem Gunnar Smári talaði um að hann vildi vinna fyrir í sósíalistaflokknum sínum í viðtalinu við Harmageddon, og réttindi þess voru langt í frá tryggð þegar Gunnar Smári talaði með þessum hætti um Sósíalistaflokk Íslands. Gunnar Smári reyndi hins vegar ekki að tryggja réttindi þessa fólks sem hann sjálfur var með í vinnu og kom hann ekki aftur til starfa á Fréttatímanum eftir þetta. Starfsmenn náðu ekki í Gunnar Smára þarna í upphafi mánaðarins, hann talaði ekki við þá flesta þegar þeir spurðu hann spurninga um stöðuna og þeim sem hann svaraði var bent á framkvæmdastjórann,“ skrifar Ingi Freyr.

Tvískinnungur ritstjórans

Segir hann að Gunnar Smári hafi leikið tveimur skjöldum í framkomu sinni gagnvart starfsfólki og þess sem hann sagði í viðtölum við fjölmiðla. Meðal annars hafði hann vísað því á bug, í samtali við starfsfólk blaðsins, að það væri ótrúverðugt fyrir Fréttatímann að ritstjóri og eigandi blaðsins væri með Facebook-síðu sem kennd væri við Sósíalistaflokk Íslands. Heldur Ingi Freyr því fram að Gunnar Smári hafi sagt að aðeins væri um Facebook-grúppu að ræða og ekki stæði til að stofna slíkan flokk. Annað kom á daginn.

Þá fullyrðir Ingi Freyr að Gunnar Smári hafi talað starfsfólks blaðsins af því að taka atvinnutilboðum frá öðrum fyrirtækjum. Hann hafði hækkað laun þess og sagt framtíð fyrirtækisins trygga. Hann hafi síðan í apríl viðurkennt að Fréttatíminn hafi verið í nauðvörn rekstrarlega frá því í október 2016. Síðla árs hafi fyrirtækið hætt að greiða í lífeyrissjóð fyrir hluta starfsmanna. Telur Ingi Freyr að um blekkingar hafi verið að ræða.

Hefði getað skaðað íslenskt fjölmiðlalandslag

Að sögn Inga Freys fengu hluthafar einnig misvísandi upplýsingar frá Gunnari Smára sem og flestir aðrir. Ritstjórinn fyrrverandi hafi haldið stöðu fyrirtækisins mjög þétt að sér. Vísar Ingi Freyr í sameiningarviðræður Fréttatímans og Kjarnann og að hans mati geta eigendur Kjarnans prísað sig sæla fyrir að hafa ekki gengið til samninga. „Þannig hefðu sameiningartilraunir hans getað gert fábreytt fjölmiðlalandslag á Íslandi en verra og þar með lýðræðislega umræðu í landinu,“ skrifar Ingi Freyr.

Stökk fyrstur frá borði

„Þegar reksturinn var kominn í óefni og ljóst að blaðið gat ekki haldið áfram að koma út vegna taprekstrar og fjárskorts þá var Gunnar Smári sá fyrsti af starfsmönnunum sem yfirgaf fyrirtækið og notaðist í upphafi við þá tylliástæðu að hann væri að fara að stofna sósíalistaflokk en svo breytti hann sögu sinni þannig að hann hefði verið rekinn. Aðrir hluthafar Fréttatímans héldu hins vegar áfram að benda starfsmönnum blaðsins á að tala við Gunnar Smára og framkvæmdastjórann um stöðuna – hluthafar fjölmiðlafyrirtækja benda starfsmönnum yfirleitt ekki á að tala við útgefendur og eða ritstjóra sem búið er að reka.

Niðurstaðan hlýtur að vera sú að Gunnar Smári hafi sjálfur tekið ákvörðun um að hætta daglegum störfum fyrir Fréttatímann þegar í óefni var komið. Eftir sitja hluthafar, kröfuhafar og starfsmenn með fjárhagslegt tap af og hinir síðastnefndu eru í algjörri óvissu um tekjuöflun sína á næstu mánuðum,“ skrifar Ingi Freyr.

Ekki gott veganesti inn í stjórnmálastarf

Spyr hann hvort að hegðun Gunnars Smára geti talist ábyrg gagnvart öllum hagsmunaðilum og hvort að hegðun ritstjórans væri betri ef að hann væri að yfirgefa miðilinn til þess að stofna nýfrjálshyggjuflokk.

„Nei, það hefði auðvitað ekki skipt neinu máli. Svona hegðun gagnvart starfsfólki fyrirtækis og öllum hlutaaðeigandi aðilum sem bera skaða af rekstri Fréttatímans er aldrei gott veganesti inn í stjórnmálastarf, sama svo sem hvað flokkurinn heitir og sama hvað verður úr þessum sósíalistaflokki Gunnars Smára. Svona hegðar maður sér bara ekki sem ativnnurekandi. Skortur Gunnars Smára á auðmýkt í þessum útskýringum sínum og skuldaskilum sínum við starfsfólk blaðsins var algjör,“ skrifar Ingi Freyr og segir hegðun Gunnars Smára ósiðlega.

Sakar Gunnar Smára um hræsni

Þá bendir hann á þá hræsni sem fólst í síðasta leiðars Gunnars Smára fyrir Fréttatímann sem birtist 31.mars 2017, sama dag og starfsmenn Fréttatímans áttu að fá útgreidd laun. Þar fordæmdi Gunnar Smári hegðun HB Granda á Akranesi.

„Gagnrýnin á þessar aðgerðir HB Granda átti fullkomlega rétt á sér en staðan er hins vegar sú að þetta starfsfólk útgerðarfyrirtækisins er ennþá með vinnu og tekjur á meðan hið sama gildir ekki um fólkið sem vann hjá Gunnari Smára. Í þeim skilningi er hátterni hans gagnvart starfsfólki fjölmiðilsins, metið út frá afleiðingunum sem, hljótast af því hvernig hann hefur rekið og stýrt Fréttatímanum, verra en framkoma HB Granda gagnvart starfsfólki þess á Akranesi. Í Harmageddon-þættinum áðurnefnda mánudaginn á eftir sagði Gunnar Smári að Kristján Loftsson hjá HB Granda væri að leggja Akranes í rúst og að hann myndi ekki hætta fyrr en hann yrði „stoppaður“ – Kristján Loftsson hefur samt ekki valdið starfsmönnum sínum og öðrum viðlíka tjóni í Akranesmálinu og Gunnar Smári í Fréttatímamálinu svo vitað sé,“ skrifar Ingi Freyr.

Þá segir hann framkomu Gunnars Smára vera ótrúlegt dæmi um taktleysi og firringu. „Það er eins og maðurinn kunni ekki að staldra aðeins við og skammast sín og spyrja sjálfan um erindi sitt til að taka þátt í stjórnmálastarfi miðað við skaðann sem síðasta ævintýri hans hefur valdið venjulegu fólki sem hann vill nú vinna fyrir sem stjórnmálamaður,“ skrifar Ingi Freyr í niðurlagi greinarinnar.

Pistilinn má lesa í heild sinni hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“