Fréttir

Rafbílahittingur og hópakstur

Óku saman í halarófu til að vekja athygli á kostum rafbíla

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. apríl 2017 15:00

Jóhann G. Ólafsson er ötull talsmaður rafbílavæðingar á Íslandi. Hann stóð í gær, sumardaginn fyrsta, fyrir sérstökum viðburði tileinkuðum málstaðnum.

Mætt var klukkan 15 upp á Kauptún í Garðabæ, þar sem bílaumboðið BL bauð upp á kaffi og með því ásamt því að vera með rafbíla sína til sýnis. Síðan var efnt til hópaksturs og voru allir rafbílaeigendur hvattir til að taka þátt. Þegar blaðamaður náði tali af Jóhanni höfðu 20 bílar verið skráðir til þátttöku. Hann sagði fyrra Íslandsmet hafa verið átta bíla og var ánægður að hafa þegar í stað slegið það.

Ekið var í halarófu frá Kauptúni rúmlega átta kílómetra leið að Bæjarhálsi. „Ég valdi þessa leið til að sleppa að mestu leyti við umferðarljós,“ segir Jóhann. Á endastöðinni tók Orka Náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, á móti þátttakendum. Fyrirtækið rekur hleðslustöðvar fyrir rafbíla um land allt og hélt framkvæmdastjóri þess, Bjarni Már Júlíusson, fyrirlestur um nýjustu þróun í rafhlöðum.

Jóhann hefur mikla trú á framtíð rafbílsins hér á landi. „Ég trúi því staðfastlega að rafbílar séu framtíðin og að við séum alfarið að skipta yfir í þá. Eina leiðin til að aka er ekki að sprengja einhvern „risaeðlusafa“ í mótornum hjá sér,“ segir hann í gríni og á við allt jarðefnaeldsneytið sem dælt er upp og brennt með tilheyrandi mengun. Hann bætir því síðan við að algengur misskilningur sé að rafbílar skilji eftir sig stóraukið kolefnisspor í samanburði við aðra bíla, vegna framleiðsluferlis þeirra. Sporið sé ekki nema 15–30 prósentum stærra og það taki tvö ár að strika það út. En þá er miðað við akstur hér á landi, þar sem raforkan er virkjuð mestmegnis úr fallvatni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Með og á móti: Lúpína

Með og á móti: Lúpína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“