Fréttir

Netflix óskar eftir þýðendum

Bjóða upp á próf á netinu sem áhugasamir þýðendur geta þreytt

Ritstjórn DV skrifar
Föstudaginn 21. apríl 2017 10:23

Bandaríski afþreyingarrisinn Netflix hleypti fyrir skemmstu af stokkunum síðunni HERMES til að leita eftir þýðendum fyrir skjátexta bíómynda og þátta. Síðan, sem nefnd er eftir samnefndum sendiboða guðanna í grískri goðfræði, býður upp á viðamikið próf sem þýðendur geta þreytt á ýmsum málum.

Allir geta sótt um

Prófin kanna hve færir umsækjendur eru í að þýða enskan texta yfir á sitt eigið tungumál með tilliti til málfars, málfræði og fleiri þátta. Prófið tekur 90 mínútur og í lok þess fær umsækjandi sérstakt auðkenningarnúmer sem er notað við skráningu allra þýðinga í framtíðinni, það er ef viðkomandi fær starfið. Þannig getur Netflix vitað nákvæmlega hver þýddi hvað.

Æ fleiri tungumál

Árið 2012 var aðeins úr þrem tungumálum að velja fyrir notendur sem vildu horfa á efni með skjátexta. Þau voru öll mjög útbreidd mál: enska, spænska og portúgalska. En nú á síðastliðnum fimm árum hefur aragrúi mála bæst við, þar á meðal arabíska, pólska og kínverska en í heildina eru þau rúmlega 20 talsins.

Styttist í íslenskuna

Í frétt Skopos um málið kemur fram að Netflix sé þegar byrjað að svipast um eftir þýðendum til að snara þáttaseríum yfir á íslensku sem efnisveitan framleiðir sjálf. Þó íslenskir þýðendur séu ekki tilgreindir sérstaklega á HERMES geta allir þreytt prófið sem á annað borð hafa hug á að fást við þýðingar úr ensku.

Prófið má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af