fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Kitti í Selinu og upphafið að Sjálfstæðu fólki

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 21. apríl 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas R. Einarsson tónlistarmaður

Einar Kárason rithöfundur skrifar:

Það var fyrir meira en tuttugu árum að við aldavinur minn, Tómas R. Einarsson bassaleikari, tónskáld og bókmenntaþýðandi, vorum saman á ferðalagi með okkar fólki, en þá gengum við Tómas alllangan spöl út með Kvígindisfirði við norðanverðan Breiðafjörð til þess að skoða rústir lítils kots sem kom við sögu Halldórs Laxness og varð ein af kveikjunum til þess að hann skrifaði síðar sinn mikla epos um íslenska kotbóndann, snilldarverkið Sjálfstætt fólk. En Dalamaðurinn og Breiðfirðingurinn Tómas hafði lesið um heimsókn Halldórs til þessa staðar í bók með breiðfirskum sögnum sem Bergsveinn Skúlason tók saman og kom út árið 1984 undir heitinu Þarablöð; frásögnin í þeirri bók um kotið Sel er skráð af Jóni Jóhannessyni, skáldi frá Skáleyjum. Í frásögn Jóns eru meðal annars þessar línur: „En þótt kotið sé mannlaust um þessar mundir, kæmi mér ekki á óvart að einhverjir „andans menn“ ættu eftir að tylla sér þar niður á sigið garðbrot og litast um. Það var þarna sem veröldin laukst upp fyrir Kiljan skáldi. Þar lærði hann þá lexíu sem best hefur dugað honum.“

Það má sem sagt segja að þar sé lýst erindi okkar Tómasar á þennan stað; að gera okkar til að láta spádóm Jóns frá Skáleyjum rætast, reyna að verða þessir „andans menn“, og að sönnu tylltum við okkur niður á sigið garðbrot og lituðumst um. Ég man að við vorum örlítið þyrstir eftir gönguferð á sumardegi, en höfðum samt alveg gleymt að taka einhverja vökvun með. Hins vegar var ég með skeifulaga dós frá Ora með sviðasultu, og á henni gæddum við okkur þarna á garðbrotinu.

 

„Ertu lúsugur elska?“

 

Finnbogi Hermannsson

Því rifjaðist þessi gönguferð okkar félaganna upp nú á dögunum að ég heyrði endurfluttan í Rás eitt útvarpsins þátt Finnboga Hermannsson um Kitta í Seli, eða Svínanesseli í Kvígindisfirði, sannkallaða útvarpsperlu. Þar byggði Finnbogi á frásögn, eða „þjóðsögunni“ úr fyrrnefndri bók um heimsókn „Kiljans skálds“ í þetta kot, auk þess sem Finnbogi átti viðtal við gamla konu, barnabarn Kitta í Selinu sem mundi eftir kotinu og vistinni þar, og var afar verðmætt að fá að heyra rödd sjónarvottar um þessa löngu liðnu tíma.

En það mun hafa verið fyrir tæpri öld, eða árið 1921 þegar Halldór frá Laxnesi var nítján ára, að hann var á ferð um Barðastrandarsýslu með vini sínum séra Halldóri Kolbeins í Flatey, og komu þeir meðal annars í Kvígindisfjörð. Það varð úr að skáldið unga frá Laxnesi yrði eftir í þessu örreytiskoti, Svínanesseli, og dvaldist hann þar í vikutíma. Kitti í Selinu segir, samkvæmt frásögn Jóns Jóhannessonar, að hann hafi fyrst haft örlítinn beyg af Halldóri Laxness „því mér fannst hann vera öðruvísi en ungu mennirnir hérna í sveitinni.“ En auðvitað kom á daginn að það var ástæðulaust að óttast skáldið, hann var engum til ógagns né ama þótt heimafólkinu, Kitta, konu hans og stelpum, hafi þótt háttalag Kiljans kúnstugt. Meðal annars það að jafnan þegar hann hafði afklæðst fyrir nætursvefninn þá brá hann snæri um fötin sín og hengdi upp í sperrukverkina yfir rúminu sínu. Kitti spurði „hvers vegna hann færi svona með fallegu fötin sín.“
„Það er óværan“ svaraði hann.
„Ertu lúsugur, elska?“ svaraði Kitti þá.
Annars minntust þau í Selinu Kiljans skálds meðal annars fyrir það að hann stundaði þar sjóböð á hverjum morgni; kastaði sér til sunds úr fjörunni fyrir neðan bæinn og synti þar um hríð. Hrósaði fólkinu fyrir þessa afbragðs baðströnd.

 

Frumglæði eða fyrirmynd?

En því hefur þessi heimsókn og dvöl skáldsins unga þar í selinu orðið mönnum hugleikin að hann átti síðar eftir að gefa því undir fótinn í viðtölum að þarna megi að einhverju leyti finna fyrirmyndina að Sumarhúsum í Sjálfstæðu fólki, og mannlífinu þar. Þetta veit Finnbogi að sjálfsögðu, og vitnaði hann meðal annars í hinum stórgóða þætti sínum í viðtal sem Matthías Johannessen átti við Halldór Laxness, þar sem hann gerir lítið úr kenningum manna um að Bjartur í Sumarhúsum eigi rætur austur á Jökuldalsheiði; það sé miklu frekar ástæða til að leita þeirra róta í Kvígindisfirðinum, sagði skáldið í nefndu viðtali.

Menn ættu reyndar að taka með ákveðnum fyrirvara því sem höfundar sjálfir segja um rætur og fyrirmyndir í sínum bókum, þó ekki væri nema vegna þess að þeir eru ekki ólíklegir til að reyna að afvegaleiða þá sem eru á höttunum eftir slíku, enda getur beinlínis verið varasamt fyrir höfunda skáldverka að taka þátt í þeim vinsæla leik lesenda að finna fyrirmyndir. Að því sögðu er engin ástæða til að efa þau orð að hugmynd hins unga Halldórs um að skrifa bók um líf fólks í íslensku sveitakoti hafi að einhverju leyti kviknað þegar hann heimsótti þau í Selinu.

Hins vegar er ljóst að sveitin og allt umhverfi í kringum Sumarhús er mun meira sótt á slóðir eins og austur á Jökuldalsheiði. Í tilvitnuðu viðtali við Matthías reynir Halldór reyndar að gera lítið úr því, talar hálf fyrirlitlega um kenningar um að Sumarhús séu skyld Veturhúsum á Jökuldalsheiði, og segist ekki hafa þekkt bóndann þar. En þá er hins að gæta að menn hafa almennt ekki talið um skyldleika við Veturhús að ræða, annan en þá líkindin við nafnið á nýbýli Bjarts bónda. Hins vegar er vitað að Halldór þekkti bóndann á Sænautaseli þar eystra, og skrifar um heimsókn til hans í merkri ritgerð í Dagleið á fjöllum, og hafa menn gert í seinni tíð út á hinn augljósa skyldleika með landsháttum í Sænautaseli og heiðarbýlinu í skáldsögunni frægu, með uppbyggingu og ferðaþjónustu á staðnum. Hvað varðar Kitta í Selinu vestra og kotið hans er rétt að hafa í huga að það stendur við sjó, órafjarri öðrum slíkum kotum. Sumarhús eru hins vegar heiðabýli, og það standa mörg önnur slík á sömu heiði; þar eru heiðavötn og heiðalandslag, og þaðan bregða menn sér niður á láglendið í kaupstað, eins og gert er eystra. Í nágrenni Sumarhúsa er líka Jökulsá, og Bjartur í sögunni gengur fram á hreindýr, sem hefði auðvitað verið óhugsandi vestur á Barðaströnd.

Tengslin við Ameríku

Einar Kárason rithöfundur. Mynd/Sigtryggur Ari

Það er eitt í viðbót með líkindin á milli heiðarinnar þar sem Sumarhús standa og umrædda sveit eystra, sem gaman er að pæla í. En Hallbera gamla, móðir Finnu, seinni konu Bjarts, hefur lengst af búið á heiðinni, en misst marga afkomendur sína til Ameríku; þangað fær Nonni litli Bjartsson með aðstoð farkennarans að skrifa bréf til frænda sinna, móðurbræðra trúlega, sem verður svo til þess að Nonni flytur vestur til Ameríku, með það fyrir augum að syngja fyrir heiminn. En rétt er að athuga að Sjálfstætt fólk hefst á ofanverðri nítjándu öld, þegar Bjartur endurreisir býlið á Albogastöðum og kallar Sumarhús, en upp úr miðri þeirri öld, eða einhverjum árum áður en sagan hefst, voru einmitt miklir fólksflutningar af Jökuldalsheiði vestur til Ameríku. Það var í kjölfar Öskjugoss 1875 sem olli miklu öskufalli, jarðbönnum og eyðileggingu jarða. Fólk sem þá flosnaði upp tók sér far með skipi sem mun hafa siglt frá Vopnafirði; þetta var ein fyrsta stóra bylgja vesturferða héðan, og var áður en nýlendurnar í Manitóba í Kanada urðu til. Þau af Jökuldalsheiðinni fóru aðallega til Minnesota í Bandaríkjunum, og stofnuðu meðal annars íslenska kaupstaðinn „Minneota“ sem ég hef heimsótt, en þar bjó Vesturíslenska skáldið Bill heitinn Holm.

Rolluhokur fremur en kornrækt

Eins og ég hef sagt frá í skáldsögunum Stormi og Passíusálmunum þá er þessi staður, þar sem íslenski bærinn „Minneota“ stendur, að mörgu leyti afar óheppilegur til búsetu, og kemur ýmislegt til: skordýraplágur, geysilegar hitasveiflur, og fleira. Samt munu Íslendingarnir, aðallega af Jökuldalsheiðinni og víðar af Norðausturlandi, hafa valið sér þann stað umfram ýmsa hagfelldari, því að þeir voru að leita að stað hentugum fyrir sauðfjárrækt, sem var sá landbúnaður sem þeir þekktu. Þarna eru geysifrjósamar sléttur, upplagðar fyrir kornrækt, en við fólkið héðan þekktum bara rolluhokur. Víðar á sléttunum í landnámi komandi ára leituðu Íslendingar að hæðardrögum, eða í það minnsta litlum hólum á gresjunni, og völdu sér þar búsetu; þannig varð til einn af íslensku bæjunum vestra sem heitir „Mountain“. Meðan nýkomnir Þjóðverjar, Svíar, Úkraínumenn, Belgar og margar fleiri þjóðir hófu ábatasama kornrækt, hírðust Íslendingar uppi á hólunum sínum. En fóru brátt að einbeita sér öðru en því að stússast í kringum ásauð; í íslensku nýlendunum var mikið sungið og lesið, menn fóru út í að skrifa skáldskap, stofna blöð, boða guðsorð, stunda lög eða stjórnmál. Um þetta er til stórmerkileg ritgerð eftir Bill heitinn Holm sem ég nefndi áðan, hún heitir The Music Of Failure, og má finna í bók eftir hann sem heitir The Heart Can Be Filled Anywhere On Earth, auk þess sem mig minnir að hún hafi birst á íslensku í TMM.

Vilji menn fræðast nánar um Kitta í Selinu þá bendi ég á bók Bergsveins Skúlasonar: Þarablöð – þættir frá Breiðafirði. Að auki er um Selið góð og ýtarleg grein eftir Kjartan Ólafsson, í árbókinni Breiðfirðingur – 1916. Og svo ættu menn að leita uppi á Sarpinum hinn stórgóða endurflutta þátt Finnboga Hermannssonar sem ég gat um í upphafi þessa pistils.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins