Þetta flogaveikilyf orsakaði vansköpun hjá þúsundum barna

Allt að 4.100 tilfelli gætu átt rætur sínar að rekja til lyfsins

Valpróínsýra getur valdið göllum á hjarta, hryggsúlu og kynfærum barnsins.
Fæðingargallar Valpróínsýra getur valdið göllum á hjarta, hryggsúlu og kynfærum barnsins.

Flogaveikilyf sem gefið var konum á meðgöngu og notað við geðhvörfum á að hafa leitt til vansköpunar hjá allt að 4.100 börnum samkvæmt franskri bráðabirgðarannsókn

Lyfið nefnist Valpróínsýra (e. Valproate) og var fyrst kynnt í Frakklandi árið 1967. Það er selt víða um heim, meðal annars á Íslandi, undir mörgum mismunandi samheitum. Það hefur meðal annars verið markaðssett undir heitunum Depakine, Epilim, Stavzor og Depakote. Þá er lyfið jafnan selt undir heitinu Orfiril hér á landi.

Í frétt BBC um málið kemur fram að niðurstöður rannsóknarinnar hafi leitt í ljós að konur sem fengu lyfið væru í allt að fjórum sinnum meiri hættu á að fæða vanskapað barn. Í kjölfarið hafa læknar í Frakklandi verið beðnir um að gefa lyfið hvorki ófrískum konum né konum á barneignaraldri.

Að því er fram kemur í nýrri skýrslu frönsku lyfjaeftirlitsstofnunarinnar hafa á bilinu 2.150 til 4.100 börn fæðst með alvarlega vansköpum af völdum lyfsins.
Börn kvenna sem tóku Valpróínsýru á einhverjum tímapunkti hafa fæðst með hjarta- og kynfæragalla og ófullþroskaðan hrygg. Þá eru börn þessara kvenna einnig í hættu á að fæðast einhverf og eiga við þroskunarörðugleika að etja.

Konur sem tóku Valpróínsýru gegn geðhvörfum voru í minni hættu að fæða vansköpuð börn en þær sem tóku lyfið við flogaveiki. Líkurnar voru þó tvisvar sinnum meiri en hjá þeim sem tóku ekki lyfið á annað borð.

Allmargar fjölskyldur í Frakklandi hafa tekið sig til og stefnt framleiðanda lyfsins, Sanofi, fyrir að hafa ekki varað við mögulegum áhættuþáttum tengdum notkun þess. Fjölskyldurnar eiga það sameiginlegt að hafa gengið í gegnum það erfiða ferli að eignast vansköpuð börn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.