Pútín við öllu búinn: Sendir herlið að landamærum Norður-Kóreu

Talið tengjast hríðversnandi samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreumanna

Forseti Rússlands.
Vladimír Pútín Forseti Rússlands.

Vladimir Pútín Rússlandsforseti virðist vera við öllu búinn ef allt fer á versta veg í samskiptum Norður-Kóreu og Bandaríkjanna. Í dag var greint frá því að Rússar hefðu sent fjölmennt herlið að landamærum Norður-Kóreu en eins og margir vita liggja Rússland í suðaustri og Norður-Kórea í norðri saman.

Þetta gerist í kjölfar þess að Kínverjar sendu 150 þúsund manna herlið að landamærum Kína og Norður-Kóreu.

Mail Online greinir frá því að Rússar grípi til þessa ráðstafana af ótta við þann mikla landflótta sem myndi skella á í Norður-Kóreu ef til stríðs kæmi milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna.

Í morgun var birt myndskeið af herþyrlum og skriðdrekum að athafna sig við landamæri Rússlands og Norður-Kóreu.

Eins og flestum er kunnugt hefur verið grunnt á því góða milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreumanna undanfarin misseri. Hótanir hafa gengið á víxl en Bandaríkjamenn – og fulltrúar fleiri ríkja – eru ósáttir við kjarnorku- og eldflaugatilraunir Norður-Kóreumanna.

Pútín Rússlandsforseti hefur látið hafa eftir sér að geri Bandaríkjamenn árásir á kjarnorkubirgðastöðvar Norður-Kóreumanna gæti það haft mikil heilsufarsleg áhrif á íbúa í Rússlandi.

Talsmaður rússneska hersins, Alexander Gordeyev, vildi ekki tjá sig um ástæður þess að rússneski herinn er nú í viðbragðsstöðu við landamærin. Hann benti þó á að æfingar hefðu staðið yfir nýlega í TransBaikal-héraði í Síberíu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.