Ölvun í umferðinni áberandi á fyrsta degi sumars

Margir gómaðir af lögreglu í gærkvöldi og í nótt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þó nokkrum ökumönnum í gærkvöldi og í nótt sem sest höfðu ölvaðir undir stýri.

Upp úr klukkan eitt hafði lögregla afskipti af ofurölvi konu við Lindargötu. Að sögn lögreglu var konan vistuð í fangageymslu meðan ástand hennar lagast.

Um miðnætti var ökumaður stöðvaður í Garðabæ, en sá er grunaður um ölvun við akstur. Rétt fyrir klukkan þrjú nótt var bifreið stöðvuð á Kringlumýrarbraut og er ökumaðurinn grunaður um ölvun við akstur.

Þá stöðvaði lögregla bifreið á Nýbýlavegi rétt fyrir klukkan 21 í gærkvöldi og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum. Um ítrekað brot er að ræða. Loks stöðvaði lögregla bifreið í Ártúnsbrekku á öðrum tímanum í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.