Heyrnartól sögð hlera hlustendur

Heyrnartólaframleiðandanum virta, Bose, stefnt

Snjallsímaforrit fylgist með öllu sem notendur hlusta á
Þráðlaus Bose heyrnatól Snjallsímaforrit fylgist með öllu sem notendur hlusta á

Bose heyrnatólaframleiðandanum hefur verið stefnt fyrir brot á persónurétti með því að hlera eigendur þráðlausra Bose-heyrnartóla. Þeir eiga að hafa notað sérstakt forrit til að fylgast með og geyma öll gögn sem notandinn hlustar á, hvort sem það eru lög, hlaðvörp eða annað. Reuters greinir frá.

Kyle Zak, viðskiptavinur frá Illinois, lagði fram stefnuna, sem tekin var fyrir hjá alríkisdómstól í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag.

Forritið kallast „Bose Connect“ og geta notendur hlaðið því frítt niður í snjallsímann sinn. Það er síðan notað til að stjórna tónlistarspiluninni í heyrnartólunum.

„Fólk setur á sig heyrnartól til að geta hlustað á efni sitt í friði,“ segir lögfræðingur Kyle, Christopher Dore. Það getur verið afar óþægilegt fyrir notendur að Bose hafi hlustunarefni þeirra til umráða og geti ráðstafað því að vild.

Safna gögnum

Bose hefur enn ekki brugðist við fyrirspurnum sem sendar voru þangað á miðvikudag. Fyrirtækið er með aðsetur í Massachusetts, Bandaríkjunum, og er mjög umsvifamikið á heyrnatólamarkaðnum. Árlegar sölur þeirra eru sagðar nema um 385 milljörðum íslenskra króna.

Kyle Zak stefnir Bose fyrir brot á persónuvernd og fyrir að safna persónulegum upplýsingum notenda í hagnaðarskyni.

Vill hundruð milljónir í skaðabætur

Kyle greiddi tæplega fjörutíu þúsund krónur fyrir heyrnartól af gerðinni QuietComfort 35. Eftir kaupin fór hann eftir meðfylgjandi leiðbeiningum til að „fá sem mest úr sinni vöru.“ Það er að segja, að tengja tólin við Bose snjallsímaforritið og gefa þar upp allar persónuupplýsingar.

Kyle komst síðan að því að forritið sendi frá sér skrá yfir allt efni sem hann hafði hlustað á. Þau voru meðal annars send á síðuna Segment.io, sem gefur sig út fyrir að dreifa alls kyns notandagögnum um netið.

Í stefnu Kyle kom fram að val einstaklinga á hlustunarefni segði mikið til um persónu viðkomandi. Svo sem stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð og fleira. Hann skrifaði að einstaklingur sem hlustaði á íslamskar bænir væri mjög hugsanlega múslimi. Þannig væri Bose að njósna um mjög viðkvæma þætti í lífi viðskiptavina.

Kyle óskar þess að fyrirtækið leggi út fyrir skaðabótum sem hlaupa á hundruðum milljóna. Þeim verði síðan úthlutað til allra sem hafa keypt heyrnartól og hátalara úr þráðlausu línu Bose.

Hann vill að bundinn verði endir á gagnasöfnunina. Hún brjóti í bága við almenn hlerunarlög í Bandaríkjunum og lög um neytendasvik í Illinois.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.