Þessar götur verða göngugötur í miðborg Reykjavíkur frá 1. maí

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tími göngugatna í miðborginni hefst 1. maí næstkomandi. Í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér kemur fram að göngugötum sé ætlað að auðga mannlíf miðborgarinnar og bæta aðgengi gangandi og hjólandi fólks að verslun og þjónustu.

Vísað er í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur árið 2015 þar sem fram kom að 74% svarenda væru jákvæðir gagnvart göngugötum en einungis 13% neikvæðir. Hafði þá ánægja borgarbúa aukist jafnt og þétt frá því göngugötuverkefnið byrjaði.

Eftirfarandi götur verða göngugötur frá 1. maí til 1. október 2017:

• Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis
• Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstræti.
• Laugavegur og Bankastræti, frá Vatnsstíg að Þingholtsstræti
• Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.

Göturnar verða opnar fyrir akstur milli kl. 07 og 11 virka daga en bifreiðastöður í göngugötum verða óheimilar á öðrum tímum eins og venja er.

Bekkjum, blómakerum og öðrum götugögnum verður komið fyrir á svæðinu til að gleðja augað og lífga upp á mannlífið. Laugavegur verður málaður á kafla eins og síðustu ár og unnið að ýmsum sumarverkefnum á göngugötusvæðinu.

Til þess að göngugöturnar heppnist sem best er samstarf rekstraraðila og borgarinnar mikilvægt. Lífleg miðborg með auknum fjölda gesta er mikið gleðiefni en því fylgir aukið álag á hreinsun og viðhald. Rekstraraðilar eru því beðnir um að leggja borginni lið við að halda umhverfinu snyrtilegu í kringum starfsemi sína, sér í lagi veitingastaðir og kaffihús.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.