Fréttir

Kjötinu verður fargað eða sent aftur til Grænlands

Ráðuneytið staðfestir synjun Matvælastofnunar

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 19. apríl 2017 13:38

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest synjun Matvælastofnunar þess efnis að fyrirtækinu Esju gæðafæði ehf. væri ekki heimilt að flytja inn hreindýrakjöt frá Grænlandi.

Fyrirtækið var ósátt við synjunina og kærði hana til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Ráðuneytið hefur nú nýlega staðfest synjunina og mælt fyrir um förgun vörunnar sem beðið hefur ótollafgreidd í vörugeymslu í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Þar segir að ástæða synjunarinnar hafi verið sú að matvælin voru vanmerkt. Grænland sé utan evrópska efnahagssvæðisins (EES) og því gildi um þennan innflutning reglugerð um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan EES sem sett er meðal annars með stoð í lögum um matvæli og lögum um dýrasjúkdóma.

„Enn fremur gildir um þetta efni Evrópureglugerð (853/2004/EB) sem hefur verið innleidd hér á þessu sviði. Sú reglugerð mælir fyrir um hvernig standa skuli að merkingu afurða sem koma frá þriðju ríkjum og eiga að fara á markað í aðildarríkjunum,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

„Samkvæmt þessari reglugerð skal koma fram samþykkisnúmer hinnar grænlensku starfsstöðvar á afurðunum á svonefndu auðkennismerki. Tilgangur auðkennismerkis er annars vegar að tryggja rekjanleika vörunnar og veita upplýsingar um uppruna hennar og hins vegar að staðfesta að viðkomandi starfsstöð hafi gilt vinnslu- eða starfsleyfi,“ segir enn fremur en fyrir lá að auðkennismerkið var ekki auðgreinanlegt á umræddu hreindýrakjöti.

Synjun Matvælastofnunar var því staðfest og skal vörunni fargað eða endursend til Grænlands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af