Ragnar Þór um laun lífeyristoppa: Fari þeir þá í bankana

Formaður VR gefur lítið fyrir þær skýringar að laun æðstu stjórnenda þurfi að vera samkeppnishæf við laun í viðskiptabönkum

Ragnar Þór Ingólfsson hefur lengi verið gagnrýninn á rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna. Hann segir launakostnað æðstu stjórnenda ekki í neinu siðferðilegu sambandi.
Formaður VR Ragnar Þór Ingólfsson hefur lengi verið gagnrýninn á rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna. Hann segir launakostnað æðstu stjórnenda ekki í neinu siðferðilegu sambandi.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur verið mjög gagnrýninn á laun forsvarsmanna lífeyrissjóðanna en Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, ber þar höfuð og herðar yfir aðra kollega sína með tæpar 39,7 milljónir í laun árið 2016. Hann og fjórir aðrir lykilstjórnendur sjóðsins fengu alls 135 milljónir í sinn hlut í fyrra.

„Launakostnaðurinn er ekki í neinu siðferðilegu sambandi við hlutverk sjóðanna og það sem þeir eru að greiða út til lífeyrisþega. Þetta er sjálftaka og ég mun beita mér fyrir því að sett verði launaþak á framkvæmdastjóra sjóðsins. Hann ber höfuð og herðar yfir aðra framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna og það er búið að samþykkja innan stjórnar VR og stendur til að beina því til stjórnar lífeyrissjóðsins að launakjör framkvæmdastjórans verði endurskoðuð. Ég mun fylgja því mjög fast eftir. Þetta er til háborinnar skammar,“ segir Ragnar Þór í umfjöllun um síhækkandi rekstrarkostnað Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna í páskablaði DV.

Fari þeir þá í bankana

Lífeyrissjóðurinn hefur ítrekað, þegar laun framkvæmdastjórans hefur borið á góma á umliðnum árum, bent á að þau séu samkeppnishæf við það sem gengur og gerist innan annarra fjármálafyrirtækja. Samanburðurinn virðist því vera viðskiptabankarnir, ekki endilega aðrir lífeyrissjóðir. Um þær skýringar talar Ragnar tæpitungulaust:

„Þá segi ég við þessa menn, farið þá bara og fáið ykkur vinnu þar og verði ykkur að góðu. Ég get fullyrt að það er til fjöldi strangheiðarlegs fólks sem er tilbúið að vinna fyrir sanngjörn laun. Það er nóg framboð af svoleiðis fólki, þannig fólk viljum við inn en ekki fólk sem heltekið er af græðgi og eigin ágæti sem er síðan oft takmarkað þegar upp er staðið.“

En því verður ekki að neitað að lífeyrissjóðirnir eru stórir, umsvif þeirra mikil og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með þeim stærstu. Er þessi mikli rekstrarkostnaður óþarfi, eða er svigrúm til að hagræða þar í þágu sjóðfélaga?

„Þetta er einn lífeyrissjóður, og í 330 þúsund manna samfélagi getum við spurt okkur hvort við þurfum alla þessa yfirbyggingu? Af hverju er sjóðurinn að láta eigna- og sjóðstýra fyrir sig nánast öllum eignunum ef við erum með alla þessa yfirbyggingu í sjóðnum sjálfum?“

Lesa má umfjöllun DV um rekstrarkostnað Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna í heild sinni hér.

Sjá einnig: Stjórn VR staðfestir launalækkun Ragnars

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.