fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Engar upplýsingar um notkun ráðherrabústaðarins

Forsætisráðherra hefur Þingvallabæinn til einkaafnota – Kostnaður á bilinu 3,3 til 4 milljónir árlega

Ritstjórn DV
Mánudaginn 17. apríl 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Engar upplýsingar eru tiltækar um notkun á ráðherrabústaðnum á Þingvöllum, hvorki hvað varðar einkaafnot forsætisráðherra af bústaðnum né opinber afnot. Rekstrarkostnaður vegna bústaðarins síðustu fimm ár hefur verið á bilinu 3,3–4 milljónir króna.

Forsætisráðherra hefur til áratuga haft ráðherrabústað á Þingvöllum til einkanota og til opinberra nota. Strax á fjórða áratugnum fór það að tíðkast að ráðherrar dveldu í bústaðnum. Sem fyrr segir fást engar upplýsingar úr forsætisráðuneytinu um notkun á bústaðnum. Í svari ráðuneytisins kemur fram að „forsætisráðherra hefur ráðherrabústaðinn á Þingvöllum til frjálsra afnota allt árið. Ekki er haldin skrá yfir notkun á bústaðnum eða tilefni notkunar.“

Notkun líklega takmörkuð

Sé litið á rekstrarkostnað vegna ráðherrabústaðarins síðustu fimm ár er margt sem bendir til að hann hafi verið í takmarkaðri notkun. Þannig var bókfærður kostnaður vegna hreinlætis- og ræstingavara um fimmtán þúsund krónur árin 2012 og 2013 og um fimm þúsund árin 2014 og 2015. Enginn kostnaður við þann lið er bókfærður árið 2016. Kostnaður vegna ræstinga er tiltekinn árið 2013 rúmar átta þúsund krónur og árið 2015 rúmar sjö þúsund krónur. Kostnaður við þann lið er ekki bókfærður árin 2012, 2014 og 2016.

Stærstu kostnaðarliðir eru laun og launatengd gjöld sem eru á bilinu 1,5 til 1,8 milljónir króna rúmar, lítið eitt mismunandi eftir árum. Þá er rafmagnskostnaður á bilinu 1,2 til 1,5 milljónir króna. Annar kostnaður er í flestum tilfellum talinn í þúsundum eða tugum þúsunda króna.

Snjómokstur og gas

Athygli vekur að árið 2013 er tilgreindur kostnaður upp á 85 þúsund krónur við liðinn eldhúsáhöld og rúmar átta þúsund krónur við liðinn gas og súr. Ekki er ólíklegt að það ár hafi verið keypt gasgrill í ráðherrabústaðinn og nýr gaskútur. Önnur ár er enginn kostnaður tiltekinn við þá liði. Þá hefur einhvern tíma verið farið í bústaðinn veturinn 2013 því það ár er tilgreindur kostnaður við snjómokstur, tæpar 26 þúsund krónur. Önnur ár fellur enginn slíkur kostnaður til.

Sigurður Ingi Johannsson segir að hann hafi notað bústaðinn í tví- eða þrígang þegar hann var forsætisráðherra. Hann hafi nokkrum sinnum verið hugsaður til opinberrar móttöku en ekki hafi orðið af því.
Notaði bústaðinn í tví- eða þrígang Sigurður Ingi Johannsson segir að hann hafi notað bústaðinn í tví- eða þrígang þegar hann var forsætisráðherra. Hann hafi nokkrum sinnum verið hugsaður til opinberrar móttöku en ekki hafi orðið af því.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Telur bústaðinn mikilvægan

Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir í samtali við DV að hann hafi sjálfur notað ráðherrabústaðinni í tví- eða þrígang í einkaerindum. „Ég man eftir því að í minni forsætisráðherratíð kom til greina að nota ráðherrabústaðinn til opinberrar móttöku í fjórum tilvikum. Það var þegar Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, kom í opinbera heimsókn, þegar Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotalands, kom til landsins, þegar forsætisráðherra Svartfjallalands kom hingað og þegar utanríkisráðherrar Eystrasaltslandanna komu til landsins. Ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum var valkostur í dagskránni í öllum þessum heimsóknum en var ekki notaður. Í þremur heimsóknanna gafst ekki tími og í tilfelli Ban Ki-moon hafði hann komið á Þingvelli þegar hann kom hingað til lands áður. Þar af leiðandi skipulögðum við öðruvísi ferð fyrir hann.“

Sigurður Ingi segir að honum þyki mikilvægt að hafa bústaðinn sem valkost í opinberum heimsóknum. „Það er mjög gaman að geta farið með þjóðhöfðingja og aðra sem hingað koma á Þingvelli, sýna þeim þjóðgarðinn og vöggu lýðræðis á Íslandi og geta haft móttöku í bústaðnum í slíkum ferðum. Mín skoðun er að bústaðurinn sé mjög mikilvægur í þessu tilliti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi