Veðurstofan varar fólk við

Í raun ekkert ferðaveður á morgun, annan í páskum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Í dag ættu sem flestir að nýta góða veðrið til að gera það sem þeim þykir skemmtilegt, því að á morgun annan í páskum er gert ráð fyrir suðaustan stormi með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að þeir sem hugðu á ferðalög milli landshluta á morgun ættu að íhuga að annað hvort að flýta brottför og fara í dag eða seinka henni til þriðjudags.

„Á fjallvegum vestantil hlánar ekki fyrr en undir kvöld og enn seinna eftir því sem austar dregur og verða því aksturskilyrði slæm og getur færð spillst með litlum fyrirvara,“ segir enn fremur á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Suðvestan 5-10 og él. Þykknar upp með rigningu eða slyddu vestantil um kvöldið, en léttir til austanlands. Hiti 1 til 7 stig, mildast suðaustanlands.

Á miðvikudag:
Allhvöss sunnanátt, rigning og hiti 4 til 10 stig, en þurrt að mestu austanlands. Snýst í allhvassa suðvestanátt með hvössum éljum og kólnandi veðri um landið vestanvert eftir hádegið.

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti):
Vestan- og norðvestanátt með skúrum eða éljum, einkum norðantil. Frost 0 til 5 stig um landið norðanvert, en hiti 0 tl 5 stig sunnantil.

Á föstudag:
Fremur svöl norðvestanátt með dálitlum éljum um landið norðanvert, en lengst af bjartviðri syðra.

Á laugardag:
Útlit fyrir hæglætisveður með stöku éljum við norður- og austurströndina, en að þykkni upp suðvestantil með kvöldinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.