Tvöfalt líf Gunnars sem kona á Barnalandi 

Dæmdur barnaníðingur virkur á spjallborðinu sem „Dísagella“ – Sótti myndir af nöktum börnum á Barnalandi – Hélt úti bloggi – Nýlega dæmdur fyrir vörslu barnaníðefnis

Fyrir tuttugu árum hlaut Roy Svanur Shannon þungan dóm fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum. Hann breytti nafni sínu í Gunnar Jakobsson eftir afplánunina og var á dögunum dæmdur fyrir vörslu mikils magns barnaníðsefnis.
Hlaut þungan dóm Fyrir tuttugu árum hlaut Roy Svanur Shannon þungan dóm fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum. Hann breytti nafni sínu í Gunnar Jakobsson eftir afplánunina og var á dögunum dæmdur fyrir vörslu mikils magns barnaníðsefnis.

Dæmdur barnaníðingur Gunnar Jakobsson, sem áður hét Roy Svanur Shannon, hefur um árabil lifað tvöföldu lífi í netheimum undir dulnefni sem ráðagóð eldri kona á spjallborðum Barnalands sem síðar varð er.is og nú Bland. DV rakti slóð Gunnars á netinu og afhjúpaði bloggsíðu, sem hann hélt úti um árabil eftir að hann flúði land, auk prófíls sem hann hefur notað til að fara huldu höfði um myndasíður og spjallborð Barnalands.

Gunnar var í Héraðsdómi Suðurlands á dögunum dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi eftir að gríðarlegt magn af barnaníðsefni fannst við húsleit á heimili hans 10. janúar 2013 og fíkniefnabrot, vegna mikils magns kannabisefna sem fundust í bifreið hans árið 2016.

Sótti myndir af börnum á Barnalandi

Samkvæmt dómnum var um að ræða 48.212 ljósmyndir og 484 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Gunnar játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Mikið magn af geymslulausnum og tölvubúnaði var gert upptækt í málinu. Harðir diskar, DVD-diskar, CD-diskar og turntölva.

Meðal efnis sem fannst voru myndir af nöktum íslenskum börnum sem grunur leikur á að Gunnar hafi sótt og vistað af myndasíðum foreldra á barnaland.is, sömu síðu og hann hefur verið virkur á undir dulnefni frá árinu 2003. Gunnar upplýsti í umtöluðu viðtali í helgarblaði DV að hann girntist stúlkur á aldrinum 3 til 11 ára, hann sé haldinn ólæknandi barnagirnd og hafi safnað hári og skeggi til að geta farið óáreittur í sund á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann, að eigin sögn, virðir fyrir sér ungar stúlkur.

Lögreglan á Selfossi sendi frá sér tilkynningu vegna handtökunnar þann 11. janúar 2013 sem sagt var frá á dv.is. Þar kom fram að Gunnar væri grunaður um kynferðisbrot gegn þremur ungum börnum. Brotin voru sögð talin hafa átt sér stað tveimur til þremur árum áður og var lögð fram gæsluvarðhaldskrafa í málinu. Við húsleit sem gerð var í kjölfarið á heimili hans á Stokkseyri, fannst síðan þetta mikla magn barnaníðsefnis.
Rannsókn á meintum kynferðisbrotum sem Gunnar var sakaður um í janúar 2013 leiddi ekki til ákæru, en eftir stóð ákæra fyrir vörslu barnaníðsefnis og fíkniefna.

Hlaut þungan dóm 1997

Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum var ákveðið að skilorðsbinda dóminn yfir Gunnari í síðustu viku að teknu tilliti til þess að verulegur dráttur varð á rannsókn málsins hjá lögreglu og skýlausrar játningar Gunnars. Athygli vekur að í dómnum kemur fram að samkvæmt framlögðu sakavottorði hafi Gunnar ekki áður sætt refsingu. Ljóst er að það er ekki rétt.

Roy Svanur Shannon, síðar Gunnar Jakobsson, hlaut fjögurra ára fangelsisdóm í héraðsdómi árið 1997.
DV 1997 Roy Svanur Shannon, síðar Gunnar Jakobsson, hlaut fjögurra ára fangelsisdóm í héraðsdómi árið 1997.
Mynd: Tímarit.is

Árið 1997 var Gunnar, sem þá hét Roy Svanur Shannon, dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir kynferðisbrot gegn sex ungum stúlkubörnum, en sum brotin tók hann upp á myndband og deildi með öðrum, auk þess sem mikið magn af barnaníðsefni fannst á heimili hans. Var um að ræða einn þyngsta dóm sem barnaníðingur hefur hlotið hérlendis á þeim tíma, og fékk málið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Eftir að hafa lokið afplánun breytti Roy Svanur nafni sínu í Gunnar Jakobsson og flutti til Danmerkur. Í viðtalinu við Gunnar í síðasta blaði DV kom fram að í Danmörku hefði hann starfað sem au-pair hjá Íslendingi og séð um að fara með börnin á heimilinu í leikskóla og sækja þau seinna um daginn. Tók hann fyrir að hafa misnotað þau.

Hélt úti bloggi í útlöndum

DV rakti á dögunum slóð Gunnars í netheimum til bloggsíðu sem hann stofnaði árið 2003 eftir að hann flutti út. Þar skrifar hann um daglegt líf sitt, fólkið í kringum sig, ferðalög til Spánar og lífið í Danmörku. Enginn vafi leikur á að bloggið tilheyri Gunnari enda rakti DV það til hans með tölvupóstfangi sem hann gefur sjálfur upp opinberlega í símaskrá auk þess sem bloggsíðan heitir í höfuðið á honum; GunniJak í Danmörku.
Fátt ef nokkuð virðist orka tvímælis í færslum Gunnars. Ekkert virðist þar að finna um samskipti hans við börn í það minnsta, ef frá eru talin nokkur orð um að hann sé að fylgja stúlkunni á heimilinu í skólann. Færslurnar eru reglulegar fyrstu árin en síðan líður lengra á milli skrifa. Meðal þess sem hann fjallar um eru veikindi sín í einni færslu frá því síðla árs 2003:

„Ég er búinn að liggja í þunglyndi undanfarna daga. Fyrsta skipti síðan ég fékk blessaða gleðipilluna fyrir 4 árum. Nú ryfjast upp fyrir mér hvernig mér leið alla ævina fram að því. Skelfilegt að hugsa til þess hvað mikið er hægt að þjást af þunglyndi. Og fáir eða engir sýna samúð, fyrst og fremst vegna þess að það er ótrúlega auðvelt að fela þunglyndi, það kemur bara fram á öðrum sviðum og þá er maður gjarnan rakkaður niður fyrir aumingjaskap.“

„Ég er endalaust að bíta úr nálinni vegna gerða minna fyrir 20 árum. Á því er ekkert lát“

Bloggaði eftir rassíuna

Rúmum tveimur mánuðum eftir að Gunnar var handtekinn og húsleit gerð á heimili hans í janúar 2013, ritar hann færslu, sína fyrstu í fjögur ár. Er hún dagsett 17. mars 2013. Þá er hann fluttur til Stokkseyrar og tjáir sig um nýliðna atburði.

„Það hefur ýmislegt drifið á daga mína síðan síðast. Ég er endalaust að bíta úr nálinni vegna gerða minna fyrir 20 árum. Á því er ekkert lát. Nú á ég heima á Stokkseyri og er búinn að vera í stöðugum hremmingum síðan ég flutti hingað fyrir fjórum árum frá Danmörku. Ég hef verið borinn ýmsum ásökunum sem ég er saklaus af, á að hafa verið að ofsækja krakka hér á Stokkseyri. Ég hef ekki borið hönd fyrir höfuð mér, en er búinn að skrifa langa greinargerð um mína hlið á málum. Ég ætla að setja hana hérna á bloggið þegar ég hef lokið þessum pistli. Svo langar mig til að Blogga eins og flestir aðrir eru farnir að gera, veit samt ekki hvort ég get það vegna síþreytu og framkvæmdaleysis, sem ég vil meina að sé sjúkt ástand en ekki leti og ómennska eins og sumir/margir halda fram.“

Greinargerðin birtist þó aldrei og ritaði Gunnar aðeins eina færslu á bloggsíðuna til viðbótar sem birtist í nóvember 2015 og er lítt markverð.

Þykist vera eldri kona á spjallborðum

Bloggsíðan vísaði þó á frekari virkni Gunnars í netheimum, en þá vísbendingu er að finna í færslu frá því í desember 2003. Þar gefur Gunnar upp Hotmail-netfang sitt og auglýsir eftir fólki til að spjalla við á MSN-spjallforritinu sáluga. Það netfang hefur Gunnar greinilega haldið áfram að nota því einföld leit að því á netinu leiðir í ljós umræðuþráð á spjallborði Barnalands, nú bland.is. Þar kemur netfangið fyrir í færslu þar sem annar notandi auglýsir eftir spjallvinum á MSN. Gunnar gefur upp sitt einkennandi Hotmail-netfang sem stemmir við það sem birtist í bloggfærslunni. Það er notandanafnið hans á Barnalandsspjallinu sem vekur óneitanlega athygli: „Dísagella.“


Í bloggfærslu á jóladag 2003 greinir Gunnar frá póstfangi sínu á MSN. Strantos2@hotmail.com.
Netfangið Í bloggfærslu á jóladag 2003 greinir Gunnar frá póstfangi sínu á MSN. Strantos2@hotmail.com.
Mynd: Skjáskot


Í spjallþræði á Barnalandi/er.is 6. maí 2004 gefur notandinn Dísagella upp sama netfang og Gunnar á blogginu.
Dísagella með sama netfang Í spjallþræði á Barnalandi/er.is 6. maí 2004 gefur notandinn Dísagella upp sama netfang og Gunnar á blogginu.
Mynd: Skjáskot


Mynd: Skjáskot af bland.is

Á prófíl Dísugellu kemur fram að hún hafi verið meðlimur á spjallborðinu síðan í júní 2003 og af þátttöku notandans á spjallborðinu, umræðum og ummælum verður ljóst að þarna fer Gunnar huldu höfði sem ráðagóð eldri kona. Ýmis skrif Gunnars undir nafni Dísugellu á spjallborðið koma heima og saman við líf hans og ýmis smáatriði, eins og þau birtast í bloggfærslunum. Nema að á spjallborðinu talar Gunnar ávallt um sig í kvenkyni, sem Dísu, enda var spjallborðið lengi framan af að mestu umræðuvettvangur kvenna um hin ýmsu málefni. Dísagella var nokkuð virk á spjallborðinu til ársins 2007, lagði orð í belg og gaf konum í vanda ýmis ráð meðal annars við andlitsförðun. Árið 2006 tekur Gunnar, sem Dísagella, m.a. þátt í umræðu um síþreytu.

„Sæl systir, láttu mig þekkja þetta helvíti!! Ég fer að sofa þreytt á kvöldin, sef 8 tíma værum svefni og vakna samt ennþá þreyttari en þegar ég for að sofa! Ég er búin að láta skoða allt sem upp var talið hér að ofan, reyndar kom í ljós að ég er með latan skjalda, en ég tek lyf við því. Svo er ég með kæfisvefn, sef núorðið með öndunarvél og er hætt að fá kæfu, en ekkert lagast. Alltaf jafn þreytt. Borða hollan mat, hreyfi mig smávegis, reyndar of feit, en shit, það á ekki að orsaka síþreytu eitt og sér. Nú er ég að fara í hjartatékk, einhver aukahljóð í hjartanu. Síðasta hálmstráið að þar sé orsökina að finna. Skil samt ekki hvað það ætti að vera. Jú, þunglynd, en ét lúkufyllur af Seroxat og það hefur gert kraftaverk á sálinni.“

Gunnar hafði á bloggi sínu áður tjáð sig um kæfisvefn sinn og þunglyndið, líkt og áður kom fram.

Dísa á leið til útlanda?

En eftir 2007 birtist Dísagella ekki aftur á spjallborðinu fyrr en 2016, en nýjustu færslur Gunnars eru síðan í janúar síðastliðnum. Skrifaði hann þá ummæli við þráð sem hann stofnaði sjálfur undir yfirskriftinni „Hvar er gott að lifa?“
Þar virðist Gunnar, sem í dag er 73 ára gamall, upplýsa að hann sé að leita sér að nýjum dvalarstað, helst erlendis. Í upphafspóstinum skrifar Gunnar sem Dísagella:

„Ég er einhleypur ellismellur og var að missa húsnæðið mitt. Hef lengi búið í góðu ódýru leiguhúsnæði og komist ágætlega af. En sú sæla er búin ef ég þarf að borga fimm falda leigu. Sé helst fyrir mér að flýja til útlanda. Ég held ég geti tórað á Bótinni í ódýru útlandi. En þá er það spurningin: hvar er skárst að komast af? […]“

Taka ber fram að í umræðunum sem Dísagella hefur tekið þátt í á spjallborði bland.is, fer engum sögum af ósæmilegri hegðun eða tilraunum Gunnars til að komast í samskipti við börn. En ljóst er að þeir notendur spjallborðsins sem hugsanlega hafa átt í samskiptum við Dísugellu eða vingast við hana þar, hafa ekki gert sér grein fyrir því að þeir væru í raun að tala við karlmann á sjötugs- og nú áttræðisaldri sem dæmdur hefur verið fyrir barnaníð og vörslu barnaníðsefnis. Þá er ljóst að Gunnar hefur notað síðuna til að nálgast myndir af börnum, að hugsanlega í skjóli dulnefnisins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.