Aðdáendur kókómjólkur furða sig á vondu aukabragði: „Er ekkert heilagt lengur?“

Misblöndun í bragðefni: Ekki stóð til að fríska upp á bragðið

Upp á síðkastið hafa einhverjir unnendur kókómjólkur fundið undarlegt bragð af kókómjólkinni sinni. Þá hafa þeir sem drekka Hleðslu með súkkulaðibragði einnig fundið fyrir því að bragðið hefur breyst.

Umræðan, um hvort búið væri að breyta kókómjólkinni eða hvað væri eiginlega á seyði, var tekin upp í Facebook hópnum Matartips í morgun. Þar skiptust matgæðingar á skoðunum og virðist sem margir hafi fundið óvenjulegt bragð af kókómjólkinni sinni.

„Er ekkert heilagt?“

Þar sögðu vonsviknir neytendur meðal annars:

„Ég tók eftir þessu síðast þegar ég drakk kókómjólk fyrir nokkrum vikum síðan. Ég hélt að hún væri skemmt og hellti henni. Vá það er ekki góðs viti ef þetta átti að vera eitthvað „nýtt“ bragð!“

„Ég var einmitt að spá í þessu. Drekk ekki oft kókómjólk en gerði það á laugardaginn og mér fannst bragðið vera eitthvað skrítið“

„Það er líka breytt bragð af hleðslunni. Hræðilegt“

„Úff, fyrst blár ópal af matseðlinum og svo prins póló. Ekki kókómjólk líka“

„Er ekkert heilagt lengur?“

„Ég er að drekka eina núna og hún er bara eins og alltaf.“

Misblöndun orsakaði bragðið

Björn Gunnarsson, vöruþróunarstjóri MS, segir í samtali við DV að hann kannist við vandamálið. Það kom fyrst upp fyrir nokkrum vikum. „Þetta var misblöndun í bragðefninu sem við fengum og kom ekki upp í gæðatékki hjá okkur,“ segir Björn og bætir við að ekki allir finni bragðið sem þykir bera keim af ávaxta- eða jarðaberjabragði.

„Það tók okkur smá tíma að átta okkur á því hvað væri í gangi þar sem ekki allir finna bragðið.“

Þegar starfsfólki MS tókst loks að einangra vandamálið var bragðefnið sent aftur til birgjanna og MS fékk nýja blöndu sem er rétt.

„Þetta er klárlega ekki eitthvað sem átti að gerast. Fólk finnur þetta líka í Hleðslu Það átti sannarlega ekki að fríska upp á bragðið með einhverjum svona ávaxtakeim. Að lokum vill Björn árétta að búið sé að leysa vandamálið. „Það er samt enn eitthvað til úti í búðunum af vörum sem voru framleiddar á þessu tímabili.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.