fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Halldór Auðar: „Það geta allir orðið fyrir kynferðislegri áreitni“

Auður Ösp
Mánudaginn 27. mars 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það geta allir orðið fyrir kynferðislegri áreitni og það er vont mál óháð kyni þess sem fyrir því verður. Reyndar tekur fólk það mismikið inn á sig, sumir geta bara hrist það af sér meðan það getur haft mjög slæm áhrif á suma aðra,“ segir Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata en tilefnið eru umræður sem átt hafa sér stað á samfélagsmiðlum í dag í kjölfar þess að söngkonan Salka Sól steig fram og greindi frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á árshátíð Icelandair.

Líkt og fram kom í frétt DV fyrr í morgun varð Salka fyrir áreitni rétt áður en hún steig á svið á árshátíð Icelandair á laugardagskvöldið. Á Twitter segir Salka: „Til mannsins sem kleip í rassinn á mér rétt áður en ég labbaði uppá svið á Iceland Air árshátíðinni í gær: fokk you dóni.“ Þá sagði Salka í samtali við Vísi að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hún lendi í atviki sem þessu. Venjulega snúi hún sér við og spyrji hvað sé að viðkomandi. Til þess hafi ekki gefist tími í þett sinn. „Ég vona að hann sjái þetta.“

Í kjölfarið steig tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens fram en í nýlegri færslu á Twitter segist hann skilja Sölku vel. Enda hefur hann sjálfur orðið fyrir kynferðislegri áreitni á skemmtunum. Í færslunni segir hann konur hafa gripið um klof hans og rass og tilkynnt honum að þær ætli að sænga hjá honum. Þegar hann hafi hafnað hafi hann verið kallaður hommi.

Líflegar umræður hafa átt sér stað á samfélagsmiðlum í dag. Annar einstaklingur sem lagt hefur orð í belg er Birgir Örn Guðjónsson, einnig þekktur sem Biggi lögga. Í nýlegum pistli hrósar hann Sölku fyrir að vekja athygli á málinu og kveðst jafnframt sjálfur hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu sem lögregluþjónn. „Sjálfur vinn ég gjarnan inna um drukkið lið þannig að ég veit alveg hvernig mannskepnan getur hagað sér. Og að sjálfsögðu einskorðast sú dýrslega hegðun ekki bara við karldýrin. Lögreglubúningar virðast t.d. hafa einhver stór undarleg áhrif á sumar konur,“ ritar Biggi og bætti við að það væri öðruvísi þegar gerandinn væri karl og þolandinn kona. Karlar hefðu líkamlega yfirburði, og það vald hafi þeir misnotað í aldanna rás.

„Á meðan ég get bara ýtt hendinni sem leitar á mig í burtu og beðið viðkomandi góðlátlega að hætta og finnst ég aldrei vera undir eða ógnað, þá getur kona í sömu stöðu fundist hún vera niðurlægð og ógnað af aðila sem hún ræður ekki við.“

„Konur taka þetta meira inn á sig“

Halldór Auðar blandar sér inn í umræðuna með færslu á facebooksíðu sinni þar sem hann segir alla geta orðið fyrir kynferðislegri áreitni, óháð kyni.

„Fólkið sem tekur það inn á sig er í fullum rétti til þess – sem og til þess að kvarta yfir þessari hegðun og tala um hana sem vandamál,“ ritar Halldór og bætir við að konur séu á vissan hátt varnarlausari í þessum aðstæðum.

„Almennt séð og án alhæfingar taka konur þetta meira inn á sig en karlar þar sem þær eru venjulega í aðeins annarri valdastöðu og þær hafa margar ástæður til þess að líta frekar á þetta sem ógn en karlar. Þetta á ekki að þurfa að útlista frekar með vísun í fræðimennsku heldur tel ég þetta nokkuð augljóst.

Hvað fólk vill síðan gera í þessum veruleika (ef eitthvað) er svo annað mál sem hver þarf að gera upp við sig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt