fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Þingmenn koma Nichole til varnar: „Kommentin um hana undanfarinn sólarhring eru ógeðfelld“

Hildur Sverrisdóttir og Þorsteinn Víglundsson taka upp hanskann fyrir þingmanninn

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 23. mars 2017 10:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Kommentin um hana undanfarinn sólarhring eru ógeðfelld. Mér er til efs að margir stæðu sig eins vel og hún gerir við að vinna störf þingmanns á öðru tungumáli en sínu eigin,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem kemur Nichole Leigh Mosty, þingmanni Bjartrar framtíðar, til varnar.

Nichole hefur mátt þola mikla gagnrýni í vikunni, eða allt frá því að hún tjáði sig um ummæli Mikaels Torfasonar um fátækt á Íslandi. Mikael fór mikinn í viðtali við Silfrið síðastliðinn sunnudag og gagnrýndi meðal annars getuleysi stjórnvalda til að glíma við fátækt auk þess sem hann sagði sögur af fátæku fólki hér á landi sem hann hefur rætt við.

Lokaði Facebook-síðu sinni

Nichole steig fram í kjölfarið og sagði að RÚV hefði gefið Mikael of mikið rými og að hann talaði einhliða um fátækt. Nichole fékk yfir sig holskeflu af gagnrýni og greindi Vísir frá því í gær að Nichole hefði lokað Facebook-reikningi sínum í kjölfarið. Það gerði hún eftir að níu ára sonur hennar opnaði Facebook-síðu hennar þar sem hann las svívirðingar um móður sína.

„Ég veit að þar er á ferðinni kona sem á fullt erindi á Alþingi.“

Vill hlífa fjölskyldunni

„Ég vil ekki að fólk banki uppá hjá mér og tali svona við mig. Fyrir framan börnin mín. Með ósanngjörnum og óréttlátum hætti. Og ég vil það ekki heldur á Facebook. Þá vil ég frekar loka fyrir þetta. Ég vil hlífa fjölskyldu minni og mínum nánustu við þessu,“ sagði Nichole við Vísi og bætti við að snúið hafi verið út úr orðum hennar sem skýrist af því að hún hefur ekki fullkomið vald á íslensku.

„Ég hef velt því fyrir mér hvort ég ætti að senda allt sem frá mér fer í yfirlestur? Ég viðurkenni það að íslenska mín er ekki fullkomin. Ég var til dæmis ekki að gagnrýna RUV. En, einhvern veginn varð sú fyrirsögn til,“ sagði Nichole við Vísi.

„What you see is what you get“

Fjölmargir hafa tekið upp hanskann fyrir Nichole, þar á meðal þingmenn.

„Af stuttu samstarfi mínu við Nichole að dæma þá er hún ein af þeim þar sem what you see is what you get og hispurslaus einlægni er ofar sýndarmennsku og klækjum. Það er hvetjandi að sjá konu vaða í slagi sem hún brennur fyrir og lætur ekki stoppa sig að orðin reynast oft erfið og setningarnar verða stundum bjagaðar,“ sagði Hildur Sverrisdóttir á Facebook-síðu sinni.

Þá segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, að þó hann hafi ekki haft löng kynni af Nichole hafi þau verið góð.

„Ég veit að þar er á ferðinni kona sem á fullt erindi á Alþingi. Hún er baráttukona með sterka sannfæringu, bakgrunn og reynslu sem mun án efa nýtast henni og þinginu vel. Hún er líka töffari og ræður án efa vel við það álag sem þingmennskunni fylgir. Vissulega þurfa þingmenn að þola gagnrýni og hafa þykkan skráp. Þau ummæli sem hafa verið látin falla um Nichole hafa hins vegar mörg hver lítið með málefnalega gagnrýni að gera. Þau eru mun fremur þeim sem þau hafa látið falla til minnkunnar en málefnalegri umræðu til gagns.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga