„Virkilega krípí mál“ Sleipiefni og kassi með hönskum: Silja telur líklegt að hryssurnar hennar hafi verið misnotaðar

„Virkilega krípí mál“

Mynd: ©Heida Helgadóttir

„Þetta er virkilega krípí mál,“ segir Silja Unnarsdóttir, eigandi hryssnanna tveggja, sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri misnotkun á milli jóla og nýárs á síðasta ári eftir að sleipiefni, olíur og plasthanskar fundust í einni stíunni. Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málinu hefur nú verið hætt nema nýjar vísbendingar berist.

Í frétt á RÚV segir að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafi engin lífsýni og engin nothæf fingraför fundist í hesthúsinu. Lögreglan sé því enn á byrjunarreit í rannsókninni. Silja tilkynnti málið til Matvælastofnunar í lok árs 2016 sem kærði málið og fór fram á rannsókn lögreglu

Þegar blaðamaður DV náði tali af Silju, sem er dýralæknir, í dag kvaðst hún sjálf ekki hafa fengið að heyra að rannsókn málsins væri lokið. „Ég átti ekkert sérstaklega von á því að eitthvað myndi finnast. Þetta er ekki beint glæpur sem hægt er að upplýsa auðveldlega. Það er ekki auðvelt að finna gerandann nema hann viðurkenni það sjálfur.“

Þá segir Silja að svo margir gangi um hesthúsið þar sem hryssurnar eru geymdar að það hefði verið erfitt að bera saman fingraför til að finna meintan geranda.

Í frétt um málið frá því í byrjun janúar um málið segir að eiginmaður Silju hafi, að morgni þriðjudagsins 27 desember séð kassa innst í einni stíunni sem ekki átti þar heima Hann fjarlægði kassann og kláraði morgunverkin. Um kvöldið var kassinn kominn aftur inn í stíu.

Ummerki eftir sleipiefni fundust svo á tveimur hryssum. „Hvað gerðist nákvæmlega veit ég auðvitað ekki,“ segir Silja sem telur þó yfirgnæfandi líkur á því að dýrin hafi verið misnotuð kynferðislega.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.