Fréttir

Sigurður dæmdur fyrir kynferðisbrot, hótanir og dreifingu kláms: „Mér er slétt sama hver sér mig nakinn, ég er gey.. þú ekki“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 20. mars 2017 20:30

Sigurður Dalmann Áslaugarson var í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag dæmdur til tveggja ára óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir kynferðisbrot, hótanir, dreifingu kláms og stórfelldar ærumeiðingar gagnvart öðrum karlmanni.

Brotin voru framin á árunum 2011-2014. Hann tók upp myndband, án vitundar brotaþola, af sér og brotaþola stunda kynmök og dreifði myndefni úr því myndbandi á internetinu. „Ég á þetta live allt saman, tíu mínútna myndband,“ skrifaði Sigurður meðal annars til brotaþola í einni af þeim hótunum sem hann var dæmdur fyrir. „Til að byrja með fer þetta á netið, mér er slétt sama hver sér mig nakinn, ég er gey.. þú ekki.“

Hann sagðist geta gert líf hans dásamlegt eða hreint ömurlegt. „Ekki leika leiki við mig.“ Svo gaf hann brotaþola 18 tíma til að hringja. Hann hótaði honum margs kyns afleiðingum ef hann hefði ekki samband og greiddi ekki skuld sína. „Það er eins og þú sért að kalla yfir þig óöryggi og ótta, getur aldrei verið viss hver er á eftir þér, hver mun koma inn um hurðina hjá þér þennan dag eða hinn, eða inn um hurðina hjá vinum þínum eða fjölskyldu. Getur aldrei verið viss um að það sé verið að stilla þér upp, eða að þú verður laminn eða rukkaður þar sem þú sést. það verður enginn staður sem að þú getur verið öruggur á því að menn finnast alltaf.“

Hótanirnar voru sumar mjög gófar. „Það verða farnar allar leiðir til að fá þetta borgað, það koma vextir ef að það verður ekki borgað. […] það verður enginn staður sem þú ert öruggur á meðan þú borgar ekki, þú hefur séð og hitt mína menn. þeir svífast einskis, á meðan þeir hafa go on hjá mér, þá skipti ég mér ekki af því hvað verður gert við þig eða þína nánustu.“

Í einum skilaboðum segist Sigurður hafa deilt myndefni af þeim á vegginn hans á Facebook, í nokkrar sekúndur. „Ég mun birta þetta X, ef þú finnur það ekki hjá mér að tala við mig á annan hátt enn á Facebook.“

Fram kemur í dómnum að mennirnir hafi kynnst árið 2011. Brotaþoli segir að hann hafi komist í skuld vegna neyslu fíkniefna og hafi ákveðið að bjóða fram kynferðislega þjónustu gegn greiðslu til að greiða skuldina. Hann hafi þekkt til Sigurðar og vitað að hann væri samkynhneigður. Þeir hafi stundað kynmök en á þessum tíma hafi hann átt kærustu. Tíminn hafi liðið og hann hafi verið í sambandi við ákærða og ekki losnað frá honum. Sigurður hafi með tímanum orðið ástfanginn af sér og sagt að hann skuldaði honum vegna fíknefna.

Sendi kærustu hans myndefni

Sigurður hafði fyrir dómi aðra sögu að segja og sagði að sambandið hefið ekki verið byggt á þvingunum. Fyrir dómi komu nokkur vitni sem sögðu að brotaþoli hefði haldið sambandi sínu með Sigurði leyndu. Tvær kærustur hans, fyrrverandi, sögðust ekki hafa vitað af sambandi þeirra fyrr en Sigurður sendi þeim myndir af þeim, í kynmökum.
Fram kemur í dómnum að Sigurður hafi meðal annars sent þáverandi unnustu mannsins minnislykil með myndum af honum nöktum að stunda kynmök með sér. Þrjár útprentaðar myndir af því sama hefðu fylgt sem og óundirritað bréf sem þar sem brotaþola var lýst sem óheiðarlegum og óáreiðanlegum. Hann ýjaði í bréfinu að því að brotaþoli væri með kynsjúkdóm. Með sendingunni fylgtu ljósrit af sex einkabréfum brotaþola til Sigurðar og útprentanir af fimmtán tölvupóstum.

Langur sakaferill

Sigurður á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1995. Hann hefur meðal annars fengið dóma fyrir ráð og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hann hlaut refsidóma árið 2009, 2013, 2014 en var í júní 2015 veitt reynslulausn í tvö ár. Þá átti hann eftir að afplána 390 daga í fangelsi. Fram kemur í dómnum að ekki hafi verið um eiginlegt rof á skilorði að ræða vegna þess að ákæran var lögð fram á árinu 2014. „Á hinn bóginn er til þess að líta að rökleysa felst í því að ákærði sé áfram á reynslulausn samhliða því að honum verður dæmd fangelsisrefsing í þessu máli.“

Sigurður sendi myndefnið á nafngreinda einstaklinga og myndirnar fóru í dreifingu á internetinu, eins og áður segir. Með því braut hann gegn blygðunarsemi mannsins. Sigurður á sér engar málsbætur, samkvæmt dómi héraðsdóms.

Mikill miski

Brotaþoli fór fram á tvær milljónir í miskabætur. Í dómi segir að þó sérfæðimat liggi ekki fyrir sé unnt að slá því föstu að brotin hafi valdið miklum miska. Ekki sé unnt að koma böndum á myndefni sem komið sé í umferð á netinu. Því var miskabótakrafa mannsins tekin til greina að fullu.

Sigurður var dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola. Hann greiðir brotaþola tvær milljónir króna, 2,8 milljónir í sakarkostnað og 1,1 milljón í þóknun til réttargæslumanns. Auk fangelsisrefsingarinnar er Sigurður því dæmdur til að greiða um sex milljónir króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af