Fáránleg forgangsröðun stjórnvalda: Lífshættuleg og lögleg fíkniefni til sölu

Rifist um áfengis- og rafrettufrumvarp á meðan nýjar og löglegar tegundir fíkniefna berast til landsins

Á Íslandi er Spice selt í innsigluðum glærum pokum. Lítið hefur sést af jafn skrautlegum umbúðum og sjást hér. Magnið er þó til staðar og það löglegt.
Lítur út eins og píputóbak Á Íslandi er Spice selt í innsigluðum glærum pokum. Lítið hefur sést af jafn skrautlegum umbúðum og sjást hér. Magnið er þó til staðar og það löglegt.

Verksmiðjuframleitt kannabislíki er nú boðið til sölu í lokuðum íslenskum Facebook-hópum en efnið er sagt kalla fram sömu áhrif og fást við grasreykingar. Munurinn á kannabisplöntunni sjálfri hins vegar og þessu verksmiðjuframleidda fíkniefni er sá að hin náttúrulegu kannabisefni eru bönnuð á Íslandi en verksmiðjuframleidda kannabislíkið er löglegt.

Samkvæmt lögum er því heimilt að eiga og neyta Spice en listinn sem heldur utan um bönnuð fíkniefni á Íslandi hefur ekki verið uppfærður frá árinu 2001. Sú uppfærsla er hins vegar á leiðinni samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu. Vinna við uppfærsluna hefur staðið yfir í um tvö ár og hefur að sögn tekið lengri tíma en áætlað var. Þó er vonast til að þeirri vinnu ljúki á þessu ári og að nýr og uppfærður listi yfir bönnuð vímuefni á Íslandi líti dagsins ljós mögulega í haust.

„Það væri mjög æskilegt að þetta tæki styttri tíma en tvö ár. Á þessum tíma hefur fjöldi nýrra efna orðið til Í Evrópu en við höfum hingað til verið einangruð fyrir þessu. Nú virðist þetta vera að dúkka upp þrátt fyrir að sum þessara efna hafi lengi verið til erlendis. Eins og til dæmis Spice-ið,“ segir Rafn M. Jónsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis.

Verkefnastjóri hjá embætti landlæknis bendir á að hægt sé að einfalda verkferlið þegar kemur að því að banna ný fíkniefni.
Rafn Magnús Tómasson Verkefnastjóri hjá embætti landlæknis bendir á að hægt sé að einfalda verkferlið þegar kemur að því að banna ný fíkniefni.
Mynd: Úr einkasafni

Breyta samsetningu til að sniðganga lög

En hvað er hægt að gera? Hvernig væri hægt að koma hættulegum og nýjum fíkniefnum á listann yfir bönnuð vímuefni án þess að það væri jafn tímafrekt og raun ber vitni? Rafn segir það stjórnvaldsákvörðun hversu hratt er hægt að uppfæra listann. Það ferli væri hins vegar hægt að betrumbæta. „Það væri mjög praktískt fyrir þá sem eru að sinna þessu eftirliti, eins og til dæmis lögregluembætti landsins og tollyfirvöld, að geta bæði komið ábendingum til stjórnvalda og óskað eftir því að hin og þessi efni séu sett á listann.“

En að komast að efnasamsetningu Spice, til þess að geta bannað efnið á Íslandi, gæti verið snúið þar sem framleiðendur efnisins eru sífellt að breyta samsetningu þess til þess að komast undan lögum og reglum um ávana- og fíkniefni. Spice er nefnilega samheiti yfir ótal mörg efni á meðan ólöglega efnið í náttúrulegu kannabisefnum er THC. Í Spice er THC-ið tekið út og hafa efnaverkfræðingar bætt við öðrum efnum sem veita áhrif sem líkjast áhrifum THC en þau efni geta verið fjölmörg og varasöm. Þar má nefna til dæmis Cannabicyclohexanol sem er fimm sinnum sterkara en THC og HU-210 sem er hundrað sinnum sterkara en THC. Það sem gerir efnið sérstaklega hættulegt er að neytandinn veit aldrei hvaða efnasamsetning er í umræddu Spice-efni og hvaða áhrif það kemur til með að hafa á líkams- og heilastarfsemi.

Stjórnvöld þurfa að hysja upp um sig

Á Íslandi fóru yfirvöld fyrst að taka eftir efninu í byrjun síðasta árs þó svo að það hafi mögulega verið til sölu hér á landi töluvert lengur. En það voru ekki lögregluyfirvöld sem fundu efnið fyrst heldur fangelsismálayfirvöld en Fréttablaðið greindi frá því í september í fyrra að Spice væri orðið nýja tískudóp fanga á Litla-Hrauni. „Spice getur litið alla vega út, eins og kaffikorgur, krydd eða hvað sem er. Við erum vakandi hér á Litla-Hrauni og erum oft að finna alveg ótrúlegustu hluti frá gestum og föngum, hvort sem það er Spice, sýra eða annað sem er verið að reyna að koma til fanga,“ sagði Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni.

„Það er afskaplega skrítið að hugsa til þess að á meðan alþingismenn rífast um áfengisfrumvarp eða lög um rafrettur þá eru hin ýmsu fíkniefni lögleg á Íslandi og enginn hefur uppfært listann yfir bönnuð fíkniefni í sextán ár. Við erum að tala um sextán ár,“ sagði lögreglumaður sem starfar meðal annars við rannsóknir á fíkniefnamálum. Hann óskaði nafnleyndar en taldi mikilvægt að benda á þessa skringilegu forgangsröðun stjórnvalda.

„Stjórnvöld þurfa að hysja upp um sig. Það er algjörlega út í hött að við séum svona langt á eftir þegar kemur að lífshættulegum fíkniefnum.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.