Leggja fram sömu þingmálin aftur og aftur

Yfir helmingur þingmála endurfluttur – Þingkona Pírata segir vinnulagið óþolandi tímasóun

Þingmál eru lögð fram aftur og aftur á Alþingi sökum þess að þau lifa ekki milli löggjafarþinga
Tímasóun Þingmál eru lögð fram aftur og aftur á Alþingi sökum þess að þau lifa ekki milli löggjafarþinga
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Af 49 lagafrumvörpum sem lögð hafa verið fram á Alþingi frá því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við völdum hafa 30 verið flutt áður. Á sama tíma hafa verið lagðar fram 40 þingsályktunartillögur. Þar af hafa 20 verið fluttar áður á fyrri þingum. Þingkona Pírata segir þetta vinnulag óþolandi tímasóun og ófaglegt.

60 prósent frumvarpa endurflutt

Af þeim 30 frumvörpum sem lögð hafa verið fram að nýju eru fjögur endurflutt af ráðherrum. Hin 26 eru svonefnd þingmannamál og af þeim eru 19 lögð fram af þingmönnum stjórnarandstöðunnar en sjö af stjórnarþingmönnum. Þarna má sjá nokkur býsna kunnugleg frumvörp, til að mynda frumvarp um afnám einkaréttar ríkisins á áfengissölu sem Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður að. Það mál hefur verið lagt fram áður í tvígang en ekki gengið til atkvæða. Þá hefur Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, lagt fram frumvarp um ætlað samþykki við líffæragjöf. Frumvarp sama efnis hefur verið lagt fram í tvígang og sömuleiðis hafa tvívegis verið lagðar fram þingsályktunartillögur þessa efnis. Ekkert þessara þingmála var afgreitt. Svandís Svavarsdóttir flytur nú í fjórða sinn frumvarp um textun myndefnis í fjölmiðlaveitum en það mál hefur aldrei orðið útrætt á fyrri þingum.

„Þetta mun líklega ekkert breytast, þetta verður sjálfsagt svona löngu eftir að ég er dauð“

Tillaga lögð fram í fimmta skipti

Ein þingsályktunartillaga er nú endurflutt af ráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra leggur á nýjan leik fram rammaáætlun en málið vakti gríðarharðar deilur á síðasta þingi og varð ekki útrætt. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt fram á nýjan leik fimmtán þingsályktunartillögur og stjórnarþingmenn endurflytja fjórar slíkar. Framsóknarþingmaðurinn Willum Þór Þórsson leggur þannig fram í þriðja sinn tillögu um mótun klasastefnu í atvinnulífinu. Vilhjálmur Árnason er þá fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll og er það í fimmta sinn sem sú tillaga er lögð fram.

Margbúið að ræða mál

Umrædd þingmál sem eru nú endurflutt hafa líkt og sjá má hér að framan sum hver ítrekað verið lögð fram áður. Mörg þeirra hafa því fengið ítarlega umfjöllun í nefndum þingsins og verið til umræðu í þingsal æ ofan í æ, án þess að nokkrar breytingar sem heitið geta hafi verið gerðar á þeim. Sem dæmi má nefna að Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hefur nú í fjórða sinn lagt fram þingsályktunartillögu um skipun starfshóps til að endurbæta löggjöf um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Með tillögunni fylgir greinargerð og sérstaklega er tekið fram að hún hafi fylgt tillögunni óbreytt frá því hún var fyrst lögð fram.

Þrátt fyrir það sem að framan er rakið hafa umrædd mál ekki komið til atkvæðagreiðslu heldur sofnað í nefndum. Þó sum málanna séu vissulega átakamál er rétt eins algengt að um sé að ræða mál sem ekki ríkja um verulegar pólitískar deilur og flutningsmenn málanna koma úr fjölda flokka.

Lengi verið rætt um breytingar

Ítrekað hefur verið til umræðu að breyta lögum þannig að þingmál lifi milli löggjafarþinga en eins og staðan er í dag þá falla þau dauð hafi ekki tekist að klára þau fyrir þinglok. Slík breyting var meðal annars til umræðu á síðasta kjörtímabili í vinnu er laut að breytingum á stjórnarskránni. Þær breytingar náðu hins vegar ekki fram að ganga. Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, hefur nú lagt fram frumvarp þess efnis að þingmál skuli lifa milli löggjafarþinga. Þess má til gamans geta að það frumvarp er einnig endurflutt.

Birgitta Jónsdóttir segir vinnubrögðin óþolandi og vill breyta þeim.
Vill breytingar Birgitta Jónsdóttir segir vinnubrögðin óþolandi og vill breyta þeim.
Mynd: DV-mynd Róbert Reynisson

Í DV var á dögunum fjallað um frumvarp Birgittu og vísað til álits tveggja fyrrverandi forseta Alþingis, sem báðir tóku vel í breytinguna sem frumvarpið fæli í sér. Hins vegar töldu þeir að vafi léki á að hægt væri að breyta þessum vinnubrögðum nema með stjórnarskrárbreytingu. Þessu segist Birgitta vera ósammála og telur ekkert því til fyrirstöðu að klára málið. „Það á bara að láta reyna á málið.“

„Verður sjálfsagt svona löngu eftir að ég er dauð“

Birgitta segir að þau vinnubrögð sem nú tíðkist séu óþolandi fyrir þingið, en ekki síður fyrir þá aðila sem kallað sé eftir umsögnum um þingmál frá. Að endurtekið þurfi að skila álitum um sömu mál sé ótækt. Spurð hvort hún telji líklegt að þetta frumvarp fái nú afgreiðslu segist hún svartsýn á það, í meira lagi. „Mér finnst ólíklegt að þessi ríkisstjórn bættra vinnubragða sé eitthvað öðruvísi en aðrar ríkisstjórnir sem á undan hafa gengið. Þetta mun líklega ekkert breytast, þetta verður sjálfsagt svona löngu eftir að ég er dauð.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.