„En að dæla niður fjórum börnum þegar maður er í fyrsta lagi ekki með neina vinnu“

„Fólk verður að finna sjálft til ábyrgðar“ - Sagði íslenskt „karríerfólk“ ekki hafa tíma fyrir barneignir

„Þetta sló mig aðeins. Af hverju ertu koma með fjórða barnið þegar þú ert búin að vera atvinnulaus í tíu ár og ert í vandræðum með að selja kannabisefni? Hver er hugsunin þar að baki?“ sagði Frosta Logason í útvarpsþættinum Harmageddon nú í morgun en þar var umræðuefnið meðal annars barneignir og ábyrgð.

Í þættinum minntist Frosti á nýlegt viðtal við Mikael Torfason í Silfri Egils en þar ræddi Mikael um þætti sína Fátækt fólk, og minntist á einn af viðmælendum sínum. Sú er 24 ára gömul einstæð móðir sem býr í félagslegri íbúð í Breiðholti og er ófrísk að sínu fjórða barni. Hún hefur ekki haft neina fasta atvinnu undanfarin ár og hefur meðal annars gripið til þess ráðs að selja kannabisefni til að framfleyta sér og börnunum.

Sagði Frosti að þeir sem hefðu efni á að fjölga sér væru ekki að eignast börn. Hinn venjulegi Evrópubúi hefði ekki tíma til barneigna. Á meðan sé barneignartíðnin há á meðal þeirra sem eru fátækir og illa upplýstir, bæði hérlendis sem og annars staðar á Vesturlöndum.

„Fólk á Íslandi sem er svona „karríerfólk“ sem er að vinna vinnuna sína, það hefur ekkert tíma. Í mesta lagi tvö börn. Þeir sem ráða við að vera með fleiri börn en það, það er fólk sem hefur í raun ekkert að gera í lífinu,“ sagði hann jafnframt og spurði hvar ábyrgðartilfinningin væri þegar manneskja væri að dæla niður fjórum börnum, þegar maður er í fyrsta lagi ekki með neinu vinnu en orðrétt sagði Frosti:

„En að dæla niður einhverjum fjórum börnum þegar maður er í fyrsta lagi ekki með neina vinnu.“

Frosti tók einnig sjálfan sig sem dæmi.

„Ég er búinn að vera með fasta vinnu síðan ég kláraði skóla. Ég tel mig ekki geta framfleytt nema bara einu barni í einu. Ég er með eitt barn núna, og svo bíður maður þangað til betur árar þangað til maður leyfir sér annað.“

Frosti sagði það vera jákvæða þróun að konur á Vesturlöndum væri ekki lengur bundnar við heimilið og fjölskylduna heldur hefðu val um að vera þáttakendur á vinnumarkaði.

„Það þýðir það hins vegar að við erum eignast færri börn. Hérna á Íslandi og á öllum Vesturlöndum erum við hætt að fjölga okkur. Par sem eignast tvö ,það er ekki einu sinni fjölgun. Það er bara að viðhalda sér.“

„Það er réttur allra að eiga börn. En gerir maður það ekki þegar maður er búinn að koma undir sig fótunum og hlutirnir farnir að líta nokkuð vel út?“ spurði Frosti síðan en bætti við að vissulega ætti ekki að fara að banna fólki að eiga börn.

„En fólk verður að finna sjálft til ábyrgðar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.