Mikael gagnrýndur af fyrrverandi undirmönnum: „Fyrir nýliða þótti 350 þús helvíti rausnarlegt“

Ekki virðast allir vera á eitt sáttir við það að Gunnar Smári Egilsson og Mikael Torfason hafi fengið áhuga á hag hinna verst stöddu í íslensku samfélagi líkt og Árni Snævarr, fyrrverandi fréttamaður og nú starfsmaður Sameinuðu þjóðanna, segir á Facebook-síðu sinni. Þá hafa Bergsteinn Sigurðsson og María Lilja Þrastardóttir fyrrum undirmenn Mikaels frá því að hann ritstýrði Fréttablaðinu undrast nokkuð þá umpólun sem orðið hefur á þessum árum sem frá eru liðin síðan hann ritstýrði þeim á Fréttablaðinu. Fleiri sem hafa unnið undir stjórn Mikaels hafa hnýtt í hann á samskiptamiðlum eftir að viðtalið fór á flug.

Segir Bergsteinn að Mikael hafi þótt 350 þúsund fyrir nýliða afar rausnarlegt og tekur undir með Árna Snævarr sem segir Gunnar Smára og Mikael hafa lagt sitt af mörkum í að halda blaðamennsku sem enn meiri láglaunastétt. Ásakanir Maríu Lilju eru alvarlegri en hún heldur fram að Mikael hafi neytt hana til að vinna launalaust á kvöldin. Mikael til varnar hefur hann sjálfur sagt opinberlega að hann hafi verið með æluna í hálsinum þegar hann var að semja við blaðamenn um laun eftir taxta Blaðamannafélagsins.

Viðtalið sló í gegn

Viðtal við Mikael Torfason í Silfri Egils hefur vakið gríðarlega athygli og víða verið deilt á samfélagsmiðlum en DV gerði því skil í gær. Mikael hefur látið sig fátækt á Íslandi varða að undanförnu og hafa þættir hans, Fátækt fólk, á Rás 1 á laugardögum vakið athygli. Mikael var gestur Egils Helgasonar í Silfrinu og flutti þar mikla eldmessu líkt og Gunnar Smári orðaði það á Facebook. Fór ræðan á mikið flug á samskiptamiðlum og gagnrýndi Mikael yfirvöld harðlega og sagði nýja fátækragildru að verða til og í hana féllu nú kennarar og hjúkrunarfræðingar. Mikael vandaði ekki Samtökum atvinnulífsins og ríkisstjórninni kveðjurnar.

„Þetta er ríkisstjórn atvinnulífsins,“ sagði Mikael og bætti við að Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra vildi ekki lög á leigufélög. „Vegna þess að rétturinn til að græða á fátæku fólki er svo ríkur.

Mikael hefur fengið gríðarlega mikið hrós fyrir framgöngu sína í Silfri Egils en hann fær einnig sinn skerf af gagnrýni. Árni Snævarr segir á Facebook-síðu sinni:

„Það er afar ánægjulegt að sjá að Gunnar Smári Egilsson og lærisveinn hans Mikael Torfason hafi fengið áhuga á hag hinna verst stöddu í íslensku samfélagi. Gunnar Smári hefur á undanförnum árum haft áhugamál sem yfirleitt duga í 6 mánuði til eitt ár og sér þá ekkert annað á meðan. Þessa stundina er það útgáfa fyrsta blaðs Sósíalistaflokks á Íslandi frá því Þjóðviljinn var og hét, en undanfarinn áratug hefur hann boðað trú á svo ólík fyrirbæri sem Noreg, bindindi, franska osta, Tógó, Jón Ásgeir Jóhannesson, útrásina og frjálshyggju almennt,“ segir Árni Snævarr sem kveðst taka mark á „sósíalisma Smárans“ í ljósi þess að hann hafi barist fyrir þeim málstað í tvö ár.

„Smári og Mikael vita reyndar hvað þeir eru að tala um þegar lág laun eru annars vegar því eins og aðrir hafa greint frá, hafa þeir sannarlega gert sitt til að gera starf íslenskra blaðamanna að launalitlu hugsjónastarfi. Batnandi mönnum er best að lifa - og skemmtilegt að samstarfsmaður Smára í Þjóðvillja-útgáfunni er einmitt bróðir útgefanda auðvaldspressunar á Fréttablaðinu.“

Fyrrverandi starfsmenn gagnrýna Mikael

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mikael Torfason var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins árið 2013. Ráðning hans var umdeild og hætti Steinunn Stefánsdóttir aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins í kjölfarið. Taldi hún að henni hefði verið ýtt til hliðar með ráðningu á Mikael, en hann hefði tekið yfir hennar starfssvið og skrifstofu. Nokkrir starfsmenn hættu og aðrir komu í staðinn. Þannig greindi Pressan frá því að Mikael Torfason hefði ráðið Hönnu Ólafsdóttur og Maríu Lilja Þrastardóttir. María Lilja hafði vakið verðskuldaða athygli á Fréttatímanum og ákvað að fylgja Mikael yfir á Fréttablaðið. Þykir Maríu Lilju undarlegt að fylgjast með Mikael „á nýju vegferð sinni sem frelsari fátæka fólksins.“

Segir María Lilja að Mikael hafi hlegið þegar hún bað um launahækkun. Hún hafi verið með í kringum 300 þúsund í laun.

„Hann sagði mér bara að forgangsraða betur í lífinu,“ segir María Lilja og bætir við að hann hafi neytt hana til að vinna launalaust langt fram á kvöld margar klukkustundir í viku. „Ég var þræll og átti að vera fegin brauðmolunum sem hann henti til mín úr fílabeinsturninum sínum.“

Þá segir María Lilja enn fremur:

„Einu sinni, þegar ég stofnaði kvenfélag utan um samstarfskonur mínar og við kröfðumst jafnlaunavottunnar, barnagæslu (því við unnum alltaf fram eftir) og dömubinda, tók hann mig á eintal og bauð mér persónulega hærri laun ef ég myndi hætta með læti. Það hugnaðist mér ekki en þá mælti hann hin fleygu orð „sósjalistar komast aldrei til valda, hugsaðu um það.“

Blaðamaðurinn Atli Þór Fanndal tekur einnig þátt í umræðum á Facebook-síðu Maríu Lilju um viðtalið og segir:

„Ég sé að margir eru voðalega fúlir yfir því að menn hoppi ekki á vagninn og fagni bara gagnrýnislaust að talað sé núna um fátækt. Þetta er samt alveg frábært tækifæri til að segja frá framkomu Mikaels og Gunnars Smára í gegnum tíðina. Legg til að fólk hlusti ekkert á hugmyndir um að það megi ekki gagnrýna fyrir fyrri verk. Það er bara eðli umræðu sem við erum alltaf að reyna að klára og sleppa við af einhverri ástæðu. Það er bara miklu meira en eðlilegt að menn svari fyrir fyrri gjörðir þótt menn hafi fundið jesú.“

Fagna umræðunni

Bergsteinn Sigurðsson vann á Fréttablaðinu í mörg ár. Hann starfar núna á RÚV og er einn af umsjónarmönnum Kastljóss. Bergsteinn sagði upp á Fréttablaðinu tveimur mánuðum eftir að Mikael var ráðinn ritstjóri. Á Eyjunni er vitnað í Bergstein en um framgöngu Mikaels hafði hann þetta að segja:

„Mikið vatn runnið til sjávar síðan ég hlustaði á Mikka lýsa því að 470 þúsund kall væru bara helvíti fín laun fyrir blaðamann með níu ára starfsaldur á sama stað. (Fyrir nýliða þótti 350 þús helvíti rausnarlegt.)

Það var fyrir fjórum árum síðan, á sama tíma og hann tók til við að reka allt fólk með reynslu (og laun yfir 470 þús væntanlega) af Fbl. og lagði sitt af mörkum í að halda blaðamennsku sem enn meiri láglaunastétt en hún hefur verið (væntanlega og vonandi hafa hans eigin laun verið eitthvað ríflegri).“

Fleiri starfsmenn sem komu að Fréttablaðinu hafa gagnrýnt Mikael en fagna um leið að umræðan um fátækt hafi orðið háværari og fyrirferðarmeiri á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. En viðtalinu við Mikael hefur eins og áður segir verið deilt víða á samskiptamiðlum. Hið fræga innslag má svo sjá hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.