Þrælað út á ökrunum og beittar kynferðisofbeldi af landeigendum

Vinna við garðyrkju eða á akri er ekkert grín. Myndin er úr safni.
Erfiðisvinna Vinna við garðyrkju eða á akri er ekkert grín. Myndin er úr safni.
Mynd: 123rf.com

Rúmenskar konur sem stunda landbúnaðarstörf sem farandverkamenn á Sikiley sæta nauðgunum, barsmíðum og annarri misnotkun af hálfu vinnuveitenda sinna sem eru ítalskir bændur. Konurnar koma til Ítalíu, gjarnan í fylgd með eiginmönnum sínum, og starfa við jarðyrkju og grænmetisræktun.

Rúmenía hefur verið hluti af sameiginlegum vinnumarkaði Evrópusambandsins síðan 2006. Þar af leiðandi njóta rúmenskir borgarar ferða- og atvinnufrelsis innan sambandsins sem og á evrópska efnahagssvæðinu svo sem á Íslandi. Landbúnaður á Suður-Ítalíu hefur mikla þörf fyrir láglaunað vinnuafl. Oftast er um að ræða fólk sem starfar undir löglegum lágmarkslaunum en yfirvöld horfa fram hjá því vegna þess að án fólksins væri ekki hægt að stunda arðbæran landbúnað á þessum slóðum.

Úr 36 í fimm þúsund

Talið er að um 120 þúsund erlendir farandverkamenn starfi nú við þessa grein á Suður-Ítalíu. Rúmenskum konum hefur fjölgað mjög mikið síðan 2006. Þá voru þær t.a.m. aðeins 36 í Ragusa-héraði á Sikiley en eru nú taldar vera yfir fimm þúsund talsins. Ragusa-hérað er þriðja stærsta grænmetisframleiðslusvæði Evrópu. Rúmenska verkafólkið hefur í mörgum tilvikum tekið yfir störf sem áður voru skipuð af ólöglegum innflytjendum og flóttafólki frá Norður-Afríku þar sem bændur og gróðurhúsaeigendur óttast lögsóknir ef þeir ráði slíkt fólk til starfa.

Hótað atvinnumissi

Nicoleta Bolos er ein þeirra rúmensku kvenna sem hafa leitað til Sikileyjar að vinnu. Í samtali við breska blaðið The Guardian lýsir hún því hvernig húsbóndi hennar misnotaði hana kynferðislega um nætur meðan eiginmaður hennar lá í öngviti utandyra eftir taumlausa drykkju.

„Í fyrsta sinn sem þetta gerðist þá sagði maðurinn minn að ég yrði að gera þetta. Eigandi gróðurhússins sem við unnum í vildi sofa hjá mér og ef ég neitaði þá myndi hann ekki greiða okkur laun og við yrðum rekin af landareign hans. Ég hélt að maðurinn minn væri búinn að missa vitið og þegar ég hafnaði þessu barði hann mig. Hann sagði að ég yrði að gera allt sem yfirmaður okkar skipaði mér að gera. Að öðrum kosti yrðum við atvinnulaus. Þegar vinnuveitandi minn kom, ógnaði hann mér með byssu og hótaði að skjóta af mér hausinn reyndi ég að komast undan. Þegar hann hafði lokið sér af þá gekk hann bara í burtu.“

Engar undankomuleiðir

Talið er að aðstæður og kjör rúmenska farandverkafólksins sem vinnur landbúnaðarstörf á Suður-Ítalíu séu með þeim endemum að hér sé á ferðinni mannréttindahneyksli sem eigi eftir að vinda upp á sig. Ítölsku mannréttindasamtökin Proxyma áætla að rúmlega helmingur rúmenskra kvenna sem starfar þarna í gróðurhúsum séu misnotaðar af vinnuveitendum sínum. Nær allar starfi við skilyrði sem falli undir þrælkun og aðra misnotkun. Þetta séu um 7.500 konur. Konurnar eigi sér fáar undankomuleiðir. Heima í Rúmeníu eigi þær börn og ættingja sem reiði sig á að þær sendi heim peninga af launum sínum. Í Rúmeníu ríkir víðast mikið atvinnuleysi.

Lögreglumaður á Sikiley staðfestir þetta í samtali við The Guardian. Sagði hann að konurnar sem væru að vinna á ökrunum sem þrælar væru misnotaðar af eigendum landsins eða gróðurhúsanna.

„Það er ekki auðvelt að rannsaka þessi mál eða koma í veg fyrir þetta því flestar konurnar eru of skelkaðar til að greina sjálfar frá þessu.“

Tíðar fóstureyðingar

Ein afleiðing þessa er sú að fjöldi rúmenskra kvenna sem óska eftir fóstureyðingum er mjög mikill á Sikiley. Þær eru aðeins fjögur prósent af konum í Ragusa-héraðinu en samt er fimmta hver fóstureyðing þar gerð á konum frá Rúmeníu.

Reynt hefur verið að fá ítölsk stjórnvöld til að rannsaka þessi mál en án árangurs. Ítalski þingmaðurinn Marisa Nicchi lagði fram tillögu um slíkt í ítalska þinginu árið 2015 en fékk engin viðbrögð. Nú, tveimur árum síðar, hefur ekkert verið gert.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.