„Þegar við leggjumst á koddann í kvöld þá eigum við að skammast okkar“

Mikael Torfason um fátækt - Vandaði ríkisstjórninni ekki kveðjurnar

Mikael Torfason hefur kynnt sér fátækt á Íslandi að undanförnu og rifjaði upp nýleg dæmi af fólki sem hann hefur rætt við.
Fátækt á Íslandi Mikael Torfason hefur kynnt sér fátækt á Íslandi að undanförnu og rifjaði upp nýleg dæmi af fólki sem hann hefur rætt við.

„Þegar við leggjumst á koddann í kvöld þá eigum við að skammast okkar,“ sagði rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Mikael Torfason í Silfrinu í dag. Mikael hefur látið sig fátækt á Íslandi varða að undanförnu og hafa þættir hans, Fátækt fólk, á Rás 1 á laugardögum vakið nokkra athygli. Mikael ræddi fátækt í Silfrinu í dag og lét ríkisstjórnina meðal annars heyra það.

Egill Helgason spurði Mikael hverjir hinir fátæku væru á Íslandi. Mikael nefndi sem dæmi að hann hefði fyrir skemmstu rætt við tveggja bara einstæða móður sem er menntaður kennari. Hún leigir íbúð á 190 þúsund krónur á mánuði sem Mikael sagði að væri heppilegt í ljósi þess að hún leigði af einstaklingi.

Dæmið gengur ekki upp

„Hún myndi leigja þessa sömu íbúð á 230, 250-260 þúsund ef hún myndi leigja af Gamma eða kvótakóngunum. Þú þarft ekki að vera neinn stærðfræðingur, þú getur fallið á samræmdu prófunum eins og ég, til að sjá að dæmið gengur ekki upp. Hún er með 300 þúsund krónur útborgaðar,“ sagði Mikael sem bætti við að ekkert mætti koma upp á hjá henni. Benti hann á að konan hefði unnið aukavinnu á sambýli til að ná endum saman, en þar hefði hún orðið fyrir líkamsárás. „Þegar ég hitti hana þá lá hún heima og gat ekki unnið aukavinnuna,“ sagði Mikael sem bætti við að konan væri við það að falla í fátæktarpyttinn eins og hann orðaði það. „Þú sekkur alveg og það má ekkert koma upp á.“

„Hún myndi leigja þessa sömu íbúð á 230, 250-260 þúsund ef hún myndi leigja af Gamma eða kvótakóngunum.“

Fátæk í túristasprengjunni

„Ég talaði líka við verkafólk í Sandgerði, konan vinnur við ræstingar í Leifsstöð, er í túristasprengjunni svokölluðu og maðurinn vinnur við húsasmíðar. Þau eru langt undir fátæktarmörkum,“ sagði Mikael sem sagði að það hefði verið sjokkerandi fyrir þau að fara inn á heimasíðu velferðarráðuneytisins þar sem hægt er að nálgast reiknivél fyrir neysluviðmið. Þar hefði komið í ljós að þau væru langt undir öllum mörkum.

Sökk niður í kvíða og þunglyndi

Mikael nefndi svo þriðja dæmið af stúlku sem hann ræddi við sem horfði upp á móður sína sökkva niður í kvíða og þunglyndi sökum fátæktar. Móðirin bjó í félagslegu húsnæði í Vesturberginu. „Hún skúraði Kaupþing í góðærinu. Hún horfði á hana sökkva niður í kvíða og þunglyndi í stórkostlegu góðæri þar sem hún var á endanum komin á örorkubætur, búin að vera á líkama og sál. Þetta er veruleiki þessa fólks. Við ætlum að gera það sama við kennara,“ sagði Mikael sem sagðist hafa lesið nýlega að byrjunarlaun hjúkrunarfræðings á Landspítalanum væru 370 þúsund krónur.

„Ríkisstjórn atvinnulífsins“

Mikael vandaði ekki Samtökum atvinnulífsins og ríkisstjórninni kveðjurnar. „Þetta er ríkisstjórn atvinnulífsins,“ sagði hann og bætti við að Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra vildi ekki lög á leigufélög. „Vegna þess að rétturinn til að græða á fátæku fólki er svo ríkur. Það er eignarrétturinn, það er eignarréttur kvótakóngsins sem græddi tvö þúsund og eitthvað milljónir í fyrra á að leigja fátæku fólki sem hefur ekki efni á að kaupa sér íbúð. Fjórir af hverjum tíu undir þrítugu hafa ekki efni á að flytja að heiman. Hafa bara ekki efni á því,“ sagði hann og bætti við að íslenskir kjósendur ættu að skammast sín því í dag værum við að horfa upp í „gin ljónsins“.

Innslagið í Silfrinu má sjá hér að neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.