Manaður í að stökkva út í á: Það hefði hann betur látið ógert

Lee de Paauw, átján ára ástralskur piltur, hugsar sig væntanlega tvisvar um áður en hann tekur áskorun frá félögum sínum aftur.

Lee gekkst undir aðgerð í morgun eftir að hafa verið bitinn af krókódíl í norðurhluta Queensland í Ástralíu. Breska blaðið Guardian segir frá þessu.

Lee var manaður til að stökkva út í ána af félögum sínum og tók hann þeirri áskorun. Ekki leið á löngu þar til hann var kominn í gapandi gin krókódílsins sem læsti tönnunum í annan handlegg hans.

Í frétt Guardian kemur fram að hinn átján ára Lee hafi verið með talsverða áverka og var hann fluttur í skyndi á sjúkrahús. „Samkvæmt okkar upplýsingum var skorað á hann að stökkva út í sem hann gerði. Því miður er þetta svæði mjög þekkt krókódílasvæði,“ segir sjúkraflutningamaðurinn Neil Noble.

Talið er að um svokallaðan saltvatnskrókódíl hafi verið að ræða, en þeir eru í hópi hættulegustu dýrategunda Ástralíu. Frá árinu 1985 hafa slíkir krókódílar orðið átta manns að bana í Queensland.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.