Fréttir

Fangi læstur í heitri sturtu í tvo tíma: Fangaverðirnir verða ekki ákærðir

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Sunnudaginn 19. mars 2017 21:30

Fjórir fangaverðir sem lágu undir grun um að hafa átt beinan þátt í dauða Darren Rainey, fanga í Flórída sem lést fyrir fimm árum.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og ekki síður krufningaskýrsla sem gefin var út í janúar í fyrra og DV fjallaði meðal annars um.

Darren, sem var andlega veikur, sat inni í Dade-fangelsinu vegna fíkniefnamisferlis. Eftir að hann braut agareglur í fangelsinu, með því að hafa hægðir á gólf fangaklefans sem hann afplánaði í, var hann settur í sturtu og hann látinn dúsa þar í tvær klukkustundir. Vatnið var brennandi heitt og er talið að það hafi 70 til 80 gráðu heitt.

Aðrir fangar sögðust hafa heyrt neyðarópin í Darren en á sama tíma hafi fangaverðir hlegið og spurt hann hvort sturtan væri nógu heit. Hjúkrunarfræðingur í fangelsinu sagði á eftir að Darren hefði verið með brunasár á 90 prósentum líkamans. Í frétt Miami Herald kemur fram að sex samfangar Darrens hafi borið vitni um það að fangaverðir refsuðu föngum með því að setja þá í heita sturtu.

Saksóknaraembættið í Miami-Dade gaf það út á föstudag að engar sannanir væru fyrir því að þeir fangaverðir sem voru á vakt hafi gerst sekir um glæpsamlegt athæfi og því væri ólíklegt að ákæra myndi leiða til sakfellingar. Var málið því látið niður falla. Að sögn fjölmiðla vestanhafs byggðist niðurstaðan á krufningarskýrslu sem gefin var út í fyrra en hefur þó aldrei birst opinberlega. Þar kom fram að Darren hefði látist vegna geðrofs, hjartasjúkdóms og innilokun [e.confinment].

Lögmaður fjölskyldu Darrens segir að aðstandendur hans hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með lyktir málsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af