„Stefnan virðist vera sú að taka af manni hverja einustu krónu.“

Félagsbústaðir hækka leigu á aldraða um 80 - 125%

Segir að hækkanir Félagsbústaða hf. á leigu í Seljahlíð séu til skammar.
Ingibjörg S. Finnbogadóttir Segir að hækkanir Félagsbústaða hf. á leigu í Seljahlíð séu til skammar.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Brot úr grein í helgarblaði DV. Í henni kemur fram að Félagsbústaðir hf., sem eru í 100% eigu Reykjavíkurborgar, hafi keypt þjónustuíbúðirnar í Seljahlíð í Breiðholti af borginni. Fyrsta verkið var að segja upp leigusamningum hinna öldruðu íbúa frá og með 1.apríl. Þegar árs uppsagnafrestur er liðinn þá býðst íbúunum að skrifa undir nýja leigusamninga þar sem húsaleigan hækkar um 80-125%. Í kynningu fyrirtækisins var hækkunin sett í þann búning að íbúar gætu sótt um húsaleigubætur. Íbúar í Seljahlíð eru afar ósáttir við þessar breytingar og í samtali við DV bendir Ingibjörg S. Finnbogadottir, sem situr í húsráði, að íbúðirnar uppfylli ekki skilyrði í lögum um húsaleigubætur þar sem að í þeim er engin séreldunaraðstaða. Að hennar sögn eru hækkanirnar til skammar.

Í Seljahlíð eru hjúkrunarheimili og þjónustuíbúðir, bæði fyrir einstaklinga og hjón. Ingibjörg býr í þjónustuíbúð fyrir hjón en þar bjó hún ásamt eiginmanni sínum, Ingólfi Kristjánssyni. Ingólfur féll nýlega frá og nú býr hún ein íbúðinni. „Í dag borga ég 58 þúsund krónur í leigu fyrir íbúðina en eftir hækkunina þá mun ég þurfa að borga 105.000 krónur í leigu. Það er fyrir utan fjölmörg önnur gjöld sem gera að verkum að ég næ ekki endum saman,“ segir Ingibjörg, sem upplýsir blaðamann um að mánaðarlegar tekjur hennar frá Tryggingastofnun séu 230.000.

Í dag eru heildarútgjöld hennar vegna húsnæðisins um 110 þúsund krónur á mánuði en eftir leiguhækkunina verða útgjöldin um 158 þúsund krónur. Að auki er ráðgert að íbúar byrji að greiða sérstaklega fyrir rafmagn og hita auk þess að greiða í hússjóð. „Íbúar hérna eru afar ósáttir við þessar breytingar en það er eins og borgaryfirvöld séu fullkomlega skeytingarlaus um eldri borgara. Við eigum ekki rödd og því skiptir ekki máli hvernig komið er fram við okkur,“ segir Ingibjörg.

„Stefnan virðist vera sú að taka af manni hverja einustu krónu.“

„Hvergi hægt að fá skýr svör“

Hún hefur sjálf barist um á hæl og hnakka vegna fyrirhugaðra breytinga en er ekki hrifin af framkomu embættismanna. „Hvert sem ég leita þá er hvergi hægt að fá skýr svör. Ég er búin að hafa samband við velferðarráð, velferðarsvið og núna síðast umboðsmann borgarbúa,“ segir Ingibjörg. Sem dæmi nefnir hún þjónustugjöld upp á 22.820 krónur sem hún þarf að borga á mánuði. „Ég hef óskað eftir sundurliðun á þessum gjöldum en það virðist ekki vera hægt. Ég fæ það bara uppgefið að innifalin sé sólarhringsvarsla, læknisþjónusta, húsvarsla, þrif á lóð og sameign, stjórnunar- og umsýslukostnaður og aðgangur að sjónvarpi í setustofu. Við lögðum reyndar í púkk og keyptum það sjálf,“ segir Ingibjörg og hlær.

Föst útgjöld Ingibjargar

Fyrir hækkun:

Leiga: 58.214 kr.

Þjónustgjald: 22.820 kr.

Heimaþjónusta: 4.700 krónur

Þvottur: 2.255 krónur

Setustofa: 1.275 krónur

Fæði (aðeins hádegismatur): 21.545 krónur

Samtals: 110.809 krónur

Eftir hækkunina mun heildarkostnaðurinn hækka í 157.595. Þá mun einnig bætast við kostnaður vegna rafmagns og hita, sem hingað til hefur verið innifalinn í leigunni, auk sem tekið verður upp viðhaldskerfi þannig að íbúar þurfa að greiða í hússjóð. Ekki liggur fyrir hversu háar upphæðir er um að ræða.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.