Fréttir

64 ára kona er elsta móðir Spánar

Auður Ösp
Miðvikudaginn 15. mars 2017 19:00

Mauricia Ibanez varð elsta móðir Spánar eftir að hún ól tvíbura í febrúar síðastliðnum. Gagnrýnisraddirnar hafa ekki látið á standa en sjálf spyr Mauricia hvers vegna fólk hneykslist á ákvörðun hennar á meðan karlmenn á hennar aldri geti átt börn án þess að nokkur geri við það athugasemdir.

Tvíburarnir, drengur og stúlka voru teknir með keisaraskurði á sjúkrahúsi í borginni Burgos í norðurhluta landsins en Mauricia varð ófrísk eftir að hafa gengist undir frjósemismeðferð í Bandaríkjunum. Hefur hún fengið að heyra ófáar athugasemdir varðandi þá ákvörðun sína að eignast barn á sjötugsaldri. Í samtali við spænska miðilinn El Pais kveðst hún hins vegar ekki líta á aldur sinn sem hindrun í móðurhlutverkinu.

„Ég hef engar áhyggjur af aldrinum. Ég er vissulega gömul en samt sem áður tókst mér að verða ófrísk,“ segir hún og bætir við að það að eignast börn á gamals aldri sé „sannkölluð gjöf.“

Mynd/Cuatro
Mynd/Cuatro

Mauricia á eitt barn fyrir, sex ára gamla stúlku en hún missti forræðið yfir dóttur sinni eftir að hafa verið greind með persónuleikaröskun fyrir nokkrum árum. Hefur það gert gagnrýnisröddunum enn hærra undir höfði. Hún berst nú fyrir því að fá forræðið á nú og segir í samtali við El País að henni dreymi að skapa sér framtíð með elstu dótturinni og systkinum hennar tveimur.

Elsta móðir heims sem vitað er um er hin sjötuga indverska Daljinder Kaur sem ól dreng árið 2015, þá sjötug að aldri. Þá er elsta móðir Bretlands Elizabeth Adeney sem eignaðist dreng árið 2009, þá 66 ára að aldri. Rétt eins og Mauricia hafði hún gengist undir frjósemismeðferð erlendis áður en hún varð ófrísk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af