Airbnb vinsælla en hótelherbergi á Íslandi

Talið er að nánast helmingur af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins á árinu komi til með að koma frá ferðamönnum sem nú vilja í síauknum mæli gista í Airbnb-íbúðum í stað þess að bóka hótelherbergi.

Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka velja hlutfallslega fleiri ferðamenn að gista í íbúðarhúsi, orlofshúsi eða heimagistingu.
Vilja frekar Airbnb Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka velja hlutfallslega fleiri ferðamenn að gista í íbúðarhúsi, orlofshúsi eða heimagistingu.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þeir sem kvörtuðu undan fjölda ferðamanna á landinu í fyrrasumar þurfa heldur betur að anda með nefinu á þessu ári því samkvæmt spá Íslandsbanka mun einn af hverjum fimm einstaklingum á landinu næsta sumar verða ferðamaður. Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu á þessu ári sem kynnt var á fimmtudag.

„Mikilvægi ferðaþjónustu í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins, á vinnumarkaði og í landsframleiðslu mun þar af leiðandi enn aukast. Greinin mun því halda áfram að auka umfang sitt í hagkerfinu og styrkjast sem máttarstólpi í íslensku samfélagi. Íslandsbanki gefur í ár út skýrslu um íslenska ferðaþjónustu í þriðja sinn. Með útgáfunni vill Íslandsbanki leggja sitt af mörkum við að upplýsa um stöðu ferðaþjónustunnar. Er það von okkar að skýrslan reynist gagnleg og góð viðbót við þá miklu umfjöllun sem greinin hefur alið af sér og verðskuldar,“ segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.

90 prósent með flugi

Fjölmargir áhugaverðir punktar eru í skýrslunni en þar kemur meðal annars fram að Íslandsbanki spáir því að 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja Ísland á þessu ári en það er fjölgun sem nemur um þrjátíu prósentum frá síðasta ári.

Gangi spáin eftir mun ferðamönnum því fjölga um 530 þúsund milli áranna 2016 og 2017 sem er metfjölgun á einu ári hér á landi.

Þá segir einnig að rúmlega 90 prósent erlendra ferðamanna komi til með að ferðast hingað með flugi en til samanburðar má nefna að þetta hlutfall er um 54 prósent í öðrum ríkjum OECD. Hvað gistingu varðar þá hefur það mikið verið rætt að undanförnu hversu margar Airbnb-íbúðir bjóðast nú ferðamönnum víðs vegar um landið en samkvæmt skýrslunni velja hlutfallslega fleiri erlendir ferðamenn að gista í íbúðarhúsi, orlofshúsi eða heimagistingu og færri á hótelum og gistiheimilum.

Airbnb flæðir yfir markaðinn

„Haldi gistiþjónusta í gegnum Airbnb áfram að vaxa líkt og á undanförnum árum má ætla að afkastageta Airbnb í Reykjavík verði orðin sambærileg við afkastagetu allra hótela höfuðborgarsvæðisins til samans á líðandi ári,“ segir í skýrslunni.

Að meðaltali voru um þrjú hundruð íbúðir í útleigu öllum stundum á Airbnb á árinu 2015 og um 809 á árinu 2016. Segir í skýrslunni að þetta sé fjölgun um 509 íbúðir en til samanburðar voru 399 fullgerðar nýjar íbúðir í Reykjavík á árinu 2016.

„Fjölgun íbúða í heilsársútleigu Airbnb hefur því verið talsvert umfram fjölgun nýrra íbúð í Reykjavík yfir sama tímabil og þannig átt stóran þátt í mikilli hækkun íbúðaverðs á svæðinu,“ segir í skýrslunni.

Þá hefur gistiþjónusta á landsbyggðinni einnig vaxið hraðar en á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013 en þær gistinætur, það er að segja gistinætur á landsbyggðinni, eru um þessar mundir rúmlega helmingur allra seldra gistinátta á landsbyggðinni. Þrátt fyrir það kemur fram í skýrslunni að engu að síður séu árstíðasveiflur enn vandamál á landsbyggðinni þrátt fyrir að þær hafi minnkað nokkuð á undanförnum árum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.